132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hérna ræðum við skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2005. Þetta er sennilega eina alþjóðaráðið þar sem Ísland getur litið á sig sem stórveldi. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að í þessu ráði erum við með þjóðum sem eru minni en við, Færeyingum og Grænlendingum. Þarna er Ísland stóri bróðirinn í félagsskap þriggja bræðra- eða systraþjóða.

Ég hef nokkra reynslu af því að starfa í Vestnorræna ráðinu, ekki mikla, en ég hef þó verið þar frá því ég settist á þing vorið 2003. Veru minni í ráðinu lauk síðastliðið haust eftir að hafa setið ársfund ráðsins sem var haldinn á Ísafirði seinni hluta ágúst, ef ég man rétt. Síðan tók félagi minn Sigurjón Þórðarson, hv. þingmaður Frjálslynda flokksins, við. Ekki vegna þess að ég væri neitt leiður á því að vera þarna, síður en svo, virðulegi forseti, því það var mjög ánægjulegt að starfa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. En við í þingflokki Frjálslynda flokksins teljum hins vegar að þetta starf sé svo mikilvægt og dýrmætt að eðlilegt sé að fleiri þingmenn þingflokksins fái að taka þátt í því og ekki síst að mynda tengsl við þingmenn frá bæði Færeyjum og Grænlandi, það er mjög dýrmætt.

Í inngangi skýrslunnar segir að í starfi í Vestnorræna ráðsins leitist þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna að sjálfsögðu, að taka þátt í hinu norræna samstarfi, og þetta er mjög gefandi starf.

Hv. þm. Halldór Blöndal, formaður okkar Íslendinga í þessu starfi, greindi frá því að rætt hefði verið um flugsamgöngur á milli Reykjavíkur og Narsarsuaq. Það mál brennur mjög á frændum okkar á Grænlandi, þ.e. flugsamgöngur milli Íslands og Grænlands. Flugsamgöngur skipta Grænlendinga afskaplega miklu máli og ég tel að þar sé á ferðinni mjög mikilvægt mál, þ.e. hvernig ætlum við að haga góðum, skilvirkum og öruggum samgöngum á milli Íslands og Grænlands.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að þótt ekki sé langt á milli Íslands og Grænlands í kílómetrum talið þá er fjarlægðin eins og milli heimsálfa þegar kemur að samgöngum. Það er erfitt og dýrt að fara á milli Íslands og Grænlands. Þetta er á margan hátt mikið vandamál sem kemur sér illa, tel ég, fyrir okkur Íslendinga. Það kemur sér líka illa fyrir Grænlendinga. Hér er talað um að þriggja ára samningur um stuðning við þessar flugsamgöngur hafi runnið út í lok ársins 2005 en síðan virðist hafa fengist niðurstaða í þetta mál og tvö flugfélög munu sjá um sumarflug milli Íslands og Grænlands.

Mig langar að nota tækifærið, virðulegi forseti, og spyrja út á hvað þessi samningur gangi. Tvö flugfélög eiga að sjá um sumarflug milli Íslands og Grænlands. Hver verður tíðnin á þessu flugi? Um hvaða mánuði erum við að tala og var skoðað hvort einhver grundvöllur væri fyrir flugi milli Íslands og Grænlands yfir vetrarmánuðina einnig? Ég tel að það ætti að vera markmiðið, að hér væru fastar áætlunarferðir allan ársins hring á milli Íslands og Grænlands.

Bent hefur verið á að vestnorrænu þjóðirnar, eins og hinn ágæti færeyski þingmaður Henrik Old sem er núna formaður Vestnorræna ráðsins hefur lagt áherslu á, ættu að standa saman og reyni að tala saman einni röddu og ganga í takt til að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum. Þetta kemur reyndar fram í þeim ályktunum sem þingmenn Vestnorræna ráðsins hafa lagt fram. Hér var talað um þingsályktunartillögu, t.d. varðandi tengsl þjóðanna við Evrópusambandið og mikla hagsmuni sem þessar þrjár þjóðir eiga gagnvart Evrópusambandinu í fiskveiðimálum, sem er réttmæt ábending. Ég fór yfir það í ræðu um daginn, þegar hv. þm. Halldór Blöndal mælti fyrir þessari þingsályktunartillögu, að þar eru miklir hagsmunir og mikilvægt að þessum þremur þjóðum takist að stilla betur saman strengi sína gagnvart Evrópusambandinu.

Eins hefur verið rætt um aukið samstarf á sviði talningar á hvölum í Norður-Atlantshafi. Hér erum við að tala um rannsóknir. Grænlendingar og Færeyingar stunda hvalveiðar án þess að verða fyrir aðkasti á alþjóðavettvangi. Það gera Norðmenn sömuleiðis. Við Íslendingar hins vegar heykjumst á að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni. Því ber þó að fagna að hæstv. sjávarútvegsráðherra gaf það í skyn eftir fyrirspurn frá þeim sem hér stendur, að íslensk stjórnvöld væru að undirbúa hvalveiðar á ný í atvinnuskyni. Hann vildi ekki gefa upp hvenær það yrði en ég vona sannarlega að svo verði strax í sumar. Þarna hafa þessar þrjár þjóðir lagst á eitt með að stunda saman rannsóknir á hvölum sem er hið besta mál.

Umhverfisvænir orkugjafar og náttúruvernd skipta þjóðirnar einnig máli. Við Íslendingar búum yfir mikilli þekkingu á því að virkja vatns- og gufuaflið. Færeyingar hafa gert athyglisverðar tilraunir á sviði vindorku. Grænlendingar eiga hins vegar við stöðugan vanda að stríða vegna orkuöflunar. Lítið er um fallvötn á Grænlandi. Þar er ekkert gufuafl, enginn jarðhiti og lítil vindorka. Ég hygg að við Íslendingar, jafnvel Færeyingar líka, gætum lagt nokkuð að mörkum við að aðstoða Grænlendinga í sambandi við vistvæna orkuöflun. Ég held að í dag reiði Grænlendingar sig að mestu á brennslu eldsneytis, þ.e. kolefnaeldsneytis, olíu og kola. Þarna gæti hugsanlega verið sóknarfæri fyrir þá til að taka upp vistvænni orkugjafa.

Ég held að það hafi verið fyrir tveimur árum síðan, suður í Svartsengi, að haldin var svokölluð þemaráðstefna á vegum Vestnorrænna ráðsins. Þar vorum við einmitt að tala um orkumál. Það var afskaplega fróðleg og góð ráðstefna þar sem komið var inn á alla þessa þætti.

Það kemur fram í skýrslunni að forseti norska þingsins var á ársfundinum sem haldinn var á Ísafirði 22.– 24. ágúst, Lodve Solholm, þingmaður norska Framfaraflokksins. Norska Stórþingið hefur sýnt Vestnorræna ráðinu mikla virðingu, virðulegi forseti, á mörgum undanförnum árum. Allan þann tíma sem ég var í Vestnorræna ráðinu þá komu þangað forsetar norska Stórþingsins þegar við héldum ársfundi. Jørgen Kosmo kom 2003, Inge Lønning kom árið 2004 og svo kom Lodve Solholm í fyrra.

Hvers vegna skyldu Norðmenn gera þetta? Það er á margan hátt athyglisverð spurning sem vert er að velta fyrir sér. Hvers vegna sýna Norðmenn Vestnorræna ráðinu svona mikla athygli og svo mikla virðingu? Hvers vegna sendir norska þingið forseta sína á ársfundi Vestnorræna ráðsins? Ég notaði tækifærið til að spjalla við alla þessa þrjá forseta á þeim ársfundum sem ég var á. Ég spurði þá alla þessarar spurningar. Í máli þeirra kom mjög skýrt fram að Norðmenn sýna Vestnorræna ráðinu áhuga vegna þess að þar sjá þeir fyrir sér möguleika á samstarfi.

Við skulum aðeins skoða hvernig landakortið lítur út. Norðmenn eru ekki í Evrópusambandinu. Íslendingar eru ekki í Evrópusambandinu. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru í Evrópusambandinu. Norðmönnum finnst þeir á margan hátt svolítið afskiptir í Norðurlandaráði vegna þess að Norðurlandaráð hefur beint athygli sinni mjög mikið í austur til Eystrasaltslandanna og jafnvel til Evrópu vegna þess að Finnar, Danir og Svíar ráða för. Norðmenn hafa að sjálfsögðu líka áhuga á Evrópusambandinu og Eystrasaltslöndunum en samt finnst þeim þeir hafa verið svolítið afskiptir.

Norðmenn eru strandþjóð með ríka menningu á sviði landbúnaðar, fiskveiða og veiða almennt. Sú menning er rík í Norðmönnum enn þann dag í dag. Þeir sjá í hendi sér að þeir eiga margt sameiginlegt með Íslendingum, Grænlendingum og Færeyingum. Þeir eiga líka land að norðaustanverðu Atlantshafi eins og löndin í Vestnorræna ráðinu. Margir hagsmunir okkar fara fara saman. Ég held ég hafi sagt það áður í þessum ræðustól, hafi ég ekki gert það geri ég það í fyrsta skipti: Ég hef lagt til að Norðmönnum verði boðin full þátttaka í Vestnorræna ráðinu. Ég veit að Norðmenn hafa áhuga á því. Þeir hafa áhuga á því. Málið var tekið upp í norska þinginu á sínum tíma. En þá strandaði málið á því að aldrei hafði borist formlegt boð frá þjóðunum í Vestnorræna ráðinu til Noregs um að verða fullgildur aðili að ráðinu.

Ég hvet þá íslensku þingmenn sem eru í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins til að taka þetta til athugunar, ræða sín á milli og skoða hvort ekki sé þess virði að leggja fram formlega tillögu frá Íslandi á næsta ársfundi Vestnorræna ráðsins, að Norðmönnum verði boðin full aðild og þátttaka að Vestnorræna ráðinu.

Þar hugsa ég sérstaklega um strandhéruð Noregs, um miðbik Noregs og norðanverðan Noreg. Ég bjó sjálfur í Norður-Noregi um nokkurra ára skeið og í mörg ár í Vestur-Noregi. Ég veit að við eigum afskaplega mikið sameiginlegt, a.m.k. við Íslendingar og að sjálfsögðu Færeyingar og Grænlendingar, með fólkinu sem býr í þessum héruðum.

En því miður er það þannig, virðulegi forseti, að tengslin á milli okkar og síðan fólksins sem býr í þessum héruðum Noregs eru skammarlega lítil, allt of lítil. Við höfum alls ekki verið nógu dugleg við að rækta þessi tengsl. Norður-Norðmenn og Íslendingar eiga afskaplega mikið sameiginlegt. Lífsbaráttan er mjög svipuð. Við getum sagt að einkenni fólks sem býr í Norður-Noregi og okkar Íslendinga séu á margan hátt svipuð. Við hugsum með svipuðum hætti og skopskynið er svipað. Það þarf kannski ekki að koma á óvart því að við erum öll mörkuð af umhverfi okkar og þeirri náttúru sem við búum við. Þar á milli er mjög margt líkt.

Ég tel að við ættum að skoða þetta í fullri alvöru. Það mundi styrkja Vestnorræna ráðið verulega ef Norðmenn kæmu þar inn. Þetta þyrfti ekki að hafa í för með sér að Norðurlandaráð sem slíkt mundi veikjast, alls ekki. En við mundum standa betur saman til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum og líka ná betur saman í viðleitni okkar við að greiða úr ágreiningsmálum, sem ég hef farið yfir í fyrri ræðum mínum, t.d. Svalbarðamálinu, fiskveiðimálunum og öðrum ágreiningsmálum. Við þurfum að sjálfsögðu að leita leiða til að leysa þau og ég hygg að þetta væri afskaplega góð hugmynd. Ég vil hafa það lokaorð mín í þessari ræðu að þeir íslensku þingmenn sem nú eru í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins beri fram þessa tillögu, vinni henni brautargengi og sjái til að Norðmenn verði sem fyrst fullgildir aðilar að ráðinu.