132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:28]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að Flugfélag Íslands flýgur á milli Íslands og Grænlands en mér hefði nú þótt forvitnilegt að heyra nánar um hvað liggur í upplýsingum á bls. 4 í skýrslunni, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta, varðandi flugsamgöngur á milli Reykjavíkur og Narsarsuaq:

„Niðurstaða virðist nú vera fengin í það mál og munu tvö flugfélög sjá um sumarflug milli Íslands og Grænlands.“

Hvaða flugfélög eru þetta? Um hvaða tíma er talað og hver verður tíðnin á þeim samgöngum? Hversu oft verður t.d. flogið í hverri viku, í hverjum mánuði? Er verið að tala um tímabilið frá maí til loka ágúst eða eitthvað þess háttar?

Svo þætti mér fróðlegt að fá að vita hvort hv. þm. Halldór Blöndal hafi myndað sér skoðun á því sem ég talaði um í lok ræðu minnar, þ.e. á því hvort ekki sé rétt að leggja til að Norðmönnum verið boðin full aðild að Vestnorræna ráðinu.