132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:29]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég skil þetta mál er það grænlenskt flugfélag sem flýgur á milli Kulusuk og Íslands en aftur Flugfélag Íslands á milli Íslands og Narsarsuaq. Stuðningur við flugsamgöngur á milli landanna á sér nokkra sögu og hygg ég að formlegt samstarf um flugið hafi verið tekið upp árið 1991, skömmu eftir að ég varð samgönguráðherra, á milli Íslands og Grænlands. Það var síðar látið ná til Færeyja sem þriðja landsins og tengdi þannig þessi þrjú lönd saman.

Ég er mikill aðdáandi Heimskringlu og man eftir hinu norska konungdæmi, sem náði til þessara landa þriggja: Færeyja, Íslands og Grænlands. En ég er ekki viss um að það eigi endilega að vera okkur fyrirmynd 1000 árum síðar. En auðvitað hlýtur að koma til athugunar á hverjum tíma hvort rétt sé að færa út samstarfið, til Norðmanna. Því fylgja mörg rök. Það hefur verið rætt innan Vestnorræna ráðsins en niðurstaðan orðið sú að halda sig við löndin þrjú.