132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á mjög mikilvægan þátt. Það eru hin menningarlegu tengsl milli þessara landa sem eru náttúrlega ákaflega sterk. Það er kannski að hluta til ástæðan fyrir því að Norðmenn horfa nú svo mjög í vestur. Þeir eru ekkert á leiðinni inn í Evrópusambandið, Norðmenn, það er alveg á hreinu. Þeir munu ekkert fara þangað í fyrirsjáanlegri framtíð og það munum við Íslendingar ekki gera heldur. Það skal alveg vera klárt mál, gegn því skal barist með oddi og egg.

Mér finnst að menn eigi hreinlega að spila úr þessari pólitísku stöðu og reyna að gera sem best úr henni, þessi lönd eigi að stilla saman strengi sína. Við skulum skoða landakortið. Ef þessi lönd, Grænland, Færeyjar, Ísland og Noregur, stilla saman strengi sína þá er hér komið stórveldi. Hvers vegna segi ég það? Jú, ég segi það vegna þess að þessi lönd ráða yfir gríðarlegum náttúruauðlindum. Þau ráða yfir gríðarlega stórum landsvæðum, þau ráða yfir gríðarlega stórum hafsvæðum — hafsvæðum og landsvæðum á mjög mikilvægum stað á hnettinum. Þetta eru engir stórveldisdraumar, þetta eru bara staðreyndir sem við sjáum fyrir okkur ef við skoðum landakortið, þetta er ekkert flókið mál. Ég tel að þarna séu fyrir hendi mjög miklir möguleikar, mjög miklir og spennandi möguleikar á sviði stjórnmála.

Ég hygg og er í raun og veru alveg sannfærður um að grundvöllurinn til að koma á nánara samstarfi á milli þessara fjögurra þjóða, sem saman geta myndað þó nokkurt afl sem aðrar þjóðir verða að taka tillit til, sé einmitt falinn í Vestnorræna ráðinu.