132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:50]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil lýsa því yfir að við í Frjálslynda flokknum leggjum mjög mikla áherslu á samstarf vestnorrænna þjóða. Ég vil nota tækifærið og þakka fráfarandi formanni Íslandsdeildarinnar fyrir gott samstarf og vænti þess að það verði ekki síðra með nýjum formanni, hv. þm. Halldóri Blöndal, og vænti þess að við fáum jafnvel breyttar áherslur í starfinu með honum, það fylgir gjarnan með nýjum mönnum, og verður fróðlegt að sjá hverjar þær verða.

Það er margt ólíkt með þessum löndum og ég vil kannski ekki í ræðu minni leggja áherslu á að við séum eitthvað miklu stærri, heldur vil ég nota þetta tækifæri í ráðinu til að læra af þeim þjóðum. Ég er sannfærður um að við getum lært mjög margt af þeim og hagnýtt okkur slíkt samstarf öllum til góða.

Ég vil einnig taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að rétt er að horfa til fleiri átta en eingöngu Norðmanna til að útvíkka samstarfið. Ég veit að Skotar eru nokkuð áhugasamir um að auka samstarf við Íslendinga. Ég hef átt mjög gott og farsælt samstarf við lögþingsmenn í Færeyjum þar sem við höfum m.a. farið og kynnt færeyska fiskveiðistjórnarkerfið og hið íslenska, ókosti þess, fyrir Skotum.

Ein af þeim ráðstefnum sem ég sótti á síðasta sumri og var á vegum þessa samstarfs var þemaráðstefna um sjávarútvegsmál og var hún haldin um miðjan júní síðasta sumar. Það verður að segjast eins og er að margt er mjög ólíkt með þessum þjóðum, t.d. hvernig þær halda á sjávarútvegsmálum sínum og stýra þeim. Menn eru svolítið að tipla í kringum ákveðna hluti, sérstaklega á það við um Íslendinga, og fátt sem er sameiginlegt. Það eina sem er nánast sameiginlegt er að við höfum sameiginlegra hagsmuna að gæta gagnvart Evrópusambandinu. En ég er á því að við ættum að leggja meiri áherslu á að læra af Færeyingum, hvernig þeim hefur tekist virkilega vel að stýra fiskveiðum sínum. Þar virðast fiskveiðar ganga sinn vanagang. Það eru sveiflur og þeir fylgja sveiflunum í náttúrunni. En hér eru menn með þetta kvótakerfi sem skilar mjög litlu og mjög áhugavert að sjá hvort hin nýi formaður Íslandsdeildarinnar, Halldór Blöndal, muni leggja áherslu á að við lærðum af Færeyingum að stýra fiskveiðum farsællega.

Fyrir liggja í þinginu þingsályktunartillögur um að gera úttekt á færeyska kerfinu og þar gæti formaðurinn beitt sínu mikla afli í Íslandsdeildinni og haft þau áhrif að menn færu í þessa vinnu og farið væri í gegnum bæði kosti og galla þannig að menn þyrftu ekki að fara í grafgötur með það. Ég er sannfærður um að færeyska kerfið er miklum mun betra en hið íslenska að öllu leyti. Það hefur einfaldlega sannast.

Hvað varðar Grænland getum við, og báðar þjóðirnar, örugglega haft mjög gott af samstarfi og það er mjög áhugavert. Grænland er svo sannarlega land tækifæranna, þó svo að ákveðin vandamál séu þar uppi sem fyrri ræðumenn hafa að einhverju leyti tæpt á, þá er þarna land sem er gífurlega stórt og er gífurlega auðugt af náttúruauðlindum. Sumar hverjar eru undir ís og það á einfaldlega eftir að uppgötva þær og nýta. Þarna getum við Íslendingar örugglega aðstoðað nágranna okkar í því að það fari ágætlega og jafnvel haft einhvern hag af.

Fleira má nefna. Grænland er gífurlega fallegt land og þar eru einnig tækifæri hvað varðar ferðaþjónustu. Ég er sannfærður um að ef við reynum að samtvinna ferðaþjónustu þessara landa, Grænlands, Færeyja og Íslands, jafnvel Skotlands, mun það verða öllum þessum löndum til góðs.

Í þriðja lagi það sem ég ætla að nefna og við getum lært af Grænlendingum er að þeir eru í nánari tengslum við náttúruna en mörg okkar hér á Íslandi og fylgja þeim sveiflum sem þar eru. Þess vegna er mjög gott að geta farið þangað og leitað til þeirra hvað varðar það að finna hve þessi þjóð er í nánum tengslum við náttúru sína og kann að nýta náttúruauðlindirnar þegar þær gefa.

Að lokum, ég ætla ekki að hafa þessa tölu miklu lengri en vænti þess að þetta samstarf verði Íslendingum til góðs og að sjálfsögðu okkar ágætu nágrönnum, Færeyingum, Grænlendingum og það er aldrei að vita nema við fáum þá aðrar þjóðir með okkur, svo sem Skota og Norðmenn.