132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[17:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2005 og það er margt afar athyglisvert sem kemur fram í þeirri skýrslu.

Eins og getið er um í innganginum heldur hún þingmannaráðstefnur á tveggja ára fresti um norðurskautsmál þar sem saman kemur hópur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eins og sendur hér í innganginum:

„Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar og eins að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa.“

Eins og hefur komið fram lúta helstu verkefni þessa norðurskautssamstarfs að sjálfbærri þróun og umhverfismálum og einnig að varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðið við norðurskaut sem og að aukinni efnahagslegri og félagslegri velferð og velmegun íbúa norðursins, og þar á meðal líka Norðurlands og í Eyjafirði. Eins og kom fram hjá hv. framsögumanni, Sigurði Kára Kristjánssyni, þá er hann nýtekinn við þessu starfi sem fulltrúi þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessari nefnd.

Ég ætlaði einmitt að vekja athygli á því hve ógnarstór mál þetta ráð fjallar um, þá stóru atburði sem eru að gerast á norðurslóðum og skipta ekki bara lífríki norðursins heldur heimsins alls gríðarlega miklu máli. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom inn á það, skautaði yfir það eins og hv. þingmaður orðaði það sjálfur í sinni ræðu.

Gríðarlegar loftslagsbreytingar eru að gerast á norðurslóð sem íbúar, vísindamenn og stjórnmálamenn standa agndofa gagnvart. Ég get vitnað í blaðagrein eftir Árna Finnsson þar sem sagt er frá loftslagsþingi í Montreal og birtist í Morgunblaðinu 3. desember árið 2005. Þar fjallar Árni Finnsson um loftslagsbreytingar undir yfirsögninni: „Nýleg yfirlýsing utanríkisráðherra á Alþingi um hugsanlegar loftslagsbreytingar bendir til að stjórnvöld hyggist enn um sinn dvelja undir sama feldi og Bush forseti.“

Í upphafsorðum greinarinnar segir, með leyfi forseta:

„Verði ekki gripið til raunhæfra aðgerða strax kann brátt að verða um seinan að stöðva loftslagsbreytingar. Nýlegar rannsóknir rússneskra vísindamanna benda til að sífrerinn í Norður-Rússlandi og Síberíu sé tekinn að þiðna. Við það losnar umtalsvert magn af metangasi sem er áhrifamikil gróðurhúsalofttegund. Haldi svo áfram stigmagnast gróðurhúsaáhrifin og í kjölfarið hlýnun andrúmsloftsins. Tímasprengjan liggur enn frosin í túndrunni.“

Þetta var bara upphafsgreinin. En það er mjög fróðlegt að lesa á bls. 2 í skýrslunni, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni kemur fram að miklar loftslagsbreytingar hafa orðið á norðurskautssvæðum síðustu áratugi og að loftslag fer ört hlýnandi. Spáð er enn örari þróun í þessa átt á næstu áratugum og stórfelldum áhrifum á náttúru, dýralíf og mannlíf. Norðurslóðir einkennast af viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem mun gerast annars staðar í heiminum. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherra Norðurskautsráðsins sem birt var í nóvember 2004 var því lýst yfir að loftslagsbreytingar hefðu í för með sér margvíslega vá fyrir lífshætti og viðurværi íbúa norðurslóða, sem og hættu fyrir tilteknar dýra- og gróðurtegundir. Í sérstöku stefnumótunarskjali skuldbundu ráðherrar sig til að framfylgja tilteknum aðgerðum til að stemma stigu við frekari loftslagsbreytingum. Ráðherrarnir skuldbundu sig einnig til að aðstoða íbúa norðurslóða með skipulögðum hætti við að aðlagast þessum breytingum og leita leiða til að þróa og nýta endurnýtanlega orkugjafa, svo sem vetni.“

Hér er verið að undirstrika þessar yfirlýsingar. En þegar kemur aftar í skýrslunni er þess getið að svo virðist vera að engir hafi áhuga á að standa við þær yfirlýsingar. Á bls. 4 er talað um að fjölmörg lönd sem skrifað hafa undir sáttmálann, þá er verið að tala um Kyoto-bókunina, sem er ein af undirrótum þess sem þarna er að gerast, þ.e. gróðurhúsaáhrifin, standa ekki við hann og Bandaríkin koma ekki nálægt þeim skuldbindingum. „Önnur ríki virtust hins vegar ekki eiga í erfiðleikum með að skrifa“ — eins og stendur í skýrslunni — „stöðugt undir sáttmála sem þau ætluðu síðan greinilega engan veginn að framfylgja, því væri öðrum stundum nær að líta í eigin barm. Nokkur hiti var í fundarmönnum þegar þetta var rætt og sitt sýndist hverjum. Það er hins vegar ljóst að mikil vinna er í gangi innan bandaríska þingsins sem snýr að lagaumhverfi og samhæfðum viðbrögðum við loftslagsbreytingum, …“

Herra forseti. Það er því ljóst að þau efni sem fjallað er um í skýrslunni eru alveg gríðarlega stór og alveg gríðarlega mikilvæg. En hins vegar upplifum við hliðstætt orðalag og umræðu á Alþingi. Á bls. 4 er minnst á sérfræðing á sviði olíuborana, Drue Pearce. Það gæti verið sérfræðingur á sviði vatnsaflsvirkjana ef sama orð væri notað. Þar segir, með leyfi forseta:

„Drue Pearce, sérfræðingur á sviði olíuborana, tók því næst til máls og gerði grein fyrir áhrifum olíuborana í Alaska, nýjustu tækni og erfiðustu átakapunktum í umræðunni um lögmæti olíuborana á viðkvæmum landsvæðum. Pearce sagði margt hafa breyst í þessum efnum á undanförnum árum og að langtum meira tillit væri tekið til umhverfismála og náttúruverndar heldur en áður.“ — Er þetta ekki nákvæmlega sama orðalag og við mundum heyra frá sérfræðingi t.d. Landsvirkjunar eða iðnaðarráðuneytis? — „Hún sagði að nú ríkti einhugur í Alaska um að auðlindanýting yrði að fara fram á sjálfbærum grunni, …“ — já mikil ósköp. Það ríkir líka einhugur á Íslandi um slíkt. — „en að málin væru oft einfölduð í öfgakenndum málflutningi bæði af hálfu umhverfissinna sem og þeirra sem vilja opna ný svæði …“

Þekkjum við ekki svona málflutning? Áfram segir, með leyfi forseta:

„Mikil umræða hefur á undanförnum árum átt sér stað innan bandaríska þingsins um hvort opna eigi stórt friðland í Alaska fyrir olíuborunum og hefur málið vakið feiknahörð viðbrögð úr ýmsum áttum. Pearce“ — þessi sérfræðingur Landsvirkjunar þarna í Alaska — „sagði mikinn meiri hluta Alaskabúa vera fylgjandi frekari olíuborunum á sem flestum stöðum til eflingar lífsskilyrðum, og staðhæfði að ný tækni við olíuboranir gerði öll umhverfisspjöll langtum takmarkaðri en áður.“ — Er þetta ekki eins og álræður iðnaðarráðherra hér? — „Þar að auki væri mun meira lagt upp úr nánu samráði við alla íbúa þess svæðis þar sem bora á eftir olíu og um leið væri meira fjármagn veitt í að rannsaka og þróa endurnýtanlega orku.“

Ég segi þetta vegna þess að ég veit að þetta er rangt. Ég veit að það er engin sátt í Alaska um þessar olíuboranir. Ég veit að þessar framkvæmdir sem Landsvirkjun eða Bush-stjórn þeirra í Alaska er nú að leggja í, ryðst núna áfram gegnum skóga Alaska með vegi og lagnir til að undirbúa þessar olíuboranir. Ég veit það af því þannig er að einn Íslendingur sem ég þekki vel er einmitt staddur á þessum svæðum og hefur sent reglulega tölvufréttabréf til landsins um hvað þarna er að gerast. Hún segir að veiðidýrin og íbúarnir þarna hrökkvi undan yfirgangi olíufyrirtækjanna. En þegar sagt er frá þessu á fínni ráðstefnu þá kemur „sérfræðingur“ þessa olíuborunarfyrirtækis og segir að mikill einhugur sé í Alaska um að ráðast í þessar olíuboranir.

Svona er nú sannleikurinn. Staðreyndin er sú, ef fram fer sem horfir, að verið er að fremja gríðarleg umhverfisspjöll í Alaska. Er það furða þó standi á bls. 5 að ríkin virðast reiðubúin að skrifa undir alls konar sáttmála hvað þetta varðar en telja sig ekki reiðubúin að standa við þær skuldbindingar sem þau hafa skrifað undir. Er þetta nákvæmlega sama umræðan og við erum að taka um Kyoto-bókunina þegar við heyrum íslensk stjórnvöld segja að þessa Kyoto-samþykkt sé hægt að umgangast til kl. 12 og síðan taki eitthvað annað við?

Frú forseti. Ég verð að minnast á þetta vegna þess að hér um svo stór mál að ræða. Hérna er t.d. önnur frétt í Morgunblaðinu frá 1. október 2005. „Ísbráðnun vex með hverju ári. Nýjar gervihnattamælingar sýna, að íshellan á norðurheimskauti minnkar hraðar en áður var talið enda hefur hitastigið þar hækkað verulega.“

Ég er með aðra grein, einnig mjög góða, sem fjallar um þá miklu vá sem þarna er að gerast með bráðnun norðurskautsíssins.

Ég er ekki viss um, herra forseti, að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson geti eftir 100 eða 200 ár skautað yfir norðurskautsísinn því hann verður bráðnaður ef fram fer sem horfir. Í grein sem Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifaði í Morgunblaðið föstudaginn 4. nóvember 2005 segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknir sem gerðar voru á norðurskautsísnum árið 2002 á vegum NASA benda til þess að heimskautaísinn sé að bráðna um 9% á hverjum áratug. Útbreiðsla heimskautaíssins náði sögulegu lágmarki árið 2002 og árið 2003 var svipað.

Vísindamenn telja að bráðnun heimskautaíssins orsakist að hluta af loftslagsbreytingum af mannavöldum og hins vegar af breyttum loftþrýstingi og breytingum í vindafari yfir norðurskautinu.“

Í greininni er síðan rakið hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir lífríkið á norðurslóðum og reyndar fyrir heiminn allan.

Þess vegna er fyllilega ástæða til að þetta samstarf sem verið er að greina frá, samstarf um norðurkautsmál, sé í rauninni tekið alvarlega og það sé gert meira en að sitja yfir kaffibollum og skrifa undir einhverjar yfirlýsingar sem, eins og segir í skýrslunni, greinilega er engan veginn ætlunin að framfylgja. Þetta eru alvarleg mál sem við stöndum frammi fyrir hvað er að gerast á norðurkautsslóðum og okkur ber að axla ábyrgð og ekki af neinni léttúð (Forseti hringir.) sem íslensk stjórnvöld gera því miður.