132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[17:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja í upphafi máls míns að taka undir þau orð sem hv. þm. Jón Bjarnason lét falla hér í lok ræðu sinnar þar sem hann benti réttilega á að sú þróun sem gæti vera að gerast á norðurslóðum mundi geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfi okkar, líf okkar, atvinnuhætti, nýtingarstefnu okkar á auðlindum Íslands og hegðunarmunstur margra af helstu nytjafiskstofnum okkar. Ásamt auðvitað breytingu á lífríkinu almennt við ströndina.

Það var algjörlega rétt sem hv. þingmanns sagði áðan að við gætum verið að standa frammi fyrir mjög miklum breytingum í lífríki norðurhafa og bara öllu umhverfi sem snýr að norðurhöfunum. Þó að menn hafi, eins og sagt er í skýrslunni á bls. 2, verið að velta því fyrir sér að gera samning um norðurhafið, norðurskautið, eitthvað í líkingu við það sem menn gerðu um suðurskautið á sínum tíma og umgengni þar og nýtingu, þá er umhverfi norðurhluta jarðarinnar allt annað að þessu leyti.

Við erum að tala um svæði þar sem löndin eru byggð umhverfis norðurskautið, þar sem norðurskautið er svo til landlukt að öðru leyti en því að frá því eru nokkur sund, eins og Beringssundið. Sundin vestan við Grænland, þröng sund milli eyjaklasanna þar. Sundið milli Íslands og Grænlands. Sundið milli Íslands og Færeyja og síðan milli Færeyja og Noregs.

Eins og ég vék að fyrr í dag hagar svo til að sá hafstraumur, Golfstraumurinn, sem gerir okkur yfirleitt kleift að lifa á norðlægum slóðum á norðurhluta jarðarinnar færir okkur yl norður í höfin og þar af leiðandi hlýrra loftslag en ella væri sem gerir lífið á norðurslóðum í rauninni mögulegt, eins og við höfum upplifað það í árhundruð.

Nú kunna hins vegar að vera á ferðinni þær breytingar sem við sjáum ekki fyrir. Því miður eru sífellt að koma fleiri vísbendingar um að loftslagsbreytingarnar hafi haft miklu hraðari, fljótvirkari og örari áhrif en menn gerðu ráð fyrir, t.d. bráðnun Grænlandsjökuls og hlýnun í hafinu. Við erum búin að upplifa það hér í nokkur ár við Ísland að hafið norður af landinu hefur verið mun heitara á undanförnum vetrum og árum en við höfum átt að venjast. Það hefur m.a. alveg örugglega breytt loðnugöngum hér við land og einnig hafa útbreiðslu- og uppvaxtarsvæði ýsunnar tvöfaldast, miðað við það sem áður var meðan ýsan ólst að mestu leyti upp við Suður- og Vesturland. Ýsan lifir núna í miklu magni allt í kringum land sem m.a. hefur orðið til þess að rækjuveiðar hafa breyst stórkostlega. Það hefur síðan haft þau áhrif og mun gera í framtíðinni að þorskurinn hagar sér öðruvísi hér við land en hann hefur gert á sl. áratugum, hæstv. forseti. Þetta er auðvitað það sem snýr næst okkur Íslendingum, þar sem við sjáum breytingarnar sem verða innan tiltölulega stutts tíma.

Það eru auðvitað þeir sem nytja náttúruna mest, eins og t.d. íslenskir fiskimenn, sem verða þessa mest varir ásamt þeim einstaklingum sem stunda rannsóknir umhverfis landið. Þá kem ég reyndar að því sem ég hef sagt áður og vil víkja að nú í umræðu um norðurskautið en það er að okkur er falin mikil ábyrgð og við eigum að stunda miklar rannsóknir á þessum breytingartímum og við eigum alls ekki að draga úr þeim heldur akkúrat að auka þær. Ég tel t.d. að skipaáætlun Hafrannsóknastofnunar, þ.e. að halda skipunum úti í tiltölulega fáa daga yfir árið sé algjörlega öfug stefna miðað við það sem við ættum að halda uppi. Við ættum að auka rannsóknir og umferð hafrannsóknaskipanna um hafsvæðin og auka vöktunina með breytingum sem eru að verða umhverfis landið og í hegðun fiskstofna okkar. Þetta er það sem er næst okkur, þ.e. vegna okkar eigin náttúrunýtingar og atvinnuhátta.

Hitt er svo annað mál að það er hægt að rannsaka miklu fleira en við gerum í dag. Ég benti á það í umræðunni í morgun að það væri mjög áhugavert að Íslendingar tækju aukinn þátt í rannsóknum á norðurslóðum, m.a. með því að fylgja Golfstraumnum eftir norður í höf og skoða vandlega það sem gerist fyrir norðan Ísland, sem kallað hefur verið hjarta straumakerfisins í veröldinni, þ.e. hinna stóru strauma. Golfstraumurinn fer norður og heiti sjórinn sekkur hér norður í höfum og verður að botnstraumi og gengur síðan suður og viðheldur því straumakerfisbelti sem gengur um öll heimshöf. Þetta er í raun og veru gríðarlega mikill áhrifavaldur um veðurfar á jörðinni allri. Þetta er því mjög áhugavert og það er nauðsynlegt að við gerum okkur gildandi í því og þess vegna vék ég að því í morgun þegar fyrsta skýrsla þessa dags var kynnt.

Ég legg mikla áherslu á, hæstv. forseti, að hér verði vel staðið að því að auka rannsóknir á hafsvæðunum norðan Íslands. Við munum sjá það á næstu árum ef svo heldur fram sem horfir að stór hafsvæði verða hér íslaus og það eru miklar líkur á að nytjastofnar okkar leiti í ætisleit á sumrum mun lengra norður í höfin en við höfum séð á undanförnum árum og þá einnig á hafsvæði sem ekki eru innan lögsögu okkar. Við gætum hæglega horft fram á það að þorskstofn okkar yrði ekki eingöngu nýttur af okkur Íslendingum og við stjórnuðum því, heldur gætu aðrar þjóðir einnig farið að stunda veiðar norður og norðvestur af Íslandi. Þar værum við vissulega að upplifa algjörlega nýtt munstur miðað við það sem hefur verið á undanförnum áratugum. Þess vegna hvet ég alveg sérstaklega til þess að allt alþjóðastarf og svæðisbundin störf á vegum Norðurskautsráðsins, eins og við erum að ræða í dag, að þeir þingmenn sem starfa að þeim málum séu mjög á vaktinni fyrir því hvar við getum staðið að því að efla rannsóknir á breytingum norðurhjarans vegna þess að það mun skipta okkur miklu máli í framtíðinni hvernig þar verður að staðið. Ég tel að við þurfum í raun og veru að taka upp meiri eftirfylgni og vöktun á svæðunum norður af Íslandi, einkum hvað varðar meginstrauma í hafinu því það ferli allt saman ræður miklu um allt líf á norðurslóðum.

Það er ekki saman að jafna, eins og ég nefndi áðan, norðurheimsskautinu og norðurslóðunum umhverfis norðurpólinn og hins vegar suðurskautinu og umhverfinu umhverfis suðurpólinn. Aðstæður okkar eru mjög ólíkar aðstæður. Við sem búum hér á norðurhjaranum höfum þær skyldur að taka á í þeim efnum þegar við sjáum umhverfi okkar breytast og með þeim hraða sem við hefðum engan veginn gert okkur grein fyrir. Spádómar manna um hvað geti gerst með bráðnun Grænlandsjökuls og hækkandi sjávarborði eru auðvitað þannig að það getur haft veruleg áhrif á komandi áratugum hér á landi hvað varðar atvinnuhætti okkar.

Það er nú aðallega þetta, hæstv. forseti, sem ég vildi draga hér inn í umræðuna og ég hvet þá hv. þingmenn sem hér eiga aðild að og fjalla um norðurskautsmálin fyrir Íslands hönd að vera mjög á vaktinni og leggja því lið að auka hér rannsóknir. Við þurfum sjálf að taka til í okkar ranni varðandi fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar og öllu er snýr að hafrannsóknum og efla þær alveg sérstaklega. Við þurfum að efla vöktun á hafsvæðunum umhverfis Ísland að því er varðar hitafar og strauma, bráðnun og hegðun fiskstofnanna. Það er það sem snýr næst okkur í umhverfinu ásamt því að taka upp og auka þá vöktun sem snýr að gerð hafsins, seltuinnihaldi og innstreymi hlýsjávar annars vegar og hins vegar suðurstreymi kaldsjávarins og hvernig hlutfall ferskvatns mun breytast í Norðurhöfum með aukinni bráðnun.

Ég held að aldrei sé lögð of mikil áhersla á þetta, hæstv. forseti. Við erum greinilega að upplifa mikla breytingatíma og breytingarnar eru hraðari en við höfðum kannski gert okkur grein fyrir. Þó að margir hafi auðvitað áttað sig á því að umhverfi okkar er að breytast þá held ég að menn hafi ekki áttað sig á því að það gæti verið að breytast jafnhratt og dæmi eru um og vísindamenn hafa verið að sýna fram á með ýmsum ábendingum. Þótt vissulega sé ekki búið að færa sönnur á sumar af þessum spám og m.a. viðvörun um að kerfi golfstraumsins muni stoppa, eins og breskir vísindamenn hafa bent á, fyrir þessu er ekki búið að færa neinar sönnur og vonandi hafa þeir háttvirtu vísindamenn algjörlega rangt fyrir sér því þá yrði nú aldeilis breyting hér í norðurhöfum ef golfstraumurinn breytti algjörlega um farveg og kæmi ekki upp að Íslandsströndum og norður fyrir landið. Þá yrði kólnunin hér hjá okkur yrði veruleg og margt mundi breytast þó að hlýnunin væri kannski einhvers staðar annars staðar í veröldinni. Ég held að veðurkerfin mundu mjög breytast og þess vegna held ég að menn þurfi að taka upp samstarf veðurfræðinga, haffræðinga og líffræðinga um að taka upp mikla vöktun á veðurkerfum veraldar og við Íslendingar erum þannig í veröldina settir að við eigum mikið erindi til að taka þátt í slíkum rannsóknum.