132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[18:10]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara undir þessum dagskrárlið í almenna umræðu við hv. þm. Jóhann Ársælsson um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu eða um Kyoto-sáttmálann og það sem að honum lýtur. Ég leyfi mér hins vegar að gera athugasemd við þann inngang sem hann notaði að þessari ræðu sinni um þau efni vegna þess að hann vísar til orða í skýrslunni sem hér er til umræðu um fund sem var haldinn í Washington í byrjun mars á síðasta ári. Það vill svo til að ég sat þann fund ásamt hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Ég sat þar sem fulltrúi Vestnorræna ráðsins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fyrir hönd Norðurlandaráðs. Ég get því upplýst hv. þm. Jóhann Ársælsson um það að Ísland var ekki til umræðu að því leyti sem hann vísar til. Það er hins vegar vitað að fjölmörg ríki sem undirritað hafa Kyoto-sáttmálann hafa ekki gert minnstu tilraun til að fara eftir ákvæðum hans og það var það sem þeir bandarísku þingmenn og embættismenn sem þarna töluðu voru að vísa til. Það er því að mínu mati afar villandi, og þó að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi vissulega haft fyrirvara á orðum sínum þá er mikilvægt að þessi ummæli í skýrslunni verði ekki skilin á þann hátt að þar hafi á nokkurn hátt verið vikið til Íslands, enda hafa Íslendingar ekki átt í vandræðum með að uppfylla þá skilmála sem fram koma í Kyoto-sáttmálanum. Það er ljóst að sá sáttmáli og yfirlýsingar sem Íslendingar hafa gefið í sambandi við hann eru meðal þess sem ræður því hvernig og í hvaða röð og með hvaða hætti ráðist verður í frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi.