132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[18:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel þetta bara hreina útúrsnúninga. Ég studdi t.d. Kárahnjúkavirkjun í sölum Alþingis og enginn getur vænt mig um að hafa ekki viljað standa við bakið á iðnaði í landinu. Ég held því hins vegar fram að það sé gjörsamlega óþolandi að stjórnvöld standi að málum líkt og ég ræddi um, að það skuli vera þannig. Við erum að tala um sjálfstæð fyrirtæki í samningaviðræðum um að koma upp stóriðju og íslensk stjórnvöld hafa ekkert í höndunum til að stöðva þá hluti. Þeir þurfa þá að fara sem eigendur inn í Landsvirkjun og koma í veg fyrir að gerðir verði samningar eða eitthvað slíkt. Varla gera þeir það varðandi álverið sem menn tala um að byggja í Helguvík.

Ég bendi á að taka þarf ábyrga afstöðu til þess hvernig eigi að skaffa heimildir til losunar. Það þarf að láta fyrirtækin sem vilja koma til landsins taka ábyrgð á því að skaffa slíkar heimildir. Eins og málin standa sé ég ekki betur en að íslensk stjórnvöld taki sjálf ábyrgð á að skaffa losunarheimildir. Það gæti kostað skildinginn ef þannig er í pottinn búið. Íslensk stjórnvöld geta ekki mætt á alþjóðavettvangi sæmilega bein í baki nema með því að standa við þennan samning þannig að hugsanlegt sé að framlengja hann, þ.e. í loftslagsmálunum. Það stefnir hins vegar í að það verði ekki hægt.

Hvers vegna liggur mönnum svo óskaplega á þegar einungis sex ár eru eftir af samningnum? Menn eru með fangið fullt út þessi sex ár. Ég bara kalla eftir því að menn klári mál sín fyrir hönd stjórnvaldsins í landinu með þeim hætti að það sé á hreinu hvert menn ætla. Mér finnst að menn eigi líka að standa í fæturna gagnvart áframhaldandi samningum í loftslagsmálum.