132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norðurskautsmál 2005.

576. mál
[18:19]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2005. Hér er á ferðinni deild sem er á margan hátt afskaplega merkileg. Mér finnst að það komi vel fram í þessari skýrslu þótt hún sé ekki löng, einungis sjö síður. Nefndin er skipuð þingmönnum, fulltrúum frá þjóðþingum Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands, Norðurlandanna og frá Evrópuþinginu. Nefndin sinnir afskaplega mikilvægum og merkum verkefnum, ekki síst á sviði umhverfismála. Þetta eru jú þjóðir sem umlykja, ef svo má segja, norðurskautið hringinn í kring. Að sjálfsögðu er eðlilegt mál að umhverfismál séu í brennidepli í umræðum um þetta viðkvæma svæði jarðarinnar, þar sem náttúran er afskaplega viðkvæm fyrir utanaðkomandi áhrifum, ekki síst áhrifum af völdum manna.

Það kemur fram í skýrslunni að þingmannanefndin hafi staðið fyrir fjölmörgum vísindalegum rannsóknum. Frá þeim var greint í góðri og vel upp settri skýrslu sem kom út árið 2004, ef ég man rétt. Hún fjallaði um loftslagsbreytingar. En vinnuhópar á vegum þingmannanefndarinnar hafa líka fjallað um hluti eins og hættu af völdum mengunar, áhrif mengunar á vistkerfi á norðurslóðum og það að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika. Einnig hefur verið skoðað hvernig draga megi úr hættu á mengun á norðurslóðum. Þetta er allt saman, virðulegi forseti, afskaplega þarft, ekki síst kannski nú á tímum þegar runnið er upp hlýskeið, ísinn er að hopa og nýjar aðstæður skapast, t.d. til að leita að olíu og gasi á norðurslóðum. Við sjáum að menn ásælast olíu- og gaslindir, t.d. í Norður-Rússlandi, við Norður-Noreg í Barentshafi og víðar. Við Grænland er olíu leitað og jafnvel við Kanada. Hættan á mengun og umhverfisslysum hefur af þeim sökum aukist mjög verulega. En það er gleðiefni að menn hafi viðurkennt að olíuboranir á norðurslóðum og nýtingu á olíu- og gaslindum á þeim slóðum er staðreynd. Menn eru farnir að vinna í að ákveða hvernig fara skuli í þá auðlindanýtingu án þess að viðkvæm vistkerfi bíði of mikinn skaða af þannig að fórnarkostnaðurinn verði ekki of mikill. Ég hef af lestri þessarar skýrslu orðið þess áskynja að menn hafa tekið hlutverk sitt hvað þetta varðar mjög alvarlega, sem er gott.

Aðrir hlutir hafa einnig verið í brennidepli, t.d. upplýsingatækni á norðurslóðum, þar sem ég hygg að við Íslendingar ættum að geta átt sóknarfæri. Ég sá í skýrslunni að fyrirhuguð er ráðstefna á þessu ári og þar verða einmitt skoðaðir nánar hlutir eins og upplýsingatækni á norðurslóðum, lagalegur alþjóðlegur sáttmáli um málefni norðurskautsins og þáttur sem mér finnst mjög athyglisverður og spennandi fyrir okkur Íslendinga, þ.e. opnun siglingaleiða í norðurhöfum.

Þeir sem eru góðir í landafræði og þekkja umræðuna kannast við hugtakið „norðausturleiðin“. Þetta er siglingaleið sem farin er á skipum þegar siglt er frá Asíu, þ.e. Austur-Rússlandi og í gengum Beringssundið, vestur um Síberíuhaf og farið hjá Severnaja Zemlja og síðan norður fyrir Novaja Zemlja. Þetta eru eyjaklasar norður af Síberíu. Síðan er farið norður fyrir Norðurhöfða í Noregi, suður fyrir Jan Mayen inn á Grænlandssund, norður fyrir Ísland — nú eða suður fyrir, fram hjá Austfjörðum og með suðurströnd Íslands — og fyrir Horn á Grænlandi til Kanada, Bandaríkjanna eða annarra Ameríkuríkja, hvað sem verða vill. Þetta er þessi svokallaða norðausturleið. Hún er spennandi og hlýtur að verða mjög spennandi ef ísinn hopar, við skulum gera ráð fyrir að hann hopi. Þá verður þessi leið spennandi til siglinga. Ef við Íslendingar höldum rétt á spilunum hlýtur hún að geta opnað fyrir okkur ákveðin tækifæri til viðskipta. Ísland er jú mjög stór eyja í miðju Norður-Atlantshafi og ætti að geta orðið sjálfsögð og eðlileg viðkomuhöfn fyrir siglingar svona skipa.

Mig langar að vekja athygli á góðri grein sem Ólafur Snævar Ögmundsson yfirvélstjóri, sem hefur starfað yfir 20 ár sem vélstjóri á íslenskum fiskiskipum og erlendum farskipum, skrifaði og birtist á vef Bæjarins besta í október. Þar veltir hann upp þeim möguleikum sem við Íslendingar gætum átt með því að notfæra okkur þessa siglingaleið. Hann bendir á hlutverk Íslands og er hugleikið það hlutverk sem Vestfirðir gætu hugsanlega fengið í slíkum flutningum. Hann bendir á að Ísafjarðardjúp gæti orðið mjög góð höfn fyrir stór skip, t.d. olíuskip eða önnur skip sem þyrftu á leguplássi eða þjónustu að halda á ferð sinni um svokallaða norðausturleið. Það mætti hugsa sér aðra staði umhverfis Ísland sem gætu gagnast fyrir svona skip en eins og Ólafur bendir á ætti Ísafjarðardjúp, vegna þess hve stórt það er, breitt og djúpt, að henta mjög vel fyrir stærstu skipin.

Ég er svo sem enginn sérfræðingur í þessu en verð að segja, virðulegi forseti, að þetta opnar mjög spennandi möguleika. Við Íslendingar hljótum að vera vakandi yfir þessum möguleikum. Ég veit að fram fór vinna á vegum nefndar sem ég held að samgönguráðherra hafi skipað. Hún skilaði af sér ágætri skýrslu fyrir um ári síðan um þessa möguleika. Menn geta a.m.k. ekki kvartað yfir því að þetta hafi ekki verið skoðað. Við ættum að hafa varann á okkur varðandi þessa möguleika.

Annað sem mig langaði að minnast á er umhverfisvöktun sem þingmannahópur norðurskautslandanna stendur með ýmiss konar rannsóknarvinnu, umhverfisvöktun sem er ákaflega mikilvæg. Við vitum að þungmálmar geta orðið mjög alvarlegt vandamál á norðurslóðum, safnast upp í lífkeðjunni og valdið tjóni á lífríki. Við vitum að ísbirnir hafa átt undir högg að sækja vegna þungmálmamengunar, hvalir sömuleiðis og það er að sjálfsögðu hlutur sem við verðum að gæta vel að, fylgjast grannt með og reyna að koma í veg fyrir að dýrin verði fyrir skaða af þessum völdum. Efnin safnast upp í fæðukerfinu og geta orðið mjög skeinuhætt.

Norðurheimsskautslöndin, ef við skoðum hnöttinn sjáum við það, eru náttúrlega allt í kringum skautið og þar eru dýrastofnar sem eru á miklu flakki og virða engin landamæri. Ísbirni og hvali nefndi ég áðan en við getum líka talað um aðra dýrastofna. Þá er ég sérstaklega að hugsa um fiskstofna. Við sjáum að með breytingu í loftslagi, með hlýnun loftslags, verða mikilvægar breytingar í vistkerfinu. Við sjáum göngumynstur fisks breytist og útbreiðsla hans, vegna hlýnunar sjávar. Við sjáum að sumir fiskstofnar sækja í sig veðrið og aðrir hopa. Á norðurslóðum eru víðfeðm opin hafsvæði og þar eru fiskstofnar sem gæddir eru miklu flökkueðli, fara mikið um og virða engin landamæri frekar en hvalir og ísbirnirnir. Þetta hlýtur allt að gera kröfu til þess að á það reyni að þjóðir sem eiga þessar lendur og hafsvæði beri gæfa til að vinna saman að umhverfismálum, að umhverfisvöktun og rannsóknum.

Ég hygg, virðulegi forseti, ef við reynum svolítið að skyggnast inn í framtíðina, að ef eitthvað er muni vægi þessa samstarfs aukast. Mikilvægi þess mun aukast vegna risavaxinna verkefna í umhverfismálum sem fram undan eru. Við hljótum að nýta okkur slíka þingmannanefnd til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar. Áhugi minn á þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, sem haldin er á tveggja ára fresti, hefur fengið byr undir báða vængi. Ég vil að lokaorð mín verði að ég mun fylgjast grannt með starfseminni á komandi árum, lesa skýrslurnar sem koma þaðan með eftirvæntingu og fylgjast með því ágæta starfi sem mér virðist innt af hendi á þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál.