132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2005.

558. mál
[19:35]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir málefnalega og góða ræðu. Ég er sammála hv. þingmanni um margt en ósammála honum um annað, en það er hins vegar gaman að taka þátt í umræðu og skiptast á skoðunum þegar menn gera það með jafn málefnalegum hætti og hér var gert og mér þótti gaman að sjá að hann var ekki að blása út af borðinu hugmyndir mínar um að breyta einhverju um vernd og stefnu varðandi iðnaðarlandbúnað og kannski náum við saman um það, það er ómögulegt að segja til um það.

Ég er sammála ýmsu sem kom fram hjá hv. þingmanni varðandi ESB þó svo að ég sé ekki sammála niðurstöðu hans um Evrópska efnahagssvæðið, ég held að það hafi verið mikið heillaspor fyrir okkur, eins og ég nefndi. Það er mín skoðun eftir að hafa skoðað þetta að við getum haft ansi mikil áhrif á þær tilskipanir og þá hluti sem hv. þingmaður nefndi réttilega. Eins og hann nefndi er frekar um svona tæknilega hluti að ræða en eitthvað annað, oft á tíðum kannski ekki stór atriði en þau renna frekar ljúft hér í gegnum þingið. Ég held að við eigum að vera mjög vel vakandi og hafa áhrif á slíkt þegar við getum það og það er mögulegt með þessu tæki sem EES-samningurinn er, við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður.

Virðulegi forseti. Ég er líka sammála hv. þingmanni um að Evrópusambandið er oft ansi miðstýrt og það er kannski áhugavert að átta sig á því að síðustu tíu, ellefu árin hafa endurskoðendur Evrópusambandsins ekki treyst sér til þess að skrifa upp á reikninga sambandsins. Eitthvað mundi nú gerast hér á þessu háa Alþingi ef það sama yrði upp á teningnum hér.