132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:02]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo hjartanlega ósammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að Ísland eigi að ganga úr Atlantshafsbandalaginu. Ég held miklu frekar að við eigum að beita áhrifum okkar til að þróa það í þá átt sem ég tel að það sé að þróast. Ég er alveg ósammála hv. þingmanni um að þessi samþykkt sem hann vísar til 1999 hafi leitt til þess að eðli NATO hafi breyst og versnað. Þvert á móti er ég dálítið hlynntur þeirri hugsun að Atlantshafsbandalagið hafi heiminn undir varðandi t.d. ákveðnar aðgerðir.

Það sem ég á við er t.d.: (Gripið fram í.) Tökum Afríku. Ég hefði fagnað því, segi ég núna, þó ég hafi ekki haft hugsun á því að segja þá skoðun upphátt meðan á því stóð, ef Atlantshafsbandalagið hefði t.d. með einhverjum hætti reynt að stilla til friðar þegar átökin og þjóðarmorðið varð í Rúanda. Ég tel einfaldlega að það hefði þurft að kosta öllu til til að koma í veg fyrir það. Hvað gerðist í staðinn? Jú, heimurinn stóð átekta og beið og gerði ekki neitt. Þetta var svarta Afríka, og heimurinn skeytti einskis. Við höfum lesið lýsingar og bækur um það sem gerðist þar og hversu fullkomlega áhrifalaust það fámenna lið var sem þar var sett af hálfu Sameinuðu þjóðanna til að stilla til friðar. Ég tek þetta sem dæmi. Ég gæti tekið fleiri dæmi í Afríku. Ég ætla að taka eitt til viðbótar.

Ég tel það meira en einnar messu virði að hafa freistað þess að senda t.d. lið frá Atlantshafsbandalaginu til þess að reyna að bjarga þeim sem verið er að drepa, limlesta og nauðga í Darfúr í Súdan. Því miður. Ef engar aðrar leiðir eru færar en þessi þá vel ég hana. Ef spurningin er um það að bjarga mannslífum þá vel ég hana.

Ég rifja það upp sem formaður Alþýðubandalagsins gamall sagði einu sinni úr þessum ræðustól. Ég el þá von í brjósti mér að Atlantshafsbandalagið breytist í friðarbandalag. Við vitum báðir hver það var sem mælti þau orð.