132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

NATO-þingið 2005.

585. mál
[20:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það voru rangar upplýsingar sem leiddu til ákvörðunar íslensku ríkisstjórnarinnar um stuðninginn við Írak. Það kom t.d. fram í viðtali sem hæstv. forsætisráðherra veitti í Blaðinu hér á haustdögum. Hann sagði þá að ef hann hefði vitað það sem hann vissi síðar hefði hann ekki veitt stuðning þeirri ákvörðun sem tekin var.

Þegar menn hins vegar tóku á sínum tíma ákvarðanir um loftárásir á Kosovo, og ég sagði áðan hreinskilnislega við hv. þingmann að á þeim tíma studdi ég það, á þeim degi sem í það var ráðist, var fyrirvarinn allur annar. Það er hugsanlegt að það hafi verið einhverjar blekkingar þar líka. Á þeim tíma setti ég mig í spor þeirra sem höfðu yfir vígbúnaðartækjum og mannafla að ráða og stóð andspænis því að þeir að minnsta kosti töldu, og ég held að það hafi ekki verið nein vitleysa, að þá dagana væri verið að drepa þúsundir manna, þúsundir Evrópubúa annars staðar í álfu okkar.

Hvað átti að gera þar? Balkanskaginn logaði í ófriði og þau miklu hrannmorð sem upplýst hefur orðið um áttu sér flest, hygg ég, eða hin alvarlegustu, stað áður en þetta varð. Það er hugsanlegt að það sé rangminni mitt. Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið. En ég set mig í spor þessa fólks sem tekur ákvarðanir og ég hugsa að ég hefði tekið slíka ákvörðun sjálfur. Þess vegna hef ég alltaf gengist við því að ég sagði þetta á þeim tíma og hef aldrei hopað frá því. Þetta var miðað við bestu vitneskju og þær upplýsingar sem lágu fyrir í fjölmiðlum þá, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar líka.

En ég tek eftir því að hv. þingmaður svaraði því í engu, í fjórða skiptið sem ég nefni það, að ágætir skoðanabræður hans og systur eiga aðild að ríkisstjórn sem t.d. tekur í miklu ríkari mæli en Íslendingar þátt í því sem er að gerast í Afganistan. (Forseti hringir.)