132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:02]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Staðið hafa miklar deilur um það vatnalagafrumvarp sem hér hefur verið til umræðu. Ein helsta krafa stjórnarandstöðunnar um málsmeðferð hefur verið sú að lög um eignarhald og nýtingu á vatni séu ekki tekin út úr heldur verði rædd saman heildstæð löggjöf um vatnsvernd. Stjórnarandstaðan hefur sérstaklega óskað eftir því að hér komi inn frumvarp sem byggist á vatnatilskipun Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin hefur ekki viljað gera það og beitt þeim rökum að þar sem ýmis atriði í þeirri tilskipun falla ekki undir EES-samninginn þá sé ólokið samningum á milli annars vegar Noregs, Íslands og Liechtensteins og hins vegar Evrópusambandsins um það hvað eigi að vera í slíku frumvarpi sem yrði lagt fram t.d. hér.

Fregnir hafa borist af því á síðustu dögum að búið sé að ljúka samningunum, búið sé að ná sátt um þá. Þá tel ég, frú forseti, að staða málsins sé gerbreytt. Þá getur ríkisstjórnin, ef hún vill, náð sátt um þessi mál í þinginu með því að fresta umræðu um málið sem við höfum verið að takast á um og bíða með hana þangað til hægt er að leggja fram nýja heildstæða löggjöf sem tekur í senn til nýtingar vatns en líka til vatnsverndar. Með því er hægt að ná sátt um þetta erfiða mál. Það er heldur ekkert sem hvatar því að það frumvarp sem við ræðum verði samþykkt.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvort það sé rétt að þessum samningum sé lokið og hvort hún sé ekki reiðubúin í sáttaskyni að bíða með afgreiðslu frumvarpsins þangað til hægt sé að ræða þá heildstæðu löggjöf sem yrði þá líka á grundvelli vatnatilskipunarinnar.