132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér þykir mjög leitt að þurfa að segja það að allt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði áðan er rangt. Frumvarpið til vatnalaga sem hér er til umfjöllunar er ekki efnisbreyting á þeim lögum sem eru í gildi frá 1923 heldur formbreyting. (Gripið fram í.) Þetta er staðfest af Lögmannafélagi Íslands t.d. Hægt er að halda endalaust áfram að ströggla um að við séum að skerða almenningsrétt, skerða umhverfisrétt og hvaðeina. Þetta er ekki þannig og ég hef grun um að hv. þingmenn viti það en kjósi að halda öðru fram vegna þess að þeir trúa því að þetta sé eitthvað sem gangi í almenning og þjóðina. (Gripið fram í.) Þetta er svo ómerkilegur málflutningur að það tekur engu tali.

Mikill tvískinnungur er í umræðunni. Annars vegar finnst þingmönnum að ríkið haldi of fast við kröfur sínar um eignaryfirráð yfir þjóðlendum. Þá prísa menn þá kosti sem fylgja eignarrétti landeigenda, fasteignaeigenda og bænda, en nú bregður hins vegar svo við að menn sjá rautt þegar flutt er frumvarp sem felur nákvæmlega í sér að eignarréttur landeigenda, þar með bænda, sé virtur. Annars vegar (ÖS: Viltu svara fyrirspurninni?) þykjast því hv. þingmenn standa með almenningi í sambandi við vatnalagafrumvarpið en í þjóðlendumálinu kemur hins vegar upp þessi gríðarlega samúð með bændum, landeigendum og fasteignaeigendum. Það stendur því ekki steinn yfir steini í málflutningnum og því fyrr sem hv. þingmenn leggja niður þetta málþóf þeim mun betra.