132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Sú ræða sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti rétt áðan endurspeglar að miklu leyti þá umræðu sem farið hefur fram um vatnalagafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Hæstv. þingmenn Vinstri grænna vilja þjóðnýta vatnsauðlindina. Vilja gera upptæk réttindi landeigenda hringinn í kringum landið og þjóðnýta auðlindina eins og í Sovétríkjunum sálugu.

Og Samfylkingin druslast á eftir vinstri grænum sem hafa það að stefnumarkmiði að þjóðnýta þessa auðlind. (Gripið fram í.) Samfylkingin veit hreinlega ekkert og skilur hvorki upp né niður í málflutningi sínum hér í þingsal. (Gripið fram í.)

Stjórnarliðar, með leyfi forseta, ná að hugsa og skilja, sagði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég held að Samfylkingin ætti að fara á fyrirlestur í Háskóla Íslands sem verður í hádeginu í dag, þar sem sérfræðingar á sviði eignarréttar hér á landi munu fara yfir vatnalagafrumvarpið. Við hv. þingmenn stjórnarliðsins höfum farið yfir hvað sérfræðingar á sviði eignarréttar á 20. öldinni hafa lagt fram í þessu máli. (Gripið fram í.) Hér er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Hér er um formbreytingu að ræða. Sérfræðingar á sviði eignarréttar á 20. öldinni hafa staðfest það. En þingmenn Samfylkingarinnar elta Vinstri græna í þeim efnum að það eigi að fara að þjóðnýta auðlindina. (Gripið fram í.)

Enda sé ég að hv. þingmenn Vinstri grænna í salnum brosa út að eyrum. En ég fullyrði að bændum landsins og öðrum landeigendum er ekki skemmt yfir þeim málflutningi sem hér hefur farið fram alla þessa viku.

Það er eins gott, hæstv. forseti, að þeir þjóðnýtingarsinnar, með vinstri græna í forustu, komist ekki að völdum eftir næstu alþingiskosningar. Ég óska ekki landeigendum og bændum þess. (Gripið fram í: Hvað eru mannréttindi, hv. þingmaður?)