132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[10:20]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að heyra að Framsóknarflokkurinn er allt í einu farinn að tala um að virða beri eignarrétt bænda. Þeir hafa ekki gert það varðandi bændur á sjávarjörðum. Þar fór fram stórkostleg eignaupptaka þegar kvótalögin voru sett á sínum tíma. Það voru lög sem áttu bara að vara í eitt ár. En hvernig er staðan núna þegar fiskimiðin hafa verið einkavædd? Hver hefði trúað því fyrir 30 árum þegar þau lög voru sett að við mundum í dag árið 2006 búa við þau fiskveiðistjórnarlög sem við búum við í dag og þá stórkostlegu eignaupptöku og þá stórkostlegu mannréttindaskerðingu sem þar hefur átt sér stað? Hver hefði trúað því?

Nú stöndum við frammi fyrir því að fyrir þinginu liggur frumvarp til vatnalaga. Ég held að nafn frumvarpsins rugli fólk svolítið í ríminu. Það áttar sig ekki á hvað við erum að fjalla um. Við erum ekki að tala um stöðuvötn. Við erum að tala um grundvallarmál. Við erum að tala um vatnið. Við erum að tala um eignarrétt á vatni. Þetta er vökvi lífsins. Án þessa vökva væri ekkert líf. Við erum að tala um að einkavæða það.

Í 1. gr. laganna stendur: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, ...“

Þetta er grundvallarbreyting frá gömlu lögunum. Þar er talað um nýtingarrétt en hér er talað um eignarrétt á vatni. (Gripið fram í: Lestu …) Fyrr skal ég dauður liggja en að standa að því að samþykkja í þessum sal lög um að vatn verði einkaeign hér á landi. Vatn er mannréttindi og svo skal það vera.

Ég óttast dóm sögunnar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ég óttast dóm sögunnar að ef þessi lög verða afgreidd hér á þingi verður það okkur öllum til háðungar. Það er okkar heilaga skylda í stjórnarandstöðunni að standa í vegi fyrir því að þetta lagafrumvarp verði samþykkt. Með öllum okkar tiltæku ráðum munum við gera það. Það munum við gera. Við munum standa fast á því. Þið skuluð bara að fá að vita það í stjórnarliðinu, að við munum standa fast á því. Ég er reiðubúinn til að heyja þá orustu til síðasta blóðdropa um vatnsdropana í þessu landi.