132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:28]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Auðvitað er það svo að forseti ræður. Ég hlýði forseta jafnan. Ég hins vegar hef minn fulla rétt á því að vera ósammála því hvernig hún hagar fundarstjórn þingsins. Ég mundi nú ráðleggja hæstv. forseta að tala ekki mikið um fjölskyldur og fjölskylduvænt þing. Ekki hefur það nú miðað mjög fram á veg undir stjórn þessa forseta, eins og við höfum séð í þessari viku og samkvæmt þeim áætlunum sem hæstv. forseti er að leggja hér fram.

En, frú forseti, yfirleitt er það nú svo þegar menn koma hér upp og varpa fram fyrirspurnum til forseta eða hæstv. ráðherra að þeir fá að fylgja því eftir með því að tala aftur. Ég geri engar sérstakar athugasemdir við að hæstv. forseti leyfði mér sem málshefjanda ekki að taka aftur til máls. Hæstv. forseti verður að ráða það við sjálfa sig hvernig hún stýrir þinginu.

Ég kom hingað hins vegar til að varpa fram spurningu til tveggja ráðherra. Annar var mættur. Þessi spurning var svona: Er það rétt að samningar hafi náðst á millum EFTA-ríkjanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um hvað á að vera innihald í því frumvarpi sem hér á að leggja fram samkvæmt EES-samningnum á grundvelli vatnatilskipunarinnar?

Hvers vegna varpa ég fram þeirri spurningu? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur sagt að ekki sé hægt að leggja fram slíkt frumvarp samhliða því frumvarpi um nýtingu á eignarhaldi á vatni sem hér liggur fyrir af því að samkomulag sé ekki í höfn. Það var auðvitað ljóst öllum sem hlýddu á hæstv. iðnaðarráðherra hérna áðan, að hún vék sér undan því að svara þessu. Ég tel að þingið eigi heimtingu á að fá svar við þessu. Ég tel, og vísa í fyrri úrskurð hæstv. forseta Alþingis, að ráðherrum beri að svara fyrirspurnum þingmanna.

Þetta hefur áður komið upp. Ég hef áður spurt hæstv. forseta, Sólveigu Pétursdóttur, sérstaklega eftir því hvort þeim beri ekki að svara. Og úrskurður forsetans liggur alveg skýr fyrir þó að forseti þingsins hafi ekki séð ástæðu til þess núna að óska eftir því sérstaklega að hæstv. iðnaðarráðherra svari þessu. (Iðnrh.: Þetta er ekki minn málaflokkur.)

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra kallar fram í að þetta sé ekki hennar málaflokkur. Ég hafði óskað eftir því að bæði hún og hæstv. umhverfisráðherra yrðu viðstaddar. Ég sá hæstv. umhverfisráðherra bregða fyrir, eins og svipi af nýjum degi hérna áðan, en nú er hún horfin. En það er mikilvægt að svör fáist í þessu.

Ef þetta er raunin er kominn grundvöllur til ákveðinna sátta um meðferð málsins. Það er ekkert sem knýr á um að þetta lagafrumvarp verði samþykkt með þessu hraði. Hvað er það eiginlega? Ég hef ekki séð þær nauðir sem reka á eftir því. Ef hægt væri að leggja hérna fram heildstæða löggjöf sem núna á að vera hægt samkvæmt þessum upplýsingum, þá er menn búnir að ná sátt a.m.k. um meðferð málsins.