132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:34]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki alls fyrir löngu áttum við hér í orðaskaki út af öðru frumvarpi frá hæstv. iðnaðarráðherra sem ég ætla að rifja hér aðeins upp. Með leyfi forseta ætla ég að grípa hér niður í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra varðandi það mál.

Þar sagði hæstv. iðnaðarráðherra:

„Hæstv. forseti. Umræða um mál þetta hefur farið í óheppilegan farveg og ég á minn þátt í því. Við þinglega meðferð málsins hafa komið fram athugasemdir sem ég tel vert að skoða nánar og með þetta í huga óska ég þess að málið verði aftur tekið upp í hv. iðnaðarnefnd og vonast til þess að það geti orðið gott samstarf um málið.“

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost að sitja á fundi með forseta Alþingis þegar þetta mál var leitt til lykta. Það var gert inni hjá forseta. Það að vísu bætti ekki málið að hæstv. iðnaðarráðherra sat þar inni. En hvað gerðist í því máli? Málið var tekið aftur, farið með það í iðnaðarnefnd og rætt þar og þar kom niðurstaða sem leiddi til lykta þess máls.

Hvað gerðist svo í viðbót, virðulegi forseti? Iðnaðarráðherra skrifar þingflokkum bréf og biður um tilnefningu í nefnd í framhaldi af þessu. Tveir þingmenn í þingflokki Samfylkingarinnar, hv. þingmenn Jóhann Ársælsson og Mörður Árnason, sem héldu utan um það mál fyrir okkar hönd, bentu á villu sem var í því bréfi sem leiddi til þess að þingflokksformaður okkar, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, skrifaði iðnaðarráðuneyti bréf með spurningu um það, og hvað gerðist? Jú, það kom bréf frá iðnaðarráðuneytinu þar sem skilningur okkar var staðfestur og enn einu sinni var beðist velvirðingar á mistökum sem leiddi svo til þess að málið var leitt til lykta og skipað í nefndina.

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að kippa í spottann enn einu sinni í máli frá hæstv. iðnaðarráðherra og það skoðað hvort hér sé ekki í gangi enn einn flumbrugangurinn í viðbót. Miðað við þá lýsingu sem ég hef sett fram á þessu máli, sem var síðasta deiluefni hæstv. iðnaðarráðherra, held ég að full ástæða sé til að skoða það.

Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, að þeim málefnalega flutningi sem hér kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og spurningum til hæstv. iðnaðarráðherra hefur engu verið svarað. Hér kom hins vegar hæstv. iðnaðarráðherra upp og var með tóman skæting í garð okkar þingmanna eins og hennar er von og vísa. Ef það er einhver hér inni, virðulegi forseti, sem ætti að skammast sín væri það hæstv. iðnaðarráðherra á þessari stundu.