132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:37]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hv. þingmaður mun nota það gegn mér alla tíð að ég skuli hafa viðurkennt mistök. Ég tel mig meiri mann að því að hafa gert það. (Gripið fram í: Haltu því þá bara áfram.) Ég gerði mistök í sambandi við það frumvarp sem var hér fyrir jól og viðurkenndi það fyrir þinginu og það mál var leiðrétt.

Það sem við erum að fjalla um hér er hins vegar mál sem er þaulrætt og það var afgreitt með friði úr nefnd. Þegar það svo kemur inn í þingið hefst það sem ekki er hægt að nota neitt annað orð um en málþóf. Það á að reyna að villa um fyrir fólki út á hvað þetta mál gengur.

Ég held að hv. þingmenn ættu að taka tillit til þess að ef þeir gætu takmarkað mál sitt og komið í stuttu máli á framfæri því sem þeim finnst — sem er allt annað en hvað mér finnst — þá held ég að það væru meiri líkur á að þeir kæmu í gegn þeim hugsunum sem bærast í höfði þeirra. Það að tala hér í fimm klukkutíma verður til þess að enginn tekur eftir því hvað hv. þingmenn eru að segja. Það eina sem er tekið eftir úti í þjóðfélaginu er að það er málþóf á Alþingi. (Gripið fram í.) Það sem er verst við þetta málþóf er að þetta byggist allt á misskilningi eða þá að fólk er að reyna, eins og ég sagði áðan, að koma á framfæri einhverju allt öðru en stendur í frumvarpinu. Þetta er ekki efnisbreyting. Það er verið að nútímavæða, skulum við segja, lög frá 1923 og að hinn mikli nútímaflokkur, sem Samfylkingin vill vera, skuli geta verið að beita sér gegn því að lög frá 1923 séu færð til nútímahorfs, það er ótrúlegt.

Hvað varðar vatnatilskipunina er það bara mál sem ég fer ekki með. Það er þannig í ríkisstjórn Íslands að einungis einn ráðherra fer með hvern málaflokk og ég fer ekki með þann málaflokk sem varðar vatnatilskipun Evrópusambandsins. Þess vegna get ég ekki svarað neinu um það. Ég held því fram, og ég veit að hæstv. umhverfisráðherra er mér sammála um það, að það mál sé ekki skylt því máli sem við fjöllum um núna að því marki að það þurfi að fara að bíða eftir þeirri tilskipun. Það er alltaf þannig, það kemur fram í ríkum mæli hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, að það á að bíða eftir einhverju öðru, það er þessi — ég veit ekki hvort það er beint leti — en það er einhver undarlegur hugsunarháttur hjá hv. þingmönnum að það þurfi alltaf að bíða eftir einhverju. Núna má ekki funda á föstudegi. Ég meina, erum við ekki í vinnunni í dag? Þetta er ótrúlegt og auðvitað fundum við bara þangað til þetta mál er útrætt og síðan verða greidd atkvæði, eins og hæstv. forseti hefur sagt, og þá kemur í ljós hver stuðningurinn er við málið.

Mér leiðist mjög að þurfa að segja þetta en ég get ekki annað en sagt að hv. þingmenn eru ekki þinginu til sóma með þessari framkomu.