132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:40]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að menn ættu að spara stóru orðin og reyna að lægja svolítið sitt málfar, það er með ólíkindum hvernig fólk getur talað. Það er ómaklega vegið að forseta Alþingis vegna þess að hún hefur reynt að koma til móts við þingmenn hvað eftir annað, reynt að koma í veg fyrir að það væru kvöldfundir og svo eru menn að kvarta hér undan því að vinna á föstudegi. Ég hef nú aldrei heyrt annað eins.

Málið hefur komið tvisvar fram á Alþingi, tvisvar sinnum hefur það verið sett aftur í nefnd til að koma til móts við stjórnarandstöðuna. Hv. stjórnarandstaða verður að átta sig á því að meiri hlutinn hlýtur að fá að ráða. Það getur ekki gengið svo endalaust að það sé hægt að fara svona með málið. Þetta ætti hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir allra manna best að vita, sem hefur verið í meiri hluta, og ég er alveg sannfærð um að hún hefur ekki verið svo liðleg við minni hlutann í Reykjavíkurborg að láta öll þau mál ganga eftir sem hún hefði að sjálfsögðu átt að gera.

Svo finnst mér nú allra skondnast í þessari umræðu með Vinstri græna. Þeir eru á móti Evrópusambandinu en nú hrópa þeir á Evrópusambandið og vilja lúta þeirra lögum í einu og öllu í þessu máli. Það er af sem áður var. Núna hrópa þeir á Evrópusambandið og nú eru þeir gengnir í eina sæng með Samfylkingunni og vilja ganga í Evrópusambandið.