132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:03]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég knúin til þess að koma upp vegna ummæla hæstv. iðnaðarráðherra hér áðan, en hæstv. iðnaðarráðherra, virðulegi forseti, var hér í ræðustóli Alþingis að firra sig allri ábyrgð á lögleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Mér þykir undarlegt og hæstv. ráðherra alls ekki til sóma, svo að notuð séu hennar eigin orð hér áðan, að gera svo vegna þess að í greinargerð með þessu frumvarpi til vatnalaga segir, með leyfi forseta, að það sé unnið „á vegum starfshóps umhverfisráðuneytisins sem starfar að lögleiðingu áðurnefndrar tilskipunar og í eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Sú löggjöf mun falla undir umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun en tryggt verður náið samráð við iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun.“

Ég er að velta fyrir mér, virðulegur forseti, hvort þetta þurfi að endurtaka og fá hæstv. iðnaðarráðherra hingað í salinn til að hlusta á þessi orð sem koma upp úr greinargerð með frumvarpinu til vatnalaga sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur hér fram. Það að látið sé viðgangast að hún geti staðið hér í ræðustóli Alþingis og firrt sig ábyrgð á málinu með þessum hætti er algjörlega fyrir neðan allar hellur.

Virðulegi forseti. Vegna ummæla líka um að hér hafi málið verið þaulrætt í hv. iðnaðarnefnd vil ég segja að það er hárrétt. Ég sit í þeirri nefnd og tók þátt í þeirri vinnu. Miðað við það sem kom út úr nefndinni verð ég að segja að það er eitt orð sem mér dettur í hug varðandi þá vinnu og sérstaklega það fyrirkall á fjöldanum öllum af þeim umsagnaraðilum sem sendu okkur erindi. Orðið er sýndarmennska. Það var varla tekið tillit til nokkurra af þeim gagnrýnu umsögnum sem fram komu frá fjölmörgum aðilum, hagsmunasamtökum og félögum úti í samfélagi okkar og stofnunum, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fleiri. Mun ég fara yfir það í ræðu minni hér á eftir. Það að segja að málið hafi komið þaulrætt út úr nefnd og sé rætt getur vel verið skilningur ráðherrans en það verður að taka fram að ástæða þessarar umræðu hér er sú að það var ekki tekið tillit til (Forseti hringir.) fjölda þeirra umsagna sem fram komu.