132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða fundarstjórn forseta og til að gera þá tillögu að þingfundi verði frestað eftir að þessari umræðu um fundarstjórn forseta lýkur og að við tökum síðan aftur til við þingfundi á mánudag kl. 15, eins og áætlun gerir ráð fyrir.

Mig langar líka svolítið til að útskýra um hvað þetta mál snýst. Það liggur hér fyrir ágætt nefndarálit frá minni hluta iðnaðarnefndar þar sem lagt er til að málinu verði vísað frá. Það er með ólíkindum að hlusta á málflutning sumra stjórnarliða sem láta eins og það sem hafi vakað fyrir stjórnarandstöðunni hafi verið að steindrepa það að hér verði búið til nýtt frumvarp um vatnalög. Þetta er grundvallarmisskilningur. Þeir eru að reyna að læða þessum misskilningi inn í þjóðarsálina. Reyna að telja fólki sem er að fylgjast með störfum Alþingis trú um að hér eigi að fara að fremja eitthvað ofbeldisverk í þingsalnum. Þetta er alrangt. Við erum að leggja til að málinu verði vísað frá. Hvers vegna er það gert? Það er gert vegna þess að ef maður les þetta frumvarp og skoðar það vandlega og þær umsagnir sem hafa komið um það frá mörgum af okkar virtustu stofnunum þá sér maður að þetta frumvarp er meingallað. Menn eiga að taka þetta frumvarp, leggja það til hliðar, nota næstu mánuði til að fara vel yfir þær umsagnir sem hafa komið og til að lesa frumvarpið aftur. Og koma síðan með nýtt frumvarp næsta haust þar sem tillit yrði tekið til nokkurra af þeim mjög svo góðu og málefnalegu ábendingum sem hafa komið um nauðsynlegar úrbætur á þessu frumvarpi.

Ég skil ekki hvað gerir það að verkum hvílík ósköp liggja á að koma frumvarpinu í gegn núna. Ég skil það ekki. Ég hef ekki heyrt eina einustu röksemd fyrir því hjá stjórnarliðum Hvað gerir það að verkum að það þarf að afgreiða þetta nú á vorþingi?

Virðulegi forseti. Ég vil líka fá að spyrja að því: Er hæstv. forsætisráðherra með fjarvistir í dag?

(Forseti (SP): Forseta er ekki kunnugt um það. Hins vegar er forseta kunnugt um að staðið hefur yfir fundur í ríkisstjórn í morgun. Það má vera að honum sé lokið. Forseta er ekki kunnugt um það. Það hafa allmargir hæstv. ráðherrar komið hér í þingsalinn en forseti getur kannað hvernig stendur á með hæstv. forsætisráðherra. Bendir þó á að þetta frumvarp sem er sér á dagskrá í dag heyrir undir svið iðnaðarráðherra.)

Þá vil ég mælast til að hæstv. forsætisráðherra verði kallaður til þingfundar og hann komi hér og útskýri fyrir þingheimi hvað gerir það að verkum að svo mikið liggi á að þetta frumvarp um vatnalög, sem snýst um eignarhald á vatni, verði afgreitt hér á vorþingi. Við verðum að fá að heyra skýringar á því.