132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:37]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni starfsáætlun þingsins og annað sem hér hefur aðeins verið komið inn á.

Í 72. gr. þingskapa stendur, með leyfi forseta:

„Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.“

Þetta hefur verið gert. Starfsáætlun þingsins er sett fram í byrjun. Henni hefur að vísu töluvert mikið verið breytt. Nefndadagar hafa tvisvar verið færðir til að ósk forseta og stjórnarliðsins, og hvers vegna? Jú, virðulegi forseti, vegna þess að stjórnarfrumvörp hefur vantað inn í nefndir. Þess vegna hafa menn þurft að færa dagana til.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er hér fjallað um áætlanir um þingstörf hverrar viku. Það var gert síðasta mánudag. Ég hlustaði á formann þingflokks sem sagði frá því hvernig vikuáætlun lægi fyrir og að hún hefði verið prentuð og væri öllum sýnileg á vef Alþingis. Henni hefur verið gjörbreytt. Ég hef margoft sagt það á fundum þar sem ég hef leyst formann minn af að ég virði að sjálfsögðu að forseti setur þessa dagskrá. Mér finnst óeðlilegt að því sé breytt eins og hér á miðvikudegi þar sem settur er nýr fundur og síðan kvöldfundur á fimmtudag og svo fundur á föstudag sem ekki stóð til.

Ég mundi aldrei mótmæla því ef forseti kæmi næsta mánudag með vikuplan þar sem hún boðar kvöldfundi, fundi á föstudegi o.s.frv. með fyrirvara. Forseti Alþingis verður að taka tillit til þess að við þingmenn ráðstöfum tíma okkar til funda líka, eins og við landsbyggðarmenn úti á landi. En það er ekki gert.

Virðulegi forseti. Mér finnst oft og tíðum að forseti Alþingis hafi verið með dálítil liðlegheit við stjórnarandstöðu og miðlað málum. Ég tók dæmi fyrr í morgun sem kom í veg fyrir slys við lagasetningu frumvarps frá iðnaðarráðherra. Núna er það þannig að það eru aðeins fjögur stjórnarfrumvörp sem bíða 1. umr. og aðeins fjögur mál sem bíða 2. umr. og fjögur mál sem bíða 3. umr. Það er allt og sumt.

Virðulegi forseti. Ég gagnrýni það og mér finnst það miður og ég verð að segja að því hefur verið mótmælt á fundi þingflokksformanna með forseta að setja þessa kvöldfundi á og þennan fund í dag og þá hótun sem er um fund á morgun. En ég tek það skýrt fram að ég virði þær tilkynningar um áætlanir sem koma á mánudegi hjá forseta þingsins fyrir alla vikuna. En það var ekki gert ráð fyrir þessum vitleysisgangi í þessari viku.

Þetta vildi ég láta koma hér fram vegna þess að mér finnst miður hvernig forseti gengur fram með þessu offorsi í þessari viku. Mér hefur fundist sem forseti vildi (Forseti hringir.) hafa gott samstarf um þessi mál.