132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Síðasti hv. ræðumaður vék eilítið frá umræðuefninu um fundarstjórn forseta og fór að tala um söguleg kosningabandalög sem væru jafnvel í uppsiglingu. Ein 3–5 eru nú í uppsiglingu eða fram komin hjá flokkum okkar, Samfylkingu og Framsókn, í sveitarstjórnarkosningum og ræddum við þau mál sérstaklega hér fyrr í vikunni, ég og hv. þingmaður, þar sem við fögnuðum því mjög að vera komnir í bandalag saman, félagarnir. Gladdi það sérstaklega hv. þingmann að frétta af þessu bandalagi, fyrst hann vék nú umræðunni að kosningabandalögum, væntanlegum, verðandi og núverandi.

En svona aðeins til að ræða um fundarstjórn forseta upphófst þessi umræða í morgun, fyrir um tveimur klukkutímum, á því að stjórnarandstaðan rétti út sáttarhönd. Stjórnarandstaðan bauðst til að draga hv. ríkisstjórnina að landi, rétti fram sáttarhönd sem fælist í því að fengjust menn til að fresta málinu, taka það út af dagskrá, ræða það ásamt og með væntanlegri vatnsverndarlöggjöf sem er væntanleg sem tilskipun frá Evrópusambandinu væri hægt að ná samningum um málið, sátt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og einhvers konar sátt gæti hugsanlega verið í augsýn ef málinu væri frestað og vatnsvernd og vatnsnýting rædd samhliða þegar það mál kemur fram frá hæstv. umhverfisráðherra.

Svo brá við, hæstv. forseti, og því vil ég beina til hæstv. forseta, að umhverfisráðherra svaraði þessu í engu, þessu sögulega sáttatilboði frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, um að ná lendingu í málinu, hugsanlega, með því að ræða hér samhliða um nýtingu og vernd vatnsins. Á þessa sáttarhönd hv. þingmanns og þetta sáttatilboð stjórnarandstöðunnar var í raun slegið með þögninni. Talsmenn stjórnarinnar streymdu hér upp hver á eftir öðrum í miklu móðursýkiskasti, hver öðrum verri, þar sem þeir ruddu úr sér fúkyrðunum um einstaka hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eða málflutning þeirra. Mátti ekki á milli sjá hvar taugaveiklunin var meiri, í þingliði Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks, hjá hv. þingflokksformanni sjálfstæðismanna Guðlaugi Þór Þórðarsyni eða hæstv. iðnaðarráðherra sem fór hér á áður óþekktum kostum með neikvæðum formerkjum, allt út af því að stjórnarandstaðan rétti fram sáttarhönd í hörðum deilum, pólitískum, um það að stjórnvöld ætli að einkavæða eitt af frumefnunum, vatnið. Þetta er ein af stærri umræðum sem hafa komið inn í þingið lengi og ég held að hv. þingmenn stjórnarliðsins ættu að líta til fjölmiðlamálsins og þess hve langar umræður, eða málþóf eins og þeir kalla það, (Forseti hringir.) skiluðu þegar þeir björguðu þjóðinni frá þeim (Forseti hringir.) stórundarlegu hugmyndum (Forseti hringir.) þáverandi forsætisráðherra um að setja þessi fjölmiðlalög.