132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:57]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil ítreka óskir mínar til hæstv. forseta um að fundi verði frestað og þetta mál verði tekið út af dagskrá. Við sjáum öll í hvers konar óefni þetta er komið og þetta er greinilega farið að hafa veruleg áhrif á störf þingsins. Við í stjórnarandstöðunni erum sökuð um að teygja hér hluti og breyta málum og stofna til kvöld- og helgarfunda en það er auðvitað alls ekki þannig. Við erum bara að nýta okkar rétt til málfrelsis og það er hæstv. forseti sem ræður dagskránni. Það er hæstv. forseti þingsins sem ákveður að haldnir séu margir kvöldfundir í viku og jafnvel talað um að það eigi að funda alla helgina.

Þetta kemur okkur sem eigum ung börn ekkert sérstaklega vel og það var nú einmitt talað um það í upphafi þessa löggjafarþings að taka ætti meira tillit til fjölskyldufólks og laga störf þingsins að því. Ég vildi gjarnan sjá fjögurra mánaða dóttur mína miklu oftar en ég hef getað síðustu vikur. En hæstv. forseti setur á kvöldfundi aftur og aftur og nú er því jafnvel hótað að við eigum að vera hér alla helgina.

Ég fer fram á það í allri auðmýkt að hæstv. forseti endurskoði þessa stefnu sína og taki tillit til þarfa þingmanna og verji þar með álit þingsins. Ég fer fram á að þetta mál verði tekið út af dagskrá og þessir hlutir skoðaðir í ró og næði. Eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson mælist ég til þess að ekki verði slegið á útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar í þessu máli, sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi virðist ætla að gera.