132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:04]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil af þessu tilefni spyrja hvers vegna forseta dettur aldrei í hug að gera athugasemdir nema þegar stjórnarandstöðuþingmenn tala. Hv. síðasti ræðumaður hefur rakið ýmis dæmi þess að stjórnarþingmenn hafa kannski hagað sér þannig í þessum stól að ekki er með öllu móti sæmandi. Ég ætla hins vegar að ræða fundarstjórn forseta. Ég kom því ekki öllu að áðan sem ég ætlaði að segja.

Það er auðvitað svo, eins og allir sjá, að hér í morgun hefur verið eins konar herkvaðning meðal stjórnarþingmanna. Það mættu m.a.s. nokkrir ráðherrar. Að vísu ekki þeir sem við vildum helst tala við, umhverfisráðherra og forsætisráðherra, en hæstv. iðnaðarráðherra mætti. Hún svaraði að vísu ekki þeim spurningum sem við átti vegna þess að herkvaðningin var á þann veg að hér átti að vera táknræn aðgerð til að sýna stjórnarandstöðunni, og væntanlega þjóðinni líka, í tvo heimana. Þetta frumvarp færi í gegn.

Það er leitt að forseti þingsins virðist hafa verið einhvers konar partur af þeirri herkvaðningu. Öðruvísi verður það ekki skilið að hann skuli ekki hafa sýnt því nein viðbrögð þegar hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, benti á leið til þess að greiða för hér í þinginu til að önnur mál kæmust að en það sem nú er margrætt. Hann spurði hvort þær fréttir væru réttar að samningum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið um vatnatilskipunina væri lokið þannig að ekkert væri því til fyrirstöðu að frumvarp það sem legið hefur fyrir í drögum, eins og ég benti á áðan, og sagt er frá í greinargerð með vatnalagafrumvarpinu núna og vatnalagafrumvarpinu síðast, sæist hér á þinginu. Ef sú væri raunin værum við tilbúin að bíða eftir því frumvarpi og ræða þetta með skynsamlegum og eðlilegum hætti hvort tveggja saman.

Ríkisstjórnin verður auðvitað í sínum sérkennilega skilningi á lýðræðisathöfnum — að ég tali nú ekki um þingræðisathafnir, en það orð viðhafði forseti hér áðan um allt annað en það sem það á við um — að finna eitthvað út úr því að hún getur ekki bæði farið samráðsleið við stjórnarandstöðu og hagsmunahópa, eins og stendur til að gera í nefnd sem skipuð er samkvæmt lögum um jarðrænar auðlindir og í stjórnarskrárnefndinni, og um leið keyrt mál í gegnum þingið á forsendum meirihlutavalds. Þetta gengur ekki hvort tveggja í senn. Við bíðum enn, þingmenn, eftir viðbrögðum forseta við þeirri ábendingu Össurar Skarphéðinssonar hv. þingmanns, míns manns, að hægt sé að (Forseti hringir.) ræða þetta mál í sátt og samlyndi.