132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[12:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við sættum okkur ekki við þessi svör, að þinghaldi verði haldið áfram eitthvað fram eftir degi. Hvað þýðir það? Við þekkjum það frá fyrri tíð að talað hefur verið um kvöldfund sem síðan stendur til fjögur eða fimm að morgni. Það hefur verið talað um að halda áfram eitthvað fram eftir kvöldinu og jafnvel eitthvað inn í nóttina. Þegar upp er staðið eru menn að ræða málin hér fram undir morgun. Við sættum okkur ekki við svona óljós svör og ég held að þeir sem fylgjast með þessu þófi, því að þeir kunna að vera þó nokkrir, hljóti að furða sig á þeirri verkstjórn sem hér er uppi. Þegar spurt er eðlilegra spurninga um það hve lengi þingfundur eigi að standa sé svarað nánast út í hött eða spurningunni vísað frá, hún leidd hjá sér, og sagt að það verði haldið áfram eitthvað fram eftir degi.

Hæstv. forseti. Ég ítreka þá kröfu sem hér hefur komið fram að það verði gert hlé á þessum fundi þannig að við getum fengið skýr og afdráttarlaus svör um það hve lengi sé gert ráð fyrir að þessi þingfundur standi.