132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:30]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns fá að leita eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra verði kölluð hér í salinn svo hún geti verið við ræðu mína enda frumvarpið undan hennar rótum runnið sem kunnugt er og varðar algjörlega mál hennar á því sviði í ríkisstjórninni og þær spurningar sem um málið eru uppi.

(Forseti (BÁ): Forseti mun grafast fyrir um hvernig aðstæðum hæstv. iðnaðarráðherra er háttað og gefa þingmanninum svör þegar það liggur fyrir.)

Já, hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir það og mun ekki fara lengra í máli mínu meðan forseti gerir þær ráðstafanir enda út af fyrir sig tilgangslaust að ræða frumvarp til vatnalaga frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra ríkisstjórnar Íslands ef hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra er ekki mætt í salinn. En ég treysti því að hún sé hér einhvers staðar í húsinu.

(Forseti (BÁ): Forseti hefur fengið upplýsingar um að hæstv. iðnaðarráðherra hafi af persónulegum ástæðum þurft að fara úr bænum en hér er í þinginu formaður hv. iðnaðarnefndar sem hefur forræði á málinu þegar það er komið til 2. umr. og forseti mun láta hann vita að hv. þingmaður hafi hafið ræðu sína svo hann eigi þess kost á að hlusta á ræðuna og bregðast við eftir því sem hann telur þörf.)

Virðulegur forseti. Nú skil ég vanda virðulegs forseta, að hæstv. iðnaðarráðherra er ekki hér á staðnum en hafi af persónulegum ástæðum þurft að fara úr bænum. Ég efa ekki að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hlýtur að hafa ríkar ástæður til að hafa þurft að gera það.

En ég undra mig, virðulegur forseti, á því satt að segja, að hæstv. forseti Alþingis sem hér ræður dagskrá efni til sérstaks aukafundar og krefji okkur almenna þingmenn um að gera breytingar á dagskrám okkar til að ræða mál frá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fyrir liggur að getur ekki verið við umræðuna.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að meginmál ræðu minnar er við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ég skil þess vegna ekki hvers vegna boðað er til þessa fundar í dag ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra getur ekki verið viðstödd málið.

Ég þurfti skömmu fyrir jól sem kunnugt er að eiga nokkurn orðastað við hæstv. ráðherra um annað frumvarp sem frá henni hafði komið. Í ljós kom eftir þær gagnlegu samræður að hæstv. ráðherrann hafði í því tilfelli misskilið eigið frumvarp og það var mjög mikilvægt í umfjöllun þingsins að sú samræða gat farið fram og hægt var að leiðrétta misskilninginn.

En ég hlýt að mótmæla því harðlega, virðulegur forseti, að sú krafa sé gerð á þingmenn stjórnarandstöðunnar að þeir bregði áætlunum sínum á þann veg að þeir aflýsi þeim skuldbindingum sem þeir hafa stofnað til á öðrum vettvangi til að koma hér til þings til að ræða mál við ráðherra sem ekki getur verið viðstaddur fundinn.

Ég geri engan ágreining um það, hæstv. forseti, að forseti Alþingis getur hvenær sem er gert það tilkall á mig að ég mæti til þingfundar að fjalla um mál. Það eru starfsskyldur mínar. En þegar forseti Alþingis gerir mér boð um að mæta til hins háa Alþingis að ræða mikilvæg lagafrumvörp frá einstökum ráðherrum ríkisstjórnarinnar þá treysti ég því að gengið hafi verið frá því að þeir geti verið til staðar sjálfir. Og þegar ég sinni starfsskyldum mínum hér hafi ég við einhvern að ræða, því til einskis er ræða mín, virðulegur forseti, ef ég get ekki við ráðherra rætt.

Það er ekki skilningur minn að lýðræðið snúist um það að efnt sé til kvöld- og helgarfunda til að ég og aðrir þeir sem hafa sterkar skoðanir á málinu geti talað einir. Það er ekki slík umræða sem hér þarf að fara fram. Þingræðið hlýtur að grundvallast á því að fram fari umræður milli manna. Mér segja þeir sem lengri þingreynslu hafa en ég að sú hafi verið tíðin að forseti Alþingis hafi ekki boðið upp á að umræður væru þar sem ráðherrar gætu ekki verið viðstaddir og þeir jafnvel teknir upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að mæta og vera við umræður.

Ég ítreka, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hlýtur að hafa ríkar ástæður til að vera annars staðar, en þá er þessi fundur þarfleysa, virðulegur forseti. Hann er algjör þarfleysa því erindi mitt er við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ég verð því miður að flytja stærstan hluta máls míns væntanlega þá við 3. umr. málsins. Ég árétta að ég skil ekki hvers vegna mér hefur verið gert boð um að koma til þessa fundar þegar fyrir liggur að flutningsmaður málsins er ekki við, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem mælti fyrir því við 1. umr. og sannarlega skilaði því til nefndar og var við þá umræðu eftir því sem ég best veit. Þegar settur er á sérstakur aukafundur er auðvitað mikilvægt að báðir aðilar þeirrar deilu sem ræða á og útkljá geti verið viðstaddir.

Með fullri virðingu fyrir formanni iðnaðarnefndar sem ég þekki af góðu einu í samskiptum í þingstörfunum þá er hann ekki forustumaður fyrir ríkisstjórn Íslands um að flytja frumvarpið eða í þingflokki Framsóknarflokksins. Þó að hann sé fullgildur alþingismaður og formaður nefndar og njóti fullrar virðingar minnar eru ýmsar spurningar sem ég tel að hann geti ekki svarað því það eru pólitískar spurningar sem snúa að iðnaðar- og viðskiptaráðherra sérstaklega.

En fyrst svona er mun ég ekki gera þetta út af fyrir sig að lengra umfjöllunarefni, virðulegur forseti, og ég skil vanda þess forseta sem fundinum stýrir. En ég mótmæli því hins vegar harðlega, og ég tel að mér sem alþingismanni sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing, að forseti Alþingis boði mig til aukafundar um málefni þegar fyrir liggur að sá ráðherra sem um málaflokkinn fer getur ekki sjálf sinnt því fundarboði. Ég hefði talið það vera tilhlýðilega virðingu, sem ég satt að segja eftir nærri þriggja ára störf á Alþingi á nú ekki von á að mér verði sýnd. En ég hefði talið það tilhlýðilega virðingu fyrst þannig háttar til að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra getur ekki verið á fundinum þá væri frá þessum fundi fallið og efnt til annars fundar þegar bæði þeir sem vilja ræða málið af hálfu stjórnarandstöðunnar og formaður iðnaðarnefndar að sjálfsögðu og auðvitað hæstv. iðnaðarráðherra geta verið við umræðuna.

Ég hlýt þá að láta meginefni máls míns bíða til 3. umr. um málið enda held ég að engum tilgangi þjóni að hafa hér löng ræðuhöld að hæstv. iðnaðarráðherra fjarstaddri.

Ég vil taka fram vegna orða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrr á fundinum að ég tel að Alþingi sé mikill sómi að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, þó að hún hafi kosið að lýsa því yfir að við ákveðnir þingmenn sem hefðum ákveðna skoðun og gengjum fram með ákveðnum hætti værum þinginu ekki til sóma. En til að við getum verið þinginu til sóma þurfum við náttúrlega að haga fundum okkar þannig að við getum bæði verið við þá fundi, hvort öðru til sóma, virðulegur forseti.

Hvernig haldið hefur verið á þessu máli af hálfu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og stjórnarmeirihlutans í þinginu og ef til vill að einhverju leyti okkur í stjórnarandstöðunni — ég skal ekki firra sjálfan mig neinni ábyrgð í því, gott máltæki segir að sjaldan eigi einn sök þá tveir deila — og hvernig málum er nú komið með það frumvarp sem hér er rætt eigi að vera okkur öllum nokkurt umhugsunarefni og þær miklu og löngu umræður sem fram fóru í morgun. Því ég held að hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu geti þeir verið því sammála að þessi vika í störfum þingsins hafi ekki verið þinginu til sóma, eins og við þingmenn og ráðherrar viljum gjarnan vera. Þó að hv. þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu kunni kannski að greina á um hvorum er þar um að kenna þá er ég kannski ekki endilega viss um að það sé merkileg umræða að finna sökudólginn. Ég held að menn þurfi einfaldlega að horfast í augu við það að hér hafa menn í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga augljóslega siglt í strand.

Ég vil eindregið hvetja forustu þingsins til að ræða það atriði og mál af fullri einurð og hreinskilni við þingflokksforustuna í þinginu og reyna að takast á við þann vanda sem þar er og reyna að leysa úr þeim vonda hnút sem nú er. Enginn sómi er að því að setja á aukafundi á aukafundi ofan og láta þingmenn eins og mig standa uppi frammi fyrir því að eiga að fara með mál sitt fyrir ráðherralausum bekk og eiga orðastað við tómið sjálft. Það er ekki mér til sóma og sýnir mér ekki þann sóma sem mér ber. Við erum ekki í störfum okkar með því að sýna Alþingi þann sóma sem vert er.

Ég held að hvernig þessu máli hefur farnast kalli einfaldlega á að menn ræði talsvert saman um með hvaða hætti þeir skilja hugmyndina um lýðræði og þingræði. Að ekki verði sæmilega farsæl störf á Alþingi nema menn hafi nokkuð mikinn samhljóm í því með hvaða hætti þeir skilja leikreglurnar sjálfar. Því það er augljóst að bæði stjórn og stjórnarandstöðu þykir orðið að hinn aðilinn hafi gengið lengra en góðu hófi gegnir og ekki virt leikreglurnar.

Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, þó það varði ekki greinar frumvarpsins sjálfs sem ég augljóslega neyðist til að ræða við hæstv. iðnaðarráðherra við annað tækifæri, aðeins fjalla um og fara yfir það frá mínum sjónarhóli hvernig þessi blindgata sem ég held að þingið sé í með þetta mál horfir við mér. Mér finnst sem alþingismanni og hefur í vaxandi mæli þótt á undanförnum árum að það sjónarmið, þ.e. ef meiri hluti er fyrir máli sem kynnt er á Alþingi, þá sé það fyrst og fremst verkefni Alþingis að afgreiða það mál með meiri hluta atkvæða, verða æ sterkara og virðing þingsins um sumt og sjálfstæði þess fara minnkandi. Og að kröfur manna til mála og málatilbúnaðar í nefndum þingsins hafi farið dvínandi og metnaður til að fara með gagnrýnum hætti yfir það sem hér er fyrir.

Það er einatt viðkvæði að fyrir þessu máli sé skýr meiri hluti og það þurfi ekkert að ræða það mikið lengur. Sjónarmið séu komin fram og hér liggi svo sem ekki mikið annað fyrir en að afgreiða þau.

Ég hef t.d. hlýtt með stakri athygli á málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals á ýmsum vettvangi, sem hefur talið allt of lítið af því gert að Alþingi sjálft hafi forræði mála og að nefndir þingsins m.a. flytji frumvörp til laga og þingmenn eigi ekki að kalla eftir því að framkvæmdarvaldið semji lögin fyrir þá heldur eigi þeir að hafa metnað til að gera það sjálfir. Ég verð að segja að enda þótt við hv. þm. Pétur H. Blöndal séum ekki flokksbræður þá hef ég fundið mikinn samhljóm í því sem hann segir um þetta. Mér finnst hann hafa mjög rétt fyrir sér í þessu. Ég held þess vegna að þingið eigi að gera talsverðar kröfur til málatilbúnaðar.

Ég held að það hafi því miður sýnt sig í málum sem komið hafa frá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, nú síðast í desember og jafnvel aftur eftir það, að þar hafi ekki verið haldið nægilega vel á málum og ekki nægilega vandað til lagafrumvarpa sem kynnt hafa verið. Það sýndi sig þá að í mikilvægu frumvarpi var uppi grundvallarmisskilningur um efni málsins af hálfu ráðuneytisins sem sjálft lagði frumvarpið fram og var algjörlega nauðsynlegt að laga það og leiðrétta. Þess vegna gefa þau mál sem þaðan hafa komið kannski sérstakt tilefni til að menn fari vel og vandlega yfir þau.

Ég held að þetta sé kannski ekki bara spurningin um sjálfstæði þingsins og að það sé gagnrýni í vinnubrögðum. Ég skynja það a.m.k. þannig að þetta séu eilítið ólíkar hugmyndir um lýðræðið sjálft og um rétt meiri hlutans og rétt minni hlutans. Sumir hafa viljað halda því fram að sá réttur meiri hlutans til að afgreiða mál sé ótvíræður og takmarkalaus, að ef hér sé naumur meiri hluti á þingi fyrir einstöku máli megi keyra það í gegn og afgreiða það, hvað sem öðrum sjónarmiðum líður.

Við þetta sjónarmið hef ég talsverðar athugasemdir. Ég tel að menn þurfi að hafa ýmislegt í huga þegar þeir ætla að ákveða að ljúka máli þannig með naumum eða einföldum meiri hluta. Það verður þá fyrst að gera þá kröfu að vel sé vandað til lagasetningarinnar. Það hefur komið fram í umfjöllun um þetta mál að ekki hafi enn verið ákveðið með hvaða hætti á að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem er leiðarvísirinn um löggjöf um vatn á Evrópska efnahagssvæðinu. Augljóslega ganga ýmis atriði í allt aðra átt í þeirri löggjöf en þeirri sem hér er verið að mæla fyrir á Íslandi sem ætlar sér þó að vera hluti af þessu réttarumhverfi. Þannig er lögð rík áhersla á það í 1. gr. vatnatilskipunar Evrópusambandsins að vatnið sé ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur sé það þvert á móti sameiginleg arfleifð mannkynsins. Þau ákvæði sem þar er að finna lúta síðan fyrst og fremst að því að auka og styrkja almannarétt og aðgengi og umhverfissjónarmiðin í málinu en í 1. gr. þessa frumvarps er þvert á móti sérstaklega lagt í þann leiðangur að styrkja einkaeignarréttarsjónarmiðið sem uppi hefur verið og í raun og veru er allur andi laganna þvert gegn þeim lögum sem við þurfum þó að taka upp í okkar rétt.

Ég held þess vegna að það sé fyllilega málefnaleg krafa, virðulegur forseti, af hálfu stjórnarandstöðunnar að sú tilskipun sem gilda á á Íslandi á þessu sviði komi til umfjöllunar jafnhliða sérstakri lagasetningu um vatn. Ég held að það sé ekki annað en krafa um vönduð vinnubrögð og að þingmenn úr öllum flokkum eigi að gera kröfu um vönduð vinnubrögð. Löggjöfin sem við erum að fjalla um, vatnalögin sjálf, hefur nú haldið í liðlega 83 ár.

Vatnatilskipun Evrópusambandsins liggur fyrir í drögum í íslenskri þýðingu og búið er að ná samkomulagi, ef skilja mátti rétt umræðuna í morgun, um það hvernig standa eigi að því að taka hana upp í EFTA-stoðinni á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég held þess vegna að allir þingmenn geti samþykkt, ef þeir horfa með sanngjörnum hætti á þessa stöðu mála, að vilji menn vanda vel til löggjafar um vatn væri affarasælast að afgreiða þessi álitaefni í samhengi þannig að hægri höndin viti hvað sú vinstri gjörir. Ég held að þingmenn stjórnarflokkanna ættu að hlusta á starfsbræður sína í stjórnarandstöðunni þegar þeir benda á þetta, vegna þess að ég held að það sé sannarlega af málefnalegum rótum runnið sem allir geti viðurkennt ef menn hafa þrótt í sér til þess hér í þingræðinu að hefja sig aðeins upp yfir flokkadrætti um stund.

Hitt atriðið, virðulegur forseti, sem í mínu hjarta skiptir miklu máli um gang lýðræðisins og leikreglurnar er að það er ekki fyllilega sama hvað verið er að afgreiða. Ég tel að réttur meiri hluta þingsins til að ákveða t.d. ákveðna fjárveitingu til einstaks aðila sé alveg ótvíræður og réttur minn sé í sjálfu sér ekki annar en að greiða atkvæði á annan hátt ef ég hef aðra skoðun. Ég tel hins vegar að þegar grundvallaratriði í samfélaginu, að ég tali ekki um í veröldinni og sögu mannkynsins, eru annars vegar, sé það lýðræðisleg skylda meiri hlutans að leitast við að skapa sem víðtækasta og besta samstöðu um grundvallaratriðin og grundvallarafstöðuna í samfélagsgerð okkar allra. Vatnið, vindurinn og sólin eru nú einu sinni grundvallaratriði í mannlegri tilveru sem ég held að við teljum okkur öll eiga nokkuð í, alveg óháð því hvað einstakir lögmenn á sviði einkaeignarréttar telja sig geta sagt um það atriði. Ég tel þess vegna að við eigum öll nokkuð ríkt tilkall til þess að á sjónarmið okkar um þessi grundvallaratriði í mannlegri tilveru sé hlustað. Ég tel að það geti ekki verið annað en neyðarúrræði fyrir sitjandi meiri hluta að keyra fram með litlum meiri hluta sjónarmið, sem tæplega helmingnum eru ákaflega andstæð, um það sem við eigum, að mínu viti óumdeilanlega saman eins og vatnið.

Stundum er sagt að lýðræðið gangi í gegnum þroskaskeið á fyrsta stigi lýðræðisins og hinu frumstæðasta. Þá hafi menn uppi þau viðhorf og venju að afl meiri hlutans skuli ráða og sjónarmið minni hlutans engu og þar eigi sigurvegarinn úr einum kosningum að taka allt, ef svo má segja. Ég held að þar sem menn hafa borið gæfu til að þróa og þroska lýðræðishugmyndir sínar, eins og vonandi í okkar ágæta landi og í nágrannalöndum okkar, hafi menn almennt tamið sér aðrar hugmyndir, m.a. þær að um grundvallaratriði í samfélaginu og samfélagsgerðinni sé mikilvægt að hlustað sé á sjónarmið minni hlutans og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig við skiljum grundvallaratriðin, af því að tilgangurinn með þeirri löggjafarsamkomu sem hér er er skapa leikreglur um það hvernig við ætlum að vera öll saman í einu félagi. Það félag köllum við samfélag. Til þess að við getum með farsælum hætti verið öll saman í einu félagi er mikilvægt að leitast við eftir fremsta megni að við höfum einhvern sameiginlegan skilning á grundvallaratriðum í samfélaginu.

Mér hefur ekki fundist góður bragur að því að hér væru gefnar út yfirlýsingar um að einstakir hv. þingmenn, nafngreindir meira að segja, byggju með Stalín innra með sér, þó að þeir hafi haft hér önnur sjónarmið um hvernig skilgreina eigi vatn í lögum landsins en aðrir þingmenn. Ég held að við ættum að láta samjöfnuð við slíkar persónur og ýmis öfgasjónarmið eiga sig.

Ég held að það séu einfaldlega málefnaleg sjónarmið af hálfu stjórnarandstöðunnar að hin jákvæða skilgreining á eignarrétti á vatni, þ.e. skilgreiningin um að landeigendur eigi nýtingarréttinn, hafi verið farsæl um 83 ára skeið og það sé sjónarmið sem hafi talsvert til síns máls. Enda held ég að menn séu almennt nokkuð sammála um að staðið hafi verið af geysilegri framsýni að lagasetningunni um vatnið árið 1923 og í raun og veru ótrúlegt að löggjöf sem sett var í nánast torfkofasamfélagi skuli hafa haldið í gegnum allar þær gríðarlegu samfélagsbreytingar og dugað til að skera úr um í flóknum hagsmunamálum sem varða mikil verðmæti, eins og t.d. í orkuvinnslu og aðgangi að vatni og öðru slíku. Þó að það sé almennt rétt að notuð sé neikvæð skilgreining á eignarrétti þá hygg ég að það blandist engum hugur um að vatn er auðvitað ákaflega sérstakt fyrirbæri og ýmis málefnaleg rök sem hníga að því að að skilgreina beri það með öðrum hætti í lögum en aðrar eigur manna, m.a. vegna þess að það getur einfaldlega runnið af landareignum manna og raunar gufað upp, og vegna þess hversu ríkur þáttur það er af lífi á jörðinni. Ég held að meiri hlutanum hafi enn ekki auðnast að benda á neinar ríkar ástæður sem geti legið til þess að breyta úr þessari jákvæðu skilgreiningu, sem í rúm 83 ár hefur verið góð samstaða um í íslensku samfélagi, og yfir í þessa skilgreiningu.

Virðulegi forseti. Ég lofa því að ég ætla ekki að halda hér uppi neinu málþófi og verð, eins og ég segi, að geyma meginmál míns erindis til annars tækifæris þegar hægt er að ræða það við hæstv. ráðherra.

Ég held að farsælast væri að menn kæmust að niðurstöðu um að fjalla um vatnatilskipunina og vatnalögin á sama tíma í þinginu þannig að við höfum þar bæði málin undir og menn reyni til þrautar að ná sameiginlegum skilningi á því hvernig við ætlum að skilgreina vatn í lögum. Auðvitað er það síðan á endanum réttur meiri hlutans ef hann telur að mikið liggi við og útilokað sé að ná samstöðu um málið. Þá hefur hann ákveðinn neyðarrétt til að ljúka málinu og koma því í gegn. Ég tel, virðulegur forseti, eftir að hafa setið í iðnaðarnefnd Alþingis, að þar sé sannarlega ekki fullreynt. Ég held að það hafi komið fram í umræðunum í dag, m.a. hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að þegar hv. nefndarmenn í iðnaðarnefnd Alþingis átta sig ekki á hvað um er deilt þá sé kannski tilefni til að menn reyni að skilja hverjir aðra. Ég hygg að við getum verið sammála um það, hv. alþingismenn, að almennt gildi það um þingmenn að þeir geti nokkuð vel gert grein fyrir máli sínu og sett fram sjónarmið sín. Ef við hlustum eftir því sem hinir hafa að segja þá ættum við að geta náð einhverri niðurstöðu.

Þetta eru í meginatriðum þau áhyggjuefni, virðulegur forseti, sem ég get miðlað og lúta í raun langmest að störfum þingsins. Ég held að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af störfum þingsins þegar svo er komið. Ég hvet til þess, virðulegur forseti, að háttvirtum alþingismönnum sé sýnd sú virðing að þessum aukafundi verði hætt í ljósi þess að hæstv. iðnaðarráðherra er ekki unnt að vera viðstaddur. Við eigum í raun ekki kost á því að ræða málið efnislega við hæstv. ráðherra. Ég tel að það færi langsamlega best á því.

Ég fæ með engu móti séð hvaða nauðsyn rekur menn áfram í þessum leiðangri. Enginn hv. þingmaður, mér vitanlega, hefur getað bent á eitt tilefni þess að nauðsynlegt sé að skýra með öðrum og breyttum hætti eignarheimildir á vatni. Ekkert það ágreiningsmál hafa menn getað nefnt fyrir dómstólum, engin þau þrætumál milli landeigenda og raunar ekkert ósætti á síðustu 83 árum sem við höfum verið að reka saman samfélag sem kallar á að menn breyti þessari skilgreiningu.

Ég játa, virðulegi forseti, að ég aðhyllist þá sýn á störf þessarar samkomu að hún eigi ekki að ráðast í lagasetningu, eða löggleði sem stundum er kölluð, á sviðum þar sem ekki er þörf á. Þar sem þörfin er ekki fyrir hendi er ekki ástæða fyrir þingið til að hlutast til um mál. Þá mundi þingið ekki gegna því landsföðurlega hlutverki sem það á að gegna, að leiða samfélagið og setja niður deilur í samfélaginu, heldur skapar það vanda, líkt og það hefur núna gert, með því að taka upp málefni sem fullkominn friður hefur ríkt um áratugum saman í íslensku samfélagi. Í óþreyju sinni eftir því að fá að setja lög og kveða á um breytingar gengur Alþingi fram fyrir skjöldu og segir í sundur friðinn um mikilvægt málasvið. Málið kemst í uppnám og ég hef enn engin tilefni heyrt til þess að ráðast í slíkar breytingar þótt ég ætli á engan hátt að gera lítið úr þeim sjónarmiðum að heppilegra væri að hafa neikvæðan eignarrétt á vatni.

Ég hugsa að út frá lögfræðilegum sjónarmiðum hafi ýmsir lögmenn sem því hafa haldið fram haft talsvert til síns máls. En það er einu sinni þannig, virðulegi forseti, að vatn er annað og meira heldur en lögfræði. Vatn er einfaldlega undirstaða lífs okkar, bæði í þessum sal og samfélaginu. Þess vegna eru auðvitað uppi margvísleg sjónarmið í málinu sem fólk hefur sett fram og fólk varðar um. Við eigum öll ansi mikið tilkall til þess með hvaða hætti þetta atriði er skilið.

Ég sé hins vegar að hv. þm. Pétur H. Blöndal er að verða óþreyjufullur eftir því að fá að eiga orðaskipti við mig. Hann hefur kvartað undan því fyrr í umræðunni að honum hafi ekki gefist kostur á að fara í andsvör við menn vegna þess að þeir hafi verið svo málglaðir. Ég vil sannarlega gera mitt, virðulegi forseti, til að umræðan geti hér eftir sem hingað til verið málefnaleg og gefið færi á skoðanaskiptum. Ég ætla þess vegna að láta lokið umfjöllun minni um frumvarpið, sem auðvitað er þeim annmörkum háð að ég hef ekki getað rætt við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og farið yfir málið sem veldur svo miklum deilum í þinginu. Ég árétta þá hvatningu mína til forseta Alþingis að þingmönnum sé sýnd sú virðing að þessum fundi verði hætt og skotið á fundi hvenær sem vera skal aftur þegar hæstv. iðnaðarráðherra getur verið til andsvara.