132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður virðist telja að ég geri lítið úr þingmönnum eða iðnaðarnefnd. Ég get bara áréttað fyrri orð mín um að svo er alls ekki. Enda farið lofsamlegum orðum um nefndina í ræðu minni.

Hv. þingmaður veit að ráðherrarnir mæta ekki fyrir nefndir. Þegar fjallað er um mál í nefnd, eins og ég hef gert, koma fram margvíslegar upplýsingar, sjónarmið og atriði, m.a. við þá málefnalegu umfjöllun sem hv. formaður iðnaðarnefndar hefur staðið fyrir um þetta mál. Það hefur gert að verkum að ég hef ýmislegt við hæstv. iðnaðarráðherra að ræða sem ég hafði ekki við 1. umr. málsins. Ég held að hv. þingmaður viti að það er ekki annað en sanngjarnt að ég geri kröfu til að ráðherrann sé viðstaddur umræðu um jafnumdeilt mál.

Andsvör hv. þingmanns afhjúpa það sem ég hef spurt um, þ.e. að enginn maður á Íslandi veit af hverju ríkisstjórnin ákvað að hleypa upp þinghaldinu og gera ágreining um grundvallarmál eins og vatnið. Enginn hefur getað bent á annað en að sú löggjöf sem í gildi er hafi, með skilgreiningu sinni á eignarhaldi, þjónað góðum tilgangi í 83 ár og reynst farsæl við að skera úr deilumálum manna. Þess vegna virðist mér sem algerlega tilefnislaust hafi friðurinn verið rofinn um þetta atriði. Mér finnst það benda til þess, virðulegur forseti, að þingið og stjórnarmeirihlutinn sé á rangri leið. Lái mér hver sem vill.