132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:45]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur átt sér stað athyglisverð umræða um frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra til vatnalaga. Ég vil í upphafi máls míns taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt það að við séum kölluð til þessa aukafundar um þetta mikilvæga mál sem mér finnst brýnt og fagna því í raun að við fáum svo gott tækifæri til að ræða. En að við séum kölluð til þessa fundar án þess að hæstv. iðnaðarráðherra sé á staðnum og líka að það hafi verið vitað með góðum fyrirvara að hæstv. iðnaðarráðherra yrði ekki hér í húsi við umræðuna, það þykir mér miður vegna þess að ég hefði viljað eiga samtal við hæstv. iðnaðarráðherra um þessi mál þar sem frumvarpið er frá henni komið og einnig vegna þess að það eru fjölmörg álitaefni sem ég hefði viljað heyra svör hennar við og skýringar hennar á því stóra máli sem nú er til umræðu.

Hv. þingmenn hafa í góðum ræðum að undanförnu flutt mál sitt vel og mál okkar stjórnarandstöðunnar í þessu stóra grundvallarmáli snýst um eignarhald á vatni. Vatn er ekki einhver venjulegur hlutur heldur er vatn grundvöllur lífs. Mikilvægi vatns fyrir heimsbyggðina hefur komið skýrt fram í umræðum á alþjóðavettvangi. Einnig hefur komið fram á alþjóðavettvangi, og það tel ég allra mikilvægast á því sviði, að vatn hefur frá árinu 2002 verið skilgreint sem grundvallarmannréttindi. Það eitt og sér tel ég vera þess eðlis að þetta mál mun þurfa meiri og betri umfjöllun en hæstv. ríkisstjórn vill leyfa málinu að fá. Mér þykir miður að hv. þingmenn stjórnarliðsins séu ekki í salnum fyrir utan hv. þm. Birki J. Jónsson, sem ég fagna að sé hér og hefur reyndar setið undir umræðunni. Ég sakna hins vegar að aðrir þingmenn séu ekki í salnum til að hlýða á umræðuna vegna þess að ég tel afstöðu þeirra til málsins illa ígrundaða. Ég tel að áður en þessir hv. þingmenn stjórnarliðsins fara að greiða atkvæði um þetta mikilvæga mál sýni þeir okkur, sem höfum og munum tala í málinu, þá virðingu að hlýða á mál okkar. En þessir hv. þingmenn hafa þess í stað kappkostað að koma upp í umræðum um störf þingsins og líka um fundarstjórn forseta til halda því fram að við værum í málþófi og værum að níðast á þinginu, þ.e. við stjórnarandstaðan vegna þess að við ræddum þetta mál svo ítarlega sem raun ber vitni.

Þessu vil ég hafna alfarið vegna þess að ég hef setið hér og hlýtt á alla þessa umræðu sem hefur að öllu leyti verið efnisleg hjá þeim sem um málið hafa fjallað. Því vil ég hafna þessum aðdróttunum og mér þykir það leitt að menn skuli kalla ítarlega umræðu málþóf eða níðslu á meiri hluta þingsins, ég hafna því algerlega.

Virðulegi forseti. Ég vil líka í upphafi máls míns gagnrýna það hvernig þetta mál hefur verið unnið í þinginu. Málið hefur verið umdeilt frá upphafi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það er lagt fram, það hefur verið umdeilt frá upphafi og ekki bara innan þessara veggja heldur hafa fjölmargir hópar í samfélaginu gagnrýnt málið harðlega. Fjölmörg samtök og stofnanir hafa gagnrýnt málið harðlega og hafa einnig gagnrýnt vinnubrögðin og það hversu þröngur hópur kom að samningu frumvarpsins. Mér þykir þessi gagnrýni réttmæt vegna þess að þegar um svona lagasetningu er að ræða verður að kalla fleiri til en þá sem hafa hugsanlega beinna hagsmuna að gæta, þ.e. varðandi eignarhaldið sem er stærsta málið og stærsta ágreiningsefnið í frumvarpinu.

Mikið hefur verið rætt um vatnalögin frá 1923. Mér þykir rétt að hér komi fram að þegar þau lög voru í vinnslu var sett á laggirnar sér þingnefnd á Alþingi til að öll sjónarmið kæmust að í þeirri umræðu og sú umræða tók ein sex ár. Svo viðamikið var málið. Þegar ég blaða í umfjöllun frá þeim tíma má glögglega sjá að mjög mikið af þeirri umræðu á vel við í dag vegna þess að gildi vatnsins var auðvitað það sama á þeim tíma og fjölmargir áttuðu sig á gildi vatnsins og mikilvægi þess vegna þess að það er, eins og ég hef komið inn á, undirstaða alls lífs.

Virðulegi forseti. Vatn er undirstaða alls lífs og mun ég koma ítarlega inn á það á eftir. Fjölmargir hafa bent á það og þannig er fjallað um vatn t.d. innan Sameinuðu þjóðanna. Vil ég í upphafi til gamans benda á að vísindin gera sér grein fyrir því vegna þess að ekki er t.d. farið að leita að lífi á öðrum plánetum nema vitað sé að þar sé mögulega vatn að finna. Því þykir mér gaman að taka hér upp frétt sem ég fann á mbl.is þar sem fram kemur að vísindamenn hafi fundið vísbendingar um fljótandi vatn á tungli Satúrnusar og þar af leiðandi leiddar að því líkur að þetta kunni að þýða að líf leynist á tunglinu. Í fréttinni kemur fram að vísindamenn segja að þetta þýði að bæta eigi Enkeladusi, sem er þetta ágæta tungl við Satúrnus, á lista yfir þá fáu staði sem vitað er um í sólkerfinu utan jarðarinnar þar sem hugsanlega sé að finna líf. Ég vildi koma inn á þetta til að undirstrika þessa umræðu um mikilvægi vatnsins fyrir lífið.

Virðulegi forseti. Það sem ég hef verið að reyna að átta mig á í máli þeirra þingmanna stjórnarliðsins sem hér hafa talað í málinu, sem eru ekki margir en það eru hv. framsögumaður Birkir Jón Jónsson og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, er hvers vegna hæstv. iðnaðarráðherra sem leggur málið fram liggur svona óskaplega á að koma málinu í gegn að hún er tilbúin að beita sér þannig innan þingsins að settir eru á fundir eftir fundi til að hraða málinu. Ég hef ekki náð utan um hvað það er nákvæmlega sem veldur því að hæstv. ríkisstjórn þurfi að beita svo miklu afli við að koma málinu í gegn.

Það sem ég vil líka nefna í þessu sambandi, af því að ég var að tala um vinnubrögð þingsins áðan, að fjölmargir umsagnir bárust hv. iðnaðarnefnd eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson veit, enda kinkar hann hér kolli. Í öllum þeim umsögnum voru sett fram afar góð rök með eða móti ákveðnum ákvæðum í frumvarpinu. En það sem aðallega var gagnrýnt var að nú ætti að lögfesta eignarhald á vatni. Við höfum í nefndinni mætt á fund eftir fund til að ræða þessi mál og ekki síst þykir mér það miður að við höfum verið að kalla til gesti héðan og hvaðan úr samfélaginu, frá hinum ýmsu samtökum og stofnunum, kallað til gesti sem hafa unnið mjög ítarlegar, góðar og vel rökstuddar umsagnir um málið en síðan hafi ekki verið tekið tillit til þeirra í niðurstöðu nefndarinnar að neinu marki. Þessi vinna nefndarinnar sem hér hefur verið haldið fram af stjórnarliðum að hafi verið unnin og málin útrædd þar er að miklu leyti einungis sýndarmennska. Þetta veit ég vegna þess að ég var viðstödd þá vinnu sem nefndarmaður í iðnaðarnefnd. Þykir mér það miður gagnvart þeim aðilum sem við fengum til að vinna fyrir okkur ítarlegar umsagnir og koma með athugasemdir við frumvarpið að það hafi nánast verið gert til málamynda. Vegna þess að augljóst var frá upphafi að ekki átti að hlýða eða taka tillit til þeirra athugasemda við áframhald á vinnslu málsins. Það sjáum við á þeim örfáu breytingartillögum sem komu frá meiri hluta iðnaðarnefndar. Þetta þykir mér miður vegna þess að við getum ekki aftur og aftur í málinu verið að kalla fólk til og síðan er ekki tekið tillit til þeirra athugasemda. Þá fer slík vinna að missa marks að mínu viti. Það tel ég afar slæmt varðandi framtíðarvinnu innan nefnda ef svo verður.

Virðulegi forseti. Það sem mér þykir mikilvægt í málinu, svo ég haldi áfram að ræða vinnubrögðin, er að þegar svo stórt mál er á ferðinni verði litið heildstætt á allt umhverfið. Fram hefur komið, m.a. í góðri ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að í vinnslu er lögleiðing á vatnatilskipun Evrópusambandsins. Sömuleiðis kom fram í máli hans að líta þyrfti einnig til vatnsverndar og sömuleiðis til lagasetningar um jarðrænar auðlindir. Þetta, virðulegi forseti, tel ég afar mikilvægt og þessu hafa hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum ákveðið að líta fram hjá og líta ekki heildstætt á málin. Ég tel það ekki vera gott. Bent hefur verið á í umsögnum og einnig í heimsóknum innan nefndarinnar að affarasælast hefði verið að taka þessi mál til heildstæðrar skoðunar vegna þess að einnig hafa komið fram góð rök fyrir því í nokkrum umsögnum, sem ég mun fara yfir á eftir, að frumvarpið sé ekki þess eðlis eins og heiti þess þ.e. frumvarp til vatnalaga, gefur til kynna, það sé ekki þess eðlis að þetta séu heildarlög heldur taki þetta eingöngu til nýtingarþáttar en ekki til verndunar og almannaréttar eins og vel hefur verið rökstutt í umsögnum. Þess vegna tel ég sjálfsagt og eðlilegt að þessi mál hefðu verið tekin til umfjöllunar samtímis og litið hefði verið yfir öll málin heildstætt, því ef það verður ekki gert þarf hæstv. ríkisstjórn að láta breyta heiti frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef verið að kalla eftir því, ég gerði það í andsvari við hv. þm. Birki Jón Jónsson fyrr í vikunni, að menn skýri hvað liggur á, hvers vegna það liggur svo á að gera þessa breytingu, þ.e. að breyta lagatextanum þannig að lögfestur sé eignarréttur á vatni.

Eða eins og segir, virðulegur forseti, í frumvarpstextanum í 1. gr., með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni.“

Í 2. gr., með leyfi forseta, stendur:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Síðan segir, virðulegi forseti, í 4. gr. þessa frumvarps:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Þetta, virðulegur forseti, er að mínu mati grundvallarbreyting og ekki bara mínu mati heldur okkar í stjórnarandstöðunni, grundvallarbreyting á lögum um vatn, þ.e. vatnalögum. Þarna er það skýrt skilgreint og það segir líka, eins og ég tók fram áðan, að það er skýrt markmið þessara laga að skýra eignarhald á vatni. Það á að skýra eignarhaldið í þá átt að séreign landeigenda á vatni verði lögfest.

Í ljósi þess að hér er um að ræða svo viðamikla grundvallarbreytingu á því hvernig við nálgumst málið í lögum, þ.e. þessa skilgreiningu, tel ég að þetta mál hefði þurft að skoðast í miklu betra samhengi en gert hefur verið. Í því ljósi langar mig að grípa hér aðeins niður í nefndarálit minni hlutans um þessi mál sem snúa að því hvernig þetta mál er unnið.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þróun lagasetningar á þessu sviði er því augljós. Þau mörgu og víðtæku ákvæði um vatn og rétt almennings og einstaklinga til að nýta það, sem fram að þessu hafa flest verið í hinum mikla lagabálki frá 1923, verða í nokkrum lagabálkum. Alþingi er sá mikli vandi á höndum að sjá til þess að þessi þróun geti orðið án þess að vandræði skapist. Það verður best tryggt með því að heildarendurskoðun vatnalaga fari saman við setningu allra þeirra laga sem eiga að taka við hlutverki þeirra. Um þetta ættu ekki að þurfa að vera deilur.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„En ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér ekki að standa þannig að málum. Alþingi er nú ætlað að ljúka umfjöllun um vatnalagafrumvarpið eitt og sér og fella vatnalögin úr gildi með samþykkt þess. Sú umfjöllun er þar með slitin úr tengslum við aðra lagasetningu sem afnám vatnalaga frá 1923 kallar á. Það á við um áðurnefnt frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum sem ekki hefur komið fram á þessu þingi, eins og áður segir, og það á einnig við um boðað frumvarp á grunni vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Lokaniðurstaða þessara mála fæst svo ekki fyrr en pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign, hvort og hvernig þeim verði fundinn staður í stjórnarskránni og hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu þeirra.

Minni hlutinn telur þess vegna að Alþingi eigi að taka sér nauðsynlegan tíma til að skoða þessi mál í heild og að ekki eigi að fella hinn mikla bálk vatnalaga úr gildi fyrr en öruggt er að önnur lög geti tekið við hlutverki hans.“

Virðulegi forseti. Þarna kemur þetta skýrt fram í nefndaráliti minni hlutans og ég, virðulegi forseti, verð að segja að ég átta mig ekki alveg á á hvaða ferðalagi hæstv. ríkisstjórn er og meiri hlutinn hér á þingi með því að fara svona í málin. Eins og fram kom hér fyrr í dag, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á, er nú komin upp nokkuð ný staða í málinu vegna þess að nú loksins hafa Ísland, Noregur og Liechtenstein náð samkomulagi um innleiðingu vatnatilskipunarinnar, þ.e. hvernig það mál skuli framkvæmt. Það þykir mér, virðulegi forseti, einnig vera þess eðlis að við gætum beðið með að ljúka þessu máli þar til það frumvarp sem vatnatilskipun Evrópusambandsins mun geta af sér hér á landi liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Hvað varðar hraðann í þessu máli langar mig til að grípa aðeins niður í nefndarálit minni hlutans aftur.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar ljóst að margs konar breytingar á lagaumhverfi og stjórnsýslu kalla á endurskoðun þeirra í náinni framtíð. Þó kom mjög skýrt fram á fundum nefndarinnar með umsagnaraðilum og sérfræðingum að ekki væru uppi sérstök vandamál sem gerðu það að verkum að hraða þyrfti endurskoðun laganna. Þvert á móti töldu margir sem á fund nefndarinnar komu að best væri að fara sér hægt í málinu en vanda þeim mun betur til verka.“

Á þetta hlýddi meiri hluti nefndarinnar ekki og því erum við í þeirri stöðu sem við erum í í dag, að standa hér í deilum um þetta mál.

Virðulegi forseti. Það er að mínu mati alveg skýrt að hér er verið að gera grundvallarbreytingu á skilgreiningunni á eignarhaldi á vatni. Fram að þessu hefur það verið alveg skýrt að um hefur verið að ræða nýtingarrétt á vatni á jörðum sem vatn rennur um. En með þessu frumvarpi á að lögfesta eignarhald á vatninu sjálfu, sem er að mínu viti galin hugmynd ef menn hugleiða það hvernig, ef þeir horfa inn í framtíðina, þetta á að fara fram. Eðli vatns er slíkt að það er ekki hægt og sömuleiðis mikilvægi þess fyrir jarðarkringluna og íbúa hennar. (BJJ: Hvað segja lögfræðingar?)

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson grípur hér fram í og spyr mig hvað lögfræðingar segi um þetta mál. Ég vil á móti spyrja hv. þingmann hvers vegna ekki er hlustað á þá sem segja að við eigum að taka okkur lengri tíma í að skoða þessa hluti, að við eigum að skoða hugsanleg áhrif til framtíðar. Vatn er uppspretta lífs og hefur verið skilgreint sem grundvallarmannréttindi af Sameinuðu þjóðunum, sem við erum aðilar að. Það er gert vegna þess að heimsbyggðin hefur ekki öll aðgang að vatni. Víða í heiminum er að verða skortur á vatni og við getum ekki lokað augunum fyrir því að við erum hluti af þessari heild. Vatninu rignir ekki bara niður hér á landi heldur víða annars staðar og við erum rík af vatni hér og því er þeim mun mikilvægara að fara að öllu með gát í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Ég hef reifað það hér að við teljum að þetta mál eigi að koma til umræðu innan stjórnarskrárnefndar, eigi að vera hluti af grundvallarmannréttindum og fjalla eigi um það í stjórnarskrá. Í framhaldi af því vil ég benda á prýðilega ritstjórnargrein sem birt var í Morgunblaðinu þann 1. nóvember sl. Ástæða þess að þessi ritstjórnargrein er birt er sú að fjölmargir aðilar, Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri, bundust samtökum undir yfirskriftinni Vatn fyrir alla og héldu merkilega ráðstefnu þar að lútandi. Af þessari góðu ritstjórnargrein Morgunblaðsins, sem margir vilja meina að sé málgagn hægri manna hér í landi eða sjálfstæðismanna, er alveg ljóst að þar á bæ líta menn öðrum augum á málin en gert er hér. Mig langar að lesa þessa ritstjórnargrein fyrir hv. þm. Birki Jón Jónsson vegna þess að ég tel að hún eigi mikið erindi inn í þessa umræðu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Það kann að virðast lítil þörf fyrir því að ræða sérstaklega um aðgang að vatni á Íslandi. Staðreyndin er hins vegar sú að um þriðjungur mannkyns býr um þessar mundir við vatnsskort og nýtur því samkvæmt skilgreiningu ekki grundvallarmannréttinda. Um helgina var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Vatn fyrir alla.“ — Ég vil, virðulegi forseti, taka fram að þessi ritstjórnargrein er skrifuð 1. nóvember og ráðstefnan var 29. október sl. — „Samhliða ráðstefnunni gáfu samtökin BSRB, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Kennarasamband Íslands og SÍB út sameiginlega yfirlýsingu til að vekja athygli á mikilvægi vatns og sérstöðu. „Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum,“ segir í yfirlýsingunni. „Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þvílíkan búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar.“ Leggja samtökin til að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings, sem taki til réttinda, verndunar og nýtingar vatns.“

Áfram segir í þessari ritstjórnargrein:

„Sagði Nigel Dower, kennari í þróunarsiðfræði við Háskólann á Akureyri, á ráðstefnunni að aðgangurinn að vatni væri lykilatriði í réttinum til lífs. Rétturinn til vatns tæki til þess, sem þyrfti til að tryggja heilbrigt líf og mannlega reisn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlaði árið 2002 að 1,7 milljarða manna skorti aðgang að hreinu vatni og um 2,3 milljarðar manna þjáðust af sjúkdómum, sem rekja mætti annars vegar til óhreins vatns og hins vegar hárrar verðlagningar á vatni. Seinna vandamálið hefur farið vaxandi, ekki síst vegna einkavæðingar á vatnsveitum í löndum á borð við Indland. Páll H. Hannesson, alþjóðafulltrúi BSRB, sagði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni um helgina að rannsóknir sýndu að reynslan af einkavæðingu vatns í þróunarlöndunum hefði yfirleitt verið slæm. Skort hefði á samkeppni og fyrirtæki hefðu ekki fjárfest eins mikið og búist hefði verið við í nývirkjum og viðhaldi auk þess sem verð á vatni hefði hækkað.

Tvö ríki, Úrúgvæ og Holland, eru nú í þann mund að banna einkavæðingu vatns með lögum. Í báðum tilfellum er ekki aðeins kveðið á um að ekki megi einkavæða vatnsveitur, heldur einnig að ekki megi fela einkaaðilum rekstur vatnsbóla.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 2005 til 2015 áratug alþjóðlegra aðgerða til að tryggja vatn til lífsviðurværis. Í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 2004 er það markmið sett að fækka þeim um helming sem ekki hafa aðgang að eða efni á öruggu drykkjarvatni.

Tilgangur einkavæðingar er fyrst og fremst að tryggja neytendum betri þjónustu og kjör með tilstuðlan samkeppni, ekki að færa einokun frá einni hendi yfir á aðra. En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign.“

Virðulegi forseti. Í lok þessarar ritstjórnargreinar segir, og þetta þykir mér afar áhugavert:

„Nú stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla, tekin til alvarlegrar skoðunar.“

Þar segir, og get ég tekið undir þá síðustu setningu í þessari ritstjórnargrein:

„Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu auðlind af virðingu og alúð.“

Þetta eru lokaorðin í ritstjórnargrein Morgunblaðsins frá þriðjudeginum 1. nóvember. Þessi ritstjórnargrein segir töluvert mikið um málið. Þarna er dregin fram staðan í heiminum og mikilvægi vatnsins og sú skoðun ritstjórnar Morgunblaðsins að við endurskoðun stjórnarskrárinnar beri að taka tillit til þessarar áskorunar um að vatn og vernd þess verði tekin inn í stjórnarskrána. Þetta þykir mér afar mikilvægt og mér þykir þetta mjög merkileg grein fyrir margra hluta sakir, sérstaklega í ljósi þess að oft og tíðum hafa ritstjórnargreinar Morgunblaðsins verið vilhallar ríkisstjórninni og sérstaklega sjálfstæðismönnum og í ljósi sögu blaðsins og tengsla þess við Sjálfstæðisflokkinn þykir mér þetta merkileg grein. Hún ýtir líka undir undrun mína á því hvers vegna mönnum liggur svona á, hvers vegna má ekki ræða hlutina í samhengi, þ.e. hvers vegna má ekki taka fyrir lög um jarðrænar auðlindir, stjórnarskrána og lög um vatnavernd og vatnatilskipun Evrópusambandsins. Það er klárlega samhengi þarna á milli auk þess, eins og dregið er fram í þessari ritstjórnargrein, sem það er alveg klárt að vatn hefur verið skilgreint sem grundvallarmannréttindi og aðgengi að því. Það hefur verið gert vegna þess að vatn er takmörkuð auðlind. Því þykir mér þetta undarlegur leiðangur sem hæstv. ríkisstjórn er í hér að ætla að fara að einkavæða vatnið með þessum hætti.

Í þessari umræðu hafa okkur í stjórnarandstöðunni verið lögð orð í munn, sagt að við viljum fara út í einhverja þjóðnýtingu og annað slíkt. Ég vísa því á bug. Í nefndaráliti sem hér liggur fyrir og allir geta lesið kemur afstaða okkar skýrt fram. En til að taka af allan vafa um hvar við stöndum í þessu máli vil ég einnig lesa hér ágæta samþykkt frá þingflokki Samfylkingarinnar undir yfirskriftinni Vatn er sameiginleg auðlind.

Virðulegi forseti, þar segir:

„Skilgreining, eignarhald, nýting og varðveisla náttúruauðlinda eru meðal mikilvægustu viðfangsefna stjórnmálanna í dag. Vatn er ein mikilvægasta auðlind jarðar og því er það skoðun þingflokks Samfylkingarinnar að vatn eigi að skilgreina sem sameiginlega auðlind mannkyns.“

Sem sameiginlega auðlind mannkyns.

Áfram segir:

„Þingflokkurinn telur að rétt sé að endurskoða lög sem varða vatn, vernd þess og nýtingu með það að markmiði að staðfesta þjóðarforsjá vatnsauðlindarinnar, sem felur í sér ábyrgð samfélagsins á vatnsgæðum og sjálfbærri nýtingu vatns. Samfylkingin telur það heppilega meginreglu að landeigendur hafi nýtingarrétt til vatns, eins og gert er ráð fyrir í gildandi vatnalögum frá 1923 en lýsir sig andvíga því að einkaeignarréttur á vatni verði festur í lög eins og gert er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til nýrra vatnalaga. Ógerlegt er að spá fyrir um réttaráhrif breytingarinnar, en líklegt er að með samþykkt frumvarpsins yrði ríkið skaðabótaskylt gagnvart vatnseigendum ef Alþingi vildi síðar auka aftur almannarétt. Annars konar nýting vatns en nú er stunduð yrði eigendum í sjálfsvald sett án lagabreytinga, og grunnvatn í landinu yrði endanlega gert að einkaeign.“

Virðulegi forseti. Áfram segir:

„Frumvarpið er í mótsögn við Evrópulöggjöf um vatn. Í rammatilskipun sambandsins um vatn segir m.a.: „Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka.“ Þingflokkurinn bendir á að andi laganna frá 1923 var sá að bændum væri best treystandi til að varðveita landið og nytja með skynsamlegum hætti. Því var ákveðið að binda nýtingarréttinn við landeign í stað þess að vatnsföllin sjálf gengju kaupum og sölum. Þessi skipan hefur reynst allvel í rúma átta áratugi. Mikið kapphlaup er hafið um eignar- og nýtingarrétt á auðlindum og landeignir í sveitum færast í síauknum mæli úr höndum bændastéttar, sem nytjaði landið sér og sínum til lífsviðurværis, til einstakra fjárfesta. Við endurskoðun vatnalaga er eðlilegt að taka mið af þessum breytingum og skilyrða betur nýtingarréttinn. Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin hafa hins vegar valið þá leið að afhenda landeigendum — gömlum og nýjum — óskorað eignarhald á sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar. Vatnalagafrumvarp iðnaðarráðherra er nú komið úr nefnd til 2. umr. á Alþingi. Þingflokkurinn telur að ekki eigi að ljúka afgreiðslu þessa máls á þinginu nú, og hafa þingmenn flokksins í iðnaðarnefnd lagt til að því verði vísað frá. Auk þess sem að ofan greinir leggja þingmennirnir áherslu á að ekki sé ráðist í heildarendurskoðun vatnalaganna þar til fyrir liggja öll frumvörp að lögum sem eiga að taka við hlutverki þeirra. Hér er einkum átt við lög sem leyst geta af hólmi lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en nýtt frumvarp á því sviði bíður álits nefndar sem iðnaðarráðherra hefur ekki enn skipað. Sú nefnd á að fjalla um framtíð þjóðarauðlinda og meðferð þeirra ásamt því hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir rannsóknar- og nýtingarleyfum til orku- og auðlindanýtingar. Einnig er nauðsynlegt að frumvarp um vatnsvernd liggi fyrir af hálfu umhverfisráðherra en því er ætlað að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um nýtingu og meðferð vatns og mun efni þess augljóslega koma í stað mikilvægra ákvæða vatnalaga frá 1923.“

Einnig kemur fram, virðulegi forseti, að flokkurinn lýsir sig reiðubúinn til að taka þátt í að skapa pólitíska sátt um samræmda stefnu og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem byggi þá á heildstæðum lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu þeirra. Liður í því er, eins og segir hér:

„Liður í því er að vinna tillögu um hvernig ákvæðum um sameign auðlinda og þjóðarforsjá með auðlindum utan einkaeignarréttar verði best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands.“

Virðulegi forseti. Það er augljóst hvar okkar áherslur liggja í þessum efnum. Við viljum vandaðri vinnubrögð og við viljum að málin séu skoðuð heildstætt. Einnig, eins og fram hefur komið, viljum við að fjallað verði um þetta í stjórnarskrárnefndinni sem nú er að störfum. Eins og fram kom í ritstjórnargrein Morgunblaðsins og einnig frá þeim samtökum sem stóðu að ráðstefnunni Vatn fyrir alla taka þeir aðilar undir þann málflutning að það verði skoðað í þeirri vinnu.

Virðulegi forseti. Í tengslum við þessa umræðu um vatnatilskipun Evrópusambandsins fannst mér með hreinum ólíkindum að þann skamma tíma sem hæstv. iðnaðarráðherra gaf sér til að vera við umræðuna hér í dag skyldi hún ekki svara þeim spurningum sem fram komu um vatnatilskipun Evrópusambandsins og þá samninga sem nú hafa náðst milli Íslands, Noregs og Liechtensteins. Ég átta mig ekki á hvers vegna, þessi umræða hlýtur öll að fara saman. Ég vil skora á hv. þm. Birki Jón Jónsson — ég vona að hann sé að hlusta þó að hann sé ekki hér í salnum — að koma hér upp í eitt skipti fyrir öll og segja okkur hvað það er sem knýr á um svo hraða meðferð í þessu stóra máli og hvers vegna ekki er hlustað á þá fjölmörgu aðila sem hafa beðið um það og talið það skynsamlegast að þessi mál yrðu rædd saman og í samhengi. Mér finnst kominn tími á það í þessari umræðu að það komi hér fram í eitt skipti fyrir öll hvað það er sem knýr á.

Hv. þm. Helgi Hjörvar fór ágætlega yfir það í ræðu sinni hér áðan að svo vitað sé knýr ekkert á. Engar deilur eru uppi, ekkert dómsmál í gangi eða nokkuð annað sem krefst þess að málið fari hér í gegn svo illa unnið og illa ígrundað sem raun ber vitni. Það er helst að manni detti í hug að það séu bara orðin einhvers konar trúarbrögð að færa allar auðlindir í einkaeign. Það kemur mér svo sem ekki á óvart með Sjálfstæðisflokkinn, hann er að mestu leyti samkvæmur sjálfum sér í þessu frumvarpi. Í því birtist nefnilega tiltölulega öfgafull hægri stefna og frjálshyggjustefna, þ.e. að það eigi að reyna að selja allt á markaði sem mögulegt er og reyna að ná utan um alla skapaða hluti og gera úr þeim vöru.

Ég get verið sammála þeim í mörgum tilfellum en ekki í þessu. Ekki þegar verið er að tala um vatn sem er grundvöllur lífs, að það eigi að gefa grunnvatnið okkar. Það kemur mér hins vegar á óvart að Framsóknarflokkurinn skuli leiða þessa gjörð hér í þinginu og það eina sem kemur upp í huga manns er að framsóknarmenn hafi tekið trú sjálfstæðismanna. Ég hefði viljað, og mér fyndist það sanngjarnt gagnvart okkur sem höfum verið að fjalla um þessi mál nú síðustu daga, að hv. þingmenn stjórnarliðanna kæmu hér upp í eitt skipti fyrir öll og segðu okkur hvers vegna það þurfi að hafa þennan hraða, sérstaklega í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið að þessi lög taki til mun þrengra sviðs en gömlu vatnalögin, eða lögin sem nú eru í gildi, og fleiri lagasetningar en þessa þurfi til að leysa þau af hólmi. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Pétur Blöndal kvartar hér yfir því að fá ekki að komast að. Ef hann er á mælendaskrá, sem ég bara veit ekki vegna þess að ég hef hana ekki fyrir framan mig, þá hlakka ég til að hlýða á mál hans þar sem hann boðar það hér að vilja komast að með eitthvað. (Gripið fram í.) Ég mun reyna að gera mitt besta til þess að hann komist hér að og geti hugsanlega varpað einhverju ljósi á þau atriði sem ég hef kallað eftir og við höfum verið að kalla eftir hér síðustu daga.

Virðulegi forseti. Ég vildi gera þátt Sameinuðu þjóðanna að umræðuefni og ástæður þess að vatn hefur verið skilgreint sem grundvallarmannréttindi. Það er alveg klárt og við ættum að vita það flest að vatn er frumforsenda þess að menn haldi lífi. Þess vegna hefur verið ákveðið að aðgangur að vatni skuli tilheyra almennum mannréttindum. Sameinuðu þjóðirnar skýrðu það skilmerkilega árið 2002.

Mig langar að fara aðeins yfir þá samþykkt. Ég fann ágæta lýsingu á henni á vef BSRB. Þar segir m.a. að Sameinuðu þjóðirnar skilgreini vatn sem grundvallarmannréttindi. Ég sé að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er genginn í salinn (BJJ: Til að hlusta á mál þitt.) að hlusta á mál mitt. Það gleður mig mjög. Hann mun væntanlega koma upp, eftir að ég hef lokið máli mínu, og segja okkur í eitt skipti fyrir öll hvers vegna liggur á í þessu máli. Hvers vegna ekki megi skoða þetta í samhengi við aðra löggjöf. Ég fagna því að þurfa ekki að fara yfir það aftur af því hann hefur augljóslega hlustað skýrt og skilmerkilega.

Virðulegi forseti. Nefnd um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem hefur hist reglulega síðan 1987 í þeim tilgangi að gefa út nánari túlkun á alþjóðlega sáttmálanum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samþykkti 26. nóvember árið 2002 skilgreiningu á réttinum til vatns. Það gerði hún með því að skoða og skilgreina 11 gr. sáttmálans, sem er greinin um rétt til matar og sömuleiðis 12 gr., sem er um rétt til heilbrigðis í áðurnefndum sáttmála, um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Þessa grein er hægt að lesa á vef BSRB. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðgangur að vatni telst til grundvallarmannréttinda samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Sérhver maður skal þess vegna eiga rétt á og vera tryggður nægilegur og öruggur aðgangur að hreinu drykkjarvatni á hóflegu verði, auk vatns til hreinlætis og heimilishalds. Þegar rætt er um „nægjanlegan aðgang að drykkjarvatni“ er gengið út frá hugmyndinni um mannlega reisn, en ekki notuð þröng tæknileg skilgreining með tilvísun í lítrafjölda eða tækni. Ekki á heldur að líta á vatn sem hverja aðra verslunarvöru. Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig ítrekað brýna skyldu ríkja að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar án tafar. Ríkjum ber að tryggja að dreifing vatnsauðlindarinnar og fjárfestingar í vatni tryggi öllum þegnum þjóðfélagsins aðgang að drykkjarvatni.“

Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt hvert Sameinuðu þjóðirnar vilja fara með þessu. Þetta er ekki gert eitthvað út í bláinn, að skilgreina vatnið þannig. Það er gert vegna þess að fjölmargir, um 1,2 milljarðar manna, hafa ekki aðgang að nægu drykkjarvatni. Því er spáð að á næstu árum muni þessi tala fara upp í 1,5 milljarða. Það er skýrt. Við erum aðilar að sáttmála Sameinuðu þjóðanna og hljótum að taka tillit til þessa. Ég get ekki orðað það betur en gert var í áðurnefndri ritstjórnargrein á Morgunblaðinu, að þótt á Íslandi sé gnægð vatns verði Íslendingar að sýna að þeir kunna að umgangast þessa mikilvægu auðlind með virðingu og af alúð. (BJJ: Við gerum það.) Í ljósi þess tel ég að þetta mál hefði átt að fá miklu vandaðri umfjöllun Ég tel að menn ættu að líta á það í samhengi, horfa út fyrir landsteinana og til þeirra þjóða þar sem vatnsskortur ríkir. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, virðulegi forseti. Við erum hluti af hinu alþjóðlega samfélagi og mér finnst það fullkomin þversögn að gera lífsréttinn, þar sem vatnið er undirstaðan, að verslunarvöru eins og þetta frumvarp getur haft í för með sér.

Virðulegi forseti. Mig langar líka — og legg til að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem ég hef gaman af að tala til í dag þar sem hann er eini stjórnarliðinn í salnum, geri hið sama — að lesa góðan bækling sem WHO, eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út um réttindi vatns. Þar er margt mjög fróðlegt að finna. Okkur hættir svolítið til að hugsa aðeins út frá eigin nafla, Íslendingum. Það gengur ekki til framtíðar litið. Í þessum bæklingi er fjölmargt áhugavert dregið fram og mikið af mikilvægum staðreyndum sem ég tel að eigi erindi í umræðuna. Þessi bæklingur er á ensku en ég ætla að reyna að snara honum eftir því sem ég get svo að hv. þingmenn fái a.m.k. að heyra ákveðna punkta sem skipta mjög miklu máli.

En þar segir að vatn sé grundvöllur lífs og mannlegrar reisnar. Þetta segir í inngangi þessa bæklings, sem ritaður er af Gro Harlem Brundtland, sem fer fyrir þessari stofnun. Sömuleiðis ritar innganginn Sergio Vieira de Mello, sem fer með mannréttindamál innan Sameinuðu þjóðanna. Þarna er jafnframt vitnað í Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem segir í bæklingnum að aðgangur að öruggu vatni sé grundvallarþörf manna og þess vegna grundvallarréttur manna.

Í bæklingnum kemur fram að skortur á hreinu vatni víða á jörðinni valdi veikindum og sjúkleika sem leiði um tvær milljónir manna til dauða á hverju ári. Einnig er farið vel yfir ástæður þess að nefndin sem fjallar um félags-, menningar- og efnahagsmál í sáttmála Sameinuðu þjóðanna komst að þessari niðurstöðu árið 2002, að skilgreina vatn sem grundvallarmannréttindi. Þarna kemur líka skýrt fram að ferskt vatn eigi að vera réttur manna vegna mikilvægis þess við að viðhalda lífi þeirra. Aðgengi að því er því fyrst og fremst réttur manna fremur en að það sé réttur manna að selja það.

Mér þykir líka merkilegt að við skulum ræða um að lögfesta eignarrétt á vatni í lögum þegar við höfum dæmi um það frá ýmsum stöðum, sem ég kem betur inn á á eftir, hvernig verð hefur hækkað víða þar sem það hefur verið gert. Það bitnar helst á hinum fátæku í heiminum. Í þessum bæklingi kemur fram að samkvæmt nýlegum áætlunum borga hinir fátækari að meðaltali 12 sinnum meira á lítra af vatni en þeir sem hafa meira á milli handanna, hinir ríkari.

Þetta er auðvitað, virðulegi forseti, alvarlegt mál, sérstaklega þar sem um er að ræða takmarkaða auðlind sem ekki er hægt að ganga í eins og hér á Íslandi. Í hana hefur verið hægt að ganga hvar sem er í okkar nánasta nágrenni en sú er ekki staðan í öðrum ríkjum.

Virðulegi forseti. Í þessum bæklingi er líka farið vandlega yfir skyldur ríkisstjórna til að veita almenningi aðgengi að góðu og hreinu vatni. Ég hvet hv. þm. Birki Jón Jónsson til að skoða þennan bækling vandlega til að fá tilfinningu fyrir því. Ég held því ekki fram að menn ætli sér að brjóta mannréttindi eða eitthvað slíkt. En ég tel skorta á að menn hafi tilfinningu fyrir mikilvægi vatnsins og átti sig á mikilvægi þess og að það er undirstaða lífs. Það er mikilvægt að menn horfi út fyrir naflann á sjálfum sér og átti sig á að við erum hluti af vistkerfi heimsins og að vatnið skiptir þar miklu máli.

Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið langar mig að greina frá þessari merkilegri yfirlýsingu sem ég hef nokkrum sinnum nefnt í ræðu minni á undan, þ.e. frá fjölda samtaka í landinu. Ég tel að sú yfirlýsing, sem ritstjórnargrein Morgunblaðsins vísar til, ætti að koma til skoðunar í stjórnarskrárnefnd. Áskorun þessa og yfirlýsingu ætti að taka upp í stjórnarskrárnefnd og taka til alvarlegrar athugunar.

Mig langar, virðulegi forseti, áður en lengra er haldið að lesa hana svo að hv. þingmenn og aðrir sem á hlýða hafi hana bak við eyrað í umfjöllun um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.“

Undir þessa yfirlýsingu rita fjölmörg samtök sem koma mjög víða að og eru frá mismunandi sviðum samfélagsins. Þau samtök auk fleiri aðila eru: Kennarasamband Íslands, BSRB, Landvernd, MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, SÍB, þjóðkirkjan, Ungmennafélag Íslands, UNIFEM á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamband eldri borgara og ASÍ.

Virðulegi forseti. Allir þessir aðilar hafa farið í gegnum það mjög skýrt og greinilega og hafa tilfinningu fyrir því að verndun vatns sé eitt mikilvægasta verkefnið okkar á næstu árum og áratugum og til framtíðar litið og vilja gæta að því að aðgengi að því sé tryggt.

Ég gagnrýndi það talsvert í máli mínu áðan að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda sem bárust hv. iðnaðarnefnd um frumvarpið sem við ræðum, frumvarp til vatnalaga, sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram. Fjölmargar athugasemdir hafa borist og það sem meira er og mest um vert er að víða er mjög samdóma álit að finna. Mér finnst það ekki síður vera ástæða til þess að tekið sé tillit til athugasemdanna þegar um svo veigamikið atriði og veigamikið mál er að ræða. Augljóst er að hv. stjórnarþingmenn eru búnir að samræma málflutning sinn á þann veg að hér sé einungis um formbreytingu að ræða, það kemur reyndar líka fram í greinargerð frumvarpsins en á þessu er hamrað hér. Þeir hafa sagt, þó ekki með berum orðum en gefið það í skyn, að þeir aðilar sem haldi því fram að svo sé ekki hafi ekki skilning á fræðum laganna eða lögfræðinni.

Þetta er ótrúlegur málflutningur vegna þess að með því er gert afar lítið úr þeim virtu og fjölmörgu aðilum sem hafa lýst yfir áhyggjum af eignarhaldi á vatni hér á landi til framtíðar, verði frumvarpið að lögum. Fleiri hlutir koma nefnilega til en eingöngu tæknileg atriði lögfræðinnar, því við erum ekki að tala um hvern annan hlut. Við erum að tala um vatn, sem er undirstaða lífs, og við erum að tala um vatn sem er aldrei á sínum stað, er á sífelldri hringrás um heiminn í gegnum kerfi okkar og er að finna í náttúrunni. Þess vegna hefur mér fundist málflutningurinn ofsalega grunnur og vera hluti af því að menn ætla, án þess að þurfa að svara mörgum spurningum, að koma frumvarpinu í gegn sama hvað. Málflutningurinn segir manni það, því menn vilja ekki skýra hvers vegna það liggi á málinu og hvert vandamálið sé sem þurfi að leysa með frumvarpinu. Þeir hafa heldur ekki viljað fara í umræðu við okkur um hvaða mögulegu áhrif þetta geti haft til langs tíma og hvaða mögulegu áhrif þetta geti haft á þá samninga sem við erum aðilar að og þær yfirlýsingar og sáttmála sem við höfum undirritað.

Ég hef kallað eftir því í umræðunni og gerði það í andsvari við hv. þm. Birki J. Jónsson, að hann komi og gefi okkur fyrirmyndir af því hvaða ríki sem við erum í samstarfi við á alþjóðavettvangi hafi farið þá leið að lögfesta skýran eignarrétt á vatni. Við þekkjum dæmi frá Bólivíu þar sem þetta var gert sem fór illa, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór vel yfir í umræðum fyrr í vikunni. Af því að verið er að binda eign á vatni við landareignir er verið að gefa vatnið, mikilvægustu auðlind jarðar, til landeigenda. Ég tel að þessu þurfi menn að svara og segja okkur hvað liggi þar að baki annað en blind trú á einkaeignarrétt á öllum sköpuðum hlutum.

Virðulegi forseti. Þar sem umsagnirnar náðu ekki athygli þeirra sem eru í meiri hluta nefndarinnar meira en svo að ekki er tekið tillit til þeirra í breytingartillögum eða við meðhöndlun málsins langar mig að fara aðeins yfir nokkrar þeirra svo að þeir sem á hlýða glöggvi sig á um hvað sé aðallega verið að fjalla í þeim. Þar sem við höfum vísað talsvert til umsagnanna finnst mér rétt að menn þekki innihald þeirra.

Landssamband eldri borgara sendi inn ágæta umsögn um frumvarp til vatnalaga. Þar er komið inn á nokkra þætti, m.a. segir þar að vatn sé í ríkum mæli sú auðlind sem sé undirstaða lífsviðurværis og lífsgæða íslensku þjóðarinnar. Að um 70% hreinnar orkuframleiðslu landsmanna byggist á vatnsafli, hvort sem er í fersku vatni í ám, vötnum eða jarðvarma. Einnig segir þar að aðgengi að þessum auðlindum hafi til þessa í aðalatriðum verið í höndum landsmanna og vatnsdreifing til neytenda geti aldrei farið fram í samkeppni milli tveggja eða fleiri aðila þar sem vatnsveitur búa við eitt dreifikerfi. Vatnsdreifing sé því í eðli sínu einokun.

Í niðurlagi umsagnarinnar kemur fram að Landssamband eldri borgara geti tekið undir það sjónarmið, að vegna mikilvægis vatns fyrir íslenskt samfélag og lífríki landsins sé nauðsynlegt að festa í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Því skuli lög og reglugerðir um nýtingu vatns taka mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Ég tel umsögn Landssambands eldri borgara mikilvægt innlegg í umræðuna. Þar er að finna fólk með mun meiri reynslu af umgengni við náttúru landsins en mörg okkar höfum hér.

Hér er einnig mjög góð umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar er komið inn á fjölmarga þætti, m.a. inn á vatnatilskipunina sem ég hef fjallað um í máli mínu, og vil ég grípa niður á nokkrum stöðum, með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun vill nota tækifærið og árétta að vatn er lífsnauðsynlegt efni fyrir manninn og lífríki jarðarinnar. Það er á sífelldri hringrás um heiminn og því í grundvallaratriðum ólíkt öðrum jarðrænum auðlindum. Stofnunin er eindregið þeirrar skoðunar að forgangsröðun varðandi lagasetningu um vatn og umsýslu með því, sé hollustuhættir, umhverfi og orkunýting, og því beri að bíða með sértæka lagasetningu um eignarhald og nýtingu vatns þar til vatnatilskipun ESB frá 2000 (2000/60/EC) hefur verið lögleidd hér á landi, en þar eru hollustuhættir og umhverfisvernd í fyrirrúmi. Enn fremur telur stofnunin rétt, í ljósi samfélagsumræðu um eignarhald á vatni annars vegar og almannarétt og náttúruvernd hins vegar, sem verið hefur frá því frumvarpið kom fyrst fram á Alþingi, að íhuga alvarlega að halda ákvæði um eignarhald/nýtingarrétt (2. gr.) óbreyttu frá því sem er í gildandi lögum, þ.e. efnislega: „Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“ Þetta orðalag hefur reynst farsælt í tímans rás og ekki ástæða til að breyta því ,,formsins“ vegna.“

Virðulegi forseti. Þetta eru orð sem ég gæti gert að mínum, að menn séu að keyra í gegnum þingið svo umdeilt mál sem getur skipt miklum sköpum fyrir framtíðina og halda því fram að þetta sé formsatriði, að eingöngu sé verið að gera formbreytingar. Ég get tekið undir það sem þarna kemur fram og höfum við sagt það í umræðunni, m.a. hv. þm. Jóhann Ársælsson, að við sjáum ekki ástæðuna fyrir því af hverju gera þarf þá formbreytingu sem kveðið er á um í greinargerðinni og haldið hefur verið fram í umræðunni, hvers vegna menn eru í hálfgerðri krossferð fyrir því að lögfesta einkaeignarréttinn á vatni ef eingöngu er um formbreytingu að ræða sem ætti ekki að skipta sköpum fyrir þá stöðu sem við búum við.

Náttúrufræðistofnun Íslands hafði sent inn þann 2. mars 2005 umsögn um frumvarp til vatnalaga þegar þetta sama mál var hér til umræðu áður. Í þeirri umsögn segir að í 2. gr. frumvarpsins sé gildissvið fyrirhugaðra laga skilgreint sem „allt rennandi eða kyrrstætt vatn í hvaða formi sem er á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Þá segir áfram að í 3. gr., 9. tölulið frumvarps til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum sé þessi víðtæka skilgreining á vatni felld undir hugtakið „jarðræn auðlind“ og þess vegna þurfi að skoða þessi tvö frumvörp í samhengi.

Þarna er bent á, virðulegi forseti, eins og ég kom inn á áðan, eina ástæðu þess hvernig skilgreiningar eru mismunandi milli frumvarpa og mála sem ítreka þá mikilvægi þess að þessi mál séu öll skoðuð í samhengi.

Einnig kemur fram í sömu umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, með leyfi forseta:

„Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrlega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi, og þar með verslunarvara, þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum.“

Þetta er í anda þess sem ég las hér upp áðan og snarþýddi úr bæklingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna um að vatn eigi fyrst og fremst að vera aðgengilegt mönnum til að geta haldið lífi, en ekki verslunarvara. Þetta er í þeim anda.

Virðulegi forseti. Í þessari góðu umsögn kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni. Þessi hugsun er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2000 sem segir efnislega að vatn sé ekki söluvara, heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.“

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur er þarna vísað í 1. tölulið í formála vatnatilskipunar Evrópusambandsins þar sem segir að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Þetta finnst mér afar mikilvægur þáttur vegna þess að það er skoðun mín að verði þetta frumvarp til vatnalaga lögfest og þar með einkaeignarrétturinn þá séum við að nálgast málið hinum megin frá, þ.e. að vatn sé fyrst og fremst söluvara. Það er sú nálgun sem við erum að mótmæla í þessari umræðu en slíkri nálgun viljum við ekki beita í lagasetningu um vatn. Vegna þess að það gengur gegn alþjóðasamþykktum og það gengur gegn allri almennri skynsemi, að mínu mati.

En virðulegi forseti. Það eru fleiri atriði í þessari góðu umsögn sem ég vil fara hér yfir. Þar segir aftur, með leyfi forseta:

„Eignarrétti yfir vatni og öðrum jarðrænum auðlindum er gert hátt undir höfði í nefndum lagafrumvörpum. Nær væri, að mati Náttúrufræðistofnunar, að styrkja almannarétt gagnvart auðlindum landsins og þá sérstaklega gagnvart vatni í öllum þess formum, samanber t.d. ákvæði í vatnatilskipun ESB og ákvæði 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar.“

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem lagt var fram í fyrra er lagt hér fram aftur nánast óbreytt. Náttúrufræðistofnun sagði í umsögn sinni að hún legði til að frumvarp þetta verði dregið til baka og að beðið verði með sértæka löggjöf um eignarhald og nýtingu vatns þar til fyrir liggi heildstæð rammalöggjöf um verndun og vöktun vatns í anda vatnatilskipunarinnar. Á þessa umsögn hefur ekki verið hlustað og þetta er ekki sú eina.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri en við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni sem viljum meina að með nálguninni varðandi eignarréttinn í frumvarpinu sem fyrir liggur sé um grundvallarbreytingu að ræða. Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa sendi einnig inn umsögn til iðnaðarnefndar. Þar kemur fram með skýrum orðum, virðulegi forseti:

„Í frumvarpinu kemur fram grundvallarbreyting á því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur í gildandi lögum er varðar eignarhald á vatni.“

Það eru því fleiri en við sem líta þannig á að svo sé. Það hefur komið fram í þessum umsögnum að það eru fleiri en við sem álíta að hér sé verið að gera grundvallarbreytingu á nálgun lagasetningarinnar.

Ég kom inn á það áðan að það hafi verið gagnrýnt í umsögnum að frumvarpið sé sértækt, í því tilliti að það taki ekki utan um jafnmarga þætti og það ætti að gera, þ.e. að þetta séu ekki heildarlög um vatn. Það sem styður þá skoðun okkar er að fjölmargir aðilar hafa bent á einmitt þennan þátt. Það kom fram að í Náttúrufræðistofnun voru þetta kölluð sértæk lög um nýtingu. Hér í þessari umsögn Félags heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa er lagt til að nafni frumvarpsins verði breytt í „lög um nýtingu vatnsauðlinda“ ellegar verði frumvarpið endurskoðað með tilliti til tilskipunar Evrópusambandsins um vatnastjórnun þannig að í vatnalögum komi fram skýr ákvæði um kröfur og réttindi er varða vatnsgæði og stjórnskipulag vatnsverndar.

Virðulegi forseti. Þarna er önnur umsögn sem tekur á þessu. Í umsögn félagsins segir jafnframt að það sé mat félagsins að ekki sé nægjanlega gætt að náttúruvernd þar sem meginreglan virðist vera sú að nýta megi þá eign sem vatnsrétturinn er og þennan þátt þurfi að skýra betur í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Það kom einnig fram mjög merkileg umsögn frá Umhverfisstofnun þar sem komið er inn á fjölmarga þætti. Mér þykir afar athyglisvert að í þeirri umsögn er farið dálítið yfir forsögu málsins. Í umsögninni er það verklag sem við er haft við vinnslu þessa máls gagnrýnt nokkuð. Þannig að enn og aftur eru fleiri en stjórnarandstaðan hér á þingi sem telja að þetta mál hafi ekki fengið rétta og nægjanlega umfjöllun. Vil ég grípa niður í þessari umsögn þar sem segir:

„Við vinnslu fyrirliggjandi frumvarps virðist nefndin sem vann drögin ekki hafa sent þau út í því skyni að leita með formlegum hætti eftir viðbrögðum annarra aðila og taka rökstudda afstöðu til innsendra athugasemda sem lagðar yrðu fyrir ráðherra ásamt frumvarpinu. Umhverfisstofnun vill raunar halda því til haga að fulltrúi nefndarinnar leitaði óformlega til stofnunarinnar á sínum tíma um tiltekin atriði um almannarétt er snertir vatn. Umhverfisstofnun telur það verklag, sem því miður er ekkert einsdæmi, að nefndir skili frumvarpstexta til ráðherra án þess að hafa sjálfar leitað eftir viðbrögðum með formlegum hætti úti í samfélaginu, sé mjög vandmeðfarið. Slíkt á einkanlega við þegar verið er að leggja til breytingar á löggjöf sem kann að snerta eða skarast á við verkefni sem aðrir aðilar innan stjórnsýslunnar eru að sinna. Þegar þannig háttar, og eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram, má reikna með að umræðan um efni þess fari eingöngu fram á Alþingi. Hætt er við að umræðan verði mun harðari en hún þyrfti að vera ef ekki er búið að ræða framkvæmdar- og tækniatriði þess á fyrri stigum og sem flest sjónarmið liggja fyrir. Umhverfisstofnun telur að umrætt frumvarp til vatnalaga hafi goldið þessa verklags.“

Virðulegi forseti. Hér er virt stofnun eins og Umhverfisstofnun, sem að sjálfsögðu hefði átt að koma að þessu máli, að er að segja okkur að undirbúningurinn undir þessa frumvarpssmíð hafi ekki verið nægjanlegur og að ekki hafi verið búið að ræða framkvæmdar- og tækniatriði þess á frumstigum málsins. Þetta er enn ein vísbendingin, virðulegi forseti, um að eitthvað búi að baki þessari lagasmíð og þeim flýti á að koma málinu í gegn sem verður að skýra hér í þessum sal.

Virðulegi forseti. Það er mér mikið áhyggjuefni ef stofnun eins og Umhverfisstofnun telur að ekki hafi verið farið nægjanlega vel yfir ákveðin framkvæmdar- og tækniatriði á fyrri stigum við undirbúning þessa máls því eins og ég hef áður sagt er það gríðarlega mikilvægt. Við erum að fjalla um auðlind sem er sameign mannkyns og hún er takmörkuð.

Virðulegi forseti. Í þessari umsögn segir sömuleiðis að þegar Alþingi hafi verið frestað í vor hafi Umhverfisstofnun að eigin frumkvæði haft samband við Orkustofnun og gert tillögu að nokkrum atriðum sem mundu koma verulega til móts við sjónarmið stofnunarinnar. Efnislega voru það þrjú meginatriði sem Umhverfisstofnun lagði til í þeirri umræðu. Þar er fyrsti punkturinn að betur verði hugað að almannarétti. Það er ekki bara Umhverfisstofnun sem kemur inn á þennan þátt heldur mun fleiri og fyrir nefndinni voru fleiri sem nefndu þetta, að ekki væri nægilega vel hugað að almannarétti í frumvarpinu og honum þyrfti að gera hærra undir höfði og hann þyrfti að skýra.

En virðulegi forseti. Ég vil grípa hérna niður í fleiri atriði sem koma fram í umsögn Umhverfisstofnunar. Stofnunin telur að meginþættirnir í umræðum um fyrirliggjandi frumvarp snúi að eftirfarandi atriðum: Í fyrsta lagi að verið sé að breyta gömlum heildarlögum og láta þau fjalla um afmarkaðan þátt fyrri laga en undir sama heiti. Í öðru lagi að verið sé að breyta skilgreiningu á eignarrétti á sama tíma og felld eru niður ákvæði er varða almannarétt. Í þriðja lagi segir í umsögninni að von sé á frumvarpi þar sem ætlunin sé að innleiða hluta af svokallaðri vatnatilskipun sem gengur út á mynda rammalöggjöf um sameiginlega nýtingu vatns, aðgengi almennings að vatni og verndun. En helsta leiðarljós vatnatilskipunarinnar er að vatn sé ekki verslunarvara, heldur sameiginleg arfleifð sem beri að vernda sem slíka.

Virðulegi forseti. Þarna kann að hljóma eins og ég sé farin að endurtaka mig en það er bara staðreynd að fleiri en einn af þessum umsagnaraðilum benda á þessa mikilvægu hluti, þ.e. að huga verði betur að almannarétti og sömuleiðis séu þessi lög að fjalla um afmarkaðan þátt fyrri laga þó undir sama heiti sé. Þar kemur jafnframt fram að skilgreiningum á eignarrétti sé breytt.

Virðulegi forseti. Það er fleira mikilvægt sem kemur fram í þessari umsögn og þar eru meginathugasemdir Umhverfisstofnunar þær að lagt er til að frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunarinnar verði lagt fram um leið og frumvarp um vatnalög og heiti frumvarpsins verði breytt þannig að það gefi betur til kynna efni þess.

Virðulegi forseti. Fjórða meginathugasemdin lýtur að því að almannaréttur veikist ekki. Síðan fjallar Umhverfisstofnun um formbreytingarumræðuna. Þar segir í fimmtu meginathugasemd að telji „Alþingi að einungis sé um formbreytingu að ræða varðandi skilgreiningu á eignarhaldi og sé það ætlun þess að svo verði telur Umhverfisstofnun að skilgreining sem byggir á orðalagi gildandi laga sé skýrari út frá sjónarmiði náttúrufræða og valdi minni óvissu í túlkun á almannarétti.“

Í greinargerð með umræddri umsögn segir að löggjöf til að innleiða vatnatilskipunina hafi ekki verið lögð fram og það er gagnrýnt að menn hafi ekki viljað fara yfir þessi mál á heildrænan hátt og jafnframt gagnrýnt í greinargerðinni að heiti frumvarpsins sé mun víðfeðmara en efnið sem þar er að finna.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fara yfir þessa makalausu umræðu um formbreytinguna. Þannig er, virðulegi forseti, að því er haldið fram í frumvarpi til vatnalaga að eingöngu sé um formbreytingu að ræða. Í greinargerðinni á síðu 21, segir, með leyfi forseta:

„Í 4. gr. kemur fram að fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgi eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur. Eins og að framan greinir er þar um að ræða eina helstu breytinguna frá gildandi rétti. Þó skal áréttað að þar er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða, ekki efnisbreytingu.“

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér afar merkilegt fyrir margra hluta sakir og þykir mér mikilvægt að ræða það og þá líka út frá öðrum sjónarhornum en eingöngu hinni lagatæknilegu, eins og menn hafa verið að gera hér með því að vísa í dómaframkvæmdir og annað. Vil ég í því sambandi nefna að mér hefur þótt afar sérkennilegt í umræðunni að hv. þm. Birkir Jón Jónsson og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafa báðir komið hér upp og farið með þuluna um að eingöngu sé um formbreytingu að ræða en hafa síðan í næstu setningu farið að tala í þeim anda að verið sé að bjarga okkur Íslendingum frá einhverju Sovétskipulagi. Þetta hefur mér þótt svolítið sérkennileg umræða og oft og tíðum hefur hún líka verið býsna ósanngjörn af þeirra hálfu. Ég vona að þegar þeir koma aftur í umræðu um þessi mál verði þeir nú ögn dýpri í umfjöllun sinni en svo að afgreiða málin með svo einföldum hætti. Mér finnst líka svolítið sérkennilegt að ef hv. þingmenn vilja meina að eingöngu sé um formbreytingu að ræða, hvernig stendur þá á því að lesa má úr orðum þeirra að þeir séu með nýju frumvarpi til vatnalaga, þessari nýju skilgreiningu á eignarréttinum, að frelsa okkur, frelsa þjóðina frá ánauð einhvers Sovétskipulags? Þetta þykir mér afar undarlegur málflutningur, sérstaklega í ljósi þess að einungis er um lagatæknilega formbreytingu að ræða. Það sem hefur skinið út úr málflutningi þeirra, sem hefur af mörgum oft verið fyrir neðan allar hellur, er að þeirra bjargfasta trú er að koma eigi öllum sköpuðum hlutum í einkaeign og þá skiptir engu máli hvort það er vatnið — sem eins og fram hefur komið er í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og erfitt að ná utan um — eða eitthvað annað.

Ég fór aðeins yfir það hvernig Umhverfisstofnun lítur á þessi ummæli um formbreytinguna en einnig er farið yfir þetta í nefndaráliti minni hlutans. Fjallað er ágætlega um það að þetta sé eingöngu einhver lagatæknileg formbreyting. Því langar mig að bera niður í nefndaráliti minni hlutans um þessi mál þar sem segir, með leyfi forseta.

„Í 1. gr. frumvarpsins segir: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni.“ Það verður að telja vafasamt orðaval ef hér á fyrst og fremst að vera um formbreytingu að ræða eins og sagði í athugasemdum með frumvarpinu. Þar var einnig sagt að í þessari nýju skilgreiningu á vatnsréttindum fælist í raun meginatriði frumvarpsins en þó var sérstaklega áréttað að þar væri „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða. Meginatriði frumvarpsins var sem sagt formbreyting samkvæmt þeim skilningi sem fram kom í athugasemdum með því á síðasta þingi.“

Virðulegi forseti. Í nefndarálitinu er einnig sagt örlítið síðar, með leyfi forseta:

„Höfundar frumvarpsins hafa ítrekað fullyrt að engin ný réttindi muni skapast eða glatast verði það að lögum. Eftir stendur að skilningur þeirra sem sömdu frumvarpið var og er óumdeilanlega að aðalmarkmið þess sé „skýrt eignarhald á vatni“.“

Örlítið síðar segir jafnframt, virðulegi forseti:

„Það að hér gangi mönnum annað til en umhyggja fyrir formi og samræmi sannaðist þegar aðalhöfundur þessarar lagasmíðar svaraði spurningum nefndarmanna, en hann var m.a. spurður hvort það gæti skapað skaðabótaábyrgð á hendur ríkinu ef ákvæði um vatn sem nú eru í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu yrðu numin brott. Svarið var skorinort „já, án vafa“.“

Þá segir einnig:

„Ef sambærileg ákvæði laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og þau sem hér um ræðir færa mönnum skaðabótarétt verði gerð á þeim sú formbreyting að færa réttindin til fyrra horfs hlýtur að mega gagnálykta á þann veg um þá breytingu sem felst í frumvarpinu að í henni felist breyting á réttarstöðu.“

Þetta, virðulegi forseti, þykir mér áhugaverður punktur í nefndarálitinu og fannst rétt að hann kæmi hér fram.

Virðulegi forseti. Ég mundi vilja koma inn á fjölmargt til viðbótar í þessu ljósi en það sem mig langar til að fara yfir næst er umræðan um vatnalögin. Hér hefur mikið verið rætt af hálfu stjórnarliða og sömuleiðis stjórnarandstæðinga um vatnalögin frá 1923, tilkomu þeirra og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru á þeim tíma og jafnframt hvernig dómatúlkun hefur átt sér stað út frá þeim lögum og hvernig dómaframkvæmd hefur verið. Hér hafa menn að mínu mati farið býsna misvel yfir og mér finnst rétt að í því ljósi verði Jóni Þorlákssyni heitnum og fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins gefið orðið Hann var alþingismaður frá árinu 1921–1934 fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hann sat því á þingi þegar þessi mál voru hér til umræðu. Sömuleiðis var hann fjármálaráðherra 1924–1926 og forsætis- og fjármálaráðherra 1926–1927. Hann sat í þingnefndinni sem ég nefndi áðan, sem var sett á laggirnar til að fjalla um fyrirkomulag þessara mála á sínum tíma og spilaði þar nokkuð stóra rullu. Mér finnst rétt að gefa honum orðið með því að lesa hérna góða grein sem hann birti til þess að menn átti sig á hugsun hans frá þeim tíma um þessi mál, vegna þess að hér hefur verið vitnað til þess tíma á ýmsa vegu. Mér þykir því rétt að fara með þessa Morgunblaðsgrein, eða þetta eru tvær Morgunblaðsgreinar, birtar í Morgunblaðinu 16. og 18. september 1919 þegar þessi mál voru í hámæli og fossanefndin þar sem hann átti sæti, þ.e. þingmannanefnd um vatnamál starfaði 1918–1920. Þessar greinar eru birtar 1919 þegar umræðan er þá í hámarki.

Vil ég hér, virðulegi forseti, fara með þetta svo menn heyri það frá honum sjálfum, sjálfstæðismanninum Jóni Þorlákssyni, aðila að fossanefndinni, hvernig litið var á málin vegna þess að mér finnst það skipta máli varðandi framhald þessarar umræðu. Þegar menn eru að vitna til þess hvernig málum var háttað á þeim tíma er rétt að hafa það beint frá þeim sem um það fjölluðu. Þetta er bók sem heitir Jón Þorláksson, ræður og ritgerðir, Gunnar Thoroddsen samdi inngang og Hannes Hólmsteinn Gissurarson sá um útgáfuna. Hún var gefin út af Stofnun Jóns Þorlákssonar árið 1985.

Þessi grein fjallar um þingsályktunartillögu um vatnsorku Sogsins.

Þar segir, með leyfi forseta:

„I. Meiri hluti vatnamálanefndar Alþingis hefur borið fram tillögu til þingsályktunar um að skora á landsstjórnina m.a. að slá eign sinni á „alla vatnsorku í Soginu“ án neinna bóta, og ef slíkt verður talið ólögmætt, þá að ná handa ríkinu gegn bótum fullum umráðum á notarétti á vatnorku Sogsfossanna og er tillagan prentuð í Morgunblaðinu 14. september.

Tillaga þessi ber þess ljósan vott að háttvirtir nefndarmenn hafa ekki enn þá kynnt sér þetta flókna mál svo, að þeir séu færir um að bera fram tillögur í því.

Fyrsti liður tillögunnar hljóðar svo:

„1. Til þess að dómstólaúrskurður fáist um hvort ríkið eða einstaklingar eigi vatnsorku landsins, — skorar Alþingi á landsstjórnina að slá eign sinni á alla vatnsorku í Soginu, allt frá upptökum þess og þar til er það fellur í Hvítá, án þess að neinar bætur komi fyrir til einstaklinga eða félaga, er talið hafa sér eignarrétt á henni. Taka þessi skal þó eigi ná til þess af vatninu er býlum verður metið nauðsynlegt til heimilis og búsþarfa.“

Hér er talað um að slá „eign“ sinni á vatnorku og um „eignarrétt“ á henni. En nú er vatnorka ekki „hlutur“, og því þegar af þeirri ástæðu efasamt hvort hún getur verið „eign“ eða eignarrétti undirorpin. En verði svo litið á að hún sé eða geti verið eignarrétti undirorpin, þá er það víst og viðurkennt af öllum, að sú eign og eignarréttur verður að ná til þeirra tveggja „hluta“ sem orka hins fallandi vatns í árfarveginum er bundin við, en þessir tveir „hlutir“ eru:

a. Landið, sem halli sá er á, er myndar fallhæð vatnsins, þ.e. árfarvegurinn, meðan ræður um orku óvirkjaðs vatns.

b) Vatnið sem um farveginn rennur.

Að eignarrétt þurfi á þessum tveim hlutum, falllandinu og vatninu, leiðir beint að því að vatnorkan er margfald (pródúkt) af fallhæðinni og vatnsmagninu, orkan talin í nýtilegum hestöflum, sama sem metratala fallhæðarinnar margfölduð með teningsmetratölu vatns þess er fram rennur á hverri sekúndu og útkoman margfölduð með 100.

Ef ekki er hallandi land undir vatninu verður vatnorkan engin. Ef ekkert vatn er á hinu hallandi landi verður þar ekki heldur nein vatnorka. Ef einn á landið og annar vatnið, verður vatnorkan annaðhvort hvorugs þeirra eign, eða sameign þeirra beggja.“

Þarna segir, virðulegi forseti, að ef einn á landið og annar vatnið verði vatnsorkan annaðhvort hvorugs þeirra eign eða sameign þeirra beggja. Áfram segir í greininni, virðulegi forseti:

„Nú fer tillagan fram á það, að ríkið slái eign sinni endurgjaldslaust á alla vatn(s)orku Sogsins. Þar í felst óhjákvæmilega að taka af landeigendum endurgjaldslaust eignarréttinn að þeim hluta landareignanna sem Sogið liggur á. En þetta er algjör fjarstæða, beint brot á stjórnarskránni, og ástæðan er sennilega sú að flytjendur tillögunnar hafa ekki verið búnir að átta sig á því, að í eign eða eignarrétti á vatnorku fallvatns, sem látið er kyrrt í farvegi sínum felst óhjákvæmilega eignarréttur á vatnsbotninum.

Ef til vill hefur einhver mjög óljós hugmynd um þetta vakað fyrir tillögumönnum. Því að síðast í umræddum 1. lið segir:

„Taka þessi skal þó ekki ná til þess af vatninu er býlum verði metin nauðsynleg til heimilis og húsþarfa.“

Eða er meiningin með þessu virkilega sú sem liðurinn er lesinn í heild segir, sem sé, að ríkið skuli endurgjaldslaust slá eign sinni á allan farveg Sogsins, en einungis nokkuð af vatninu í því?

Þessi liður tillögunnar fer algjörlega í bága við álit meiri hluta fossanefndarinnar um það mál, sem hér ræðir um. Meiri hlutinn viðurkennir fullkomlega eignarrétt landeigenda að árfarvegum, vatnsbotni fallvatna. En sá eignarréttur út af fyrir sig er ekki nógur til að skapa eignarrétt á vatnorkunni. Ef annars er hægt að tala um eignarrétt á vatnorkunni, þá þarf að minnsta kosti eitthvað meira það til, sem sé eignarrétt eða útilokandi afnotarétt af vatninu. Rúmið leyfir ekki að gera fulla grein fyrir áliti meiri hlutans um það atriði en í megindráttunum er það á þessa leið:

Rennandi vatn í eðlilegum vatnsfarvegum, einkum þar sem saman er komið vatn, aðrunnið af fleiri landareignum, er ekki undirorpið eignarrétti neins farvegseiganda, hvorki samkvæmt eldri og nýrri íslenskri löggjöf, né eftir eðlilegri hugsun. Meðal annars er sérhverjum landeiganda samkvæmt fornum og nýjum lögum óheimilt að veita vatninu úr eðlilegum farvegi nema til komi sérstök heimild samkvæmt lögum; ákvæðið „vötn öll skulu svo renna, sem runnið hafa að fornu“ hefir ávallt verið í lögum hér. En löggjafinn hefur jafnan heimilað bæði landsstjórninni og öðrum þær undanþágur frá þessari almennu reglu, sem honum þótti þurfa. Með lögum eru sett ákvæði sem heimila farvegseigendum og öðrum að veita vatni úr eðlilegum farvegi til þarflegra nota. Hingað til hefur löggjafinn aldrei heimilað farvegseigendum sem neðar eru við vatnsfall það, sem vatn er tekið úr eða vatni er veitt í, bætur fyrir minnkun eða aukningu á vatninu í vatnsfarvegum þeirra, er leiðir af lögleyfðri úrveitu eða íveitu á löndum þeirra eða fyrir ofan þau, nema spjöll leiði af vatnsmagnsbreytingunni á veiði, landi, mannvirkjum eða neysluvatni; þau spjöll ber að bæta og annað ekki.

Öll notkun vatns til orkuvinnslu útheimtir nú fyrst og fremst að vatnið sé tekið út úr eðlilegum farvegi sínum. Meiri hluti fossanefndar heldur því nú fram, og vill taka fyrir allan efa þar um með lagasetningu, að ríkinu sé heimilt að taka vatn úr eðlilegum farvegi til slíkra nota, og heimilt að leyfa öðrum að gera það. Bótarétt fyrir vatnsmissi þeirra, sem farveg eiga fyrir neðan úrveituna, vill meiri hlutinn viðurkenna allan þann sem nefndur var og hingað til hefur verið viðurkenndur, sem sé fyrir spjöll á veiði, landi, mannvirkjum og neysluvatni. Og auk þessa vill meiri hlutinn lögleiða bótarétt fyrir afnotamissi vatns til heimilis- og húsþarfa á jörðum þeim, sem farveg eiga fyrir neðan úrveituna, víðtækari miklu en bótarétt þann fyrir spjöll á neysluvatni sem byggður verður á í gildandi löggjöf.“

Virðulegi forseti. Hér kemur að umfjöllun um 2. lið tillögunnar. Þar segir með leyfi forseta:

„Annar liður þingsályktunartillögunnar hljóðar svo:

„Falli hæstaréttardómur í væntanlegu máli út af vatnsorkunáminu á þann veg, að einstaklingar eigi vatnsorku þá, er þeir hafa talið sér, en eigi ríkið — að gera ráðstafanir að ríkið þá engu að síður nái, gegn bótum, fullum umráðum og notarétti af vatnsorku Sogsfossanna.“

Það atriði, hver sé eigandi orkunnar í því vatni, sem rennur óvirkjað og ónotað fram um farveg Sogsins, er gersamlega þýðingarlaust, því að orkan í þessu vatni er alls einskisvirði, af þeirri einföldu ástæðu að hún getur aldrei gefið neinn arð af sér neinum til handa.

Það er því blátt áfram hlægilegt að þingnefnd í vatnsmálum skuli láta það verða sitt fyrsta verk, að bera fram tillögu um að vekja deilur um það atriði, heimta af landsstjórninni að hún fremji skýlaust stjórnarskrárbrot og fái það staðfest með hæstaréttardómi. Það sem gildir fyrir verðmæti er um vatnsorku Sogsins og annarra fallvatna ræðir, er rétturinn til að taka vatnið úr hinum eðlilega farvegi og nota það til orkuvinnslu.

Segjum nú að Hæstiréttur komist að þeirri fyrir fram vitanlegu niðurstöðu, að ríkið geti ekki „slegið eign sinni á“ vatnsorku Sogsins, meðan vatnið rennur eftir farveginum en ríkið er ekki eigandi farvegsins. Hverju væru menn eiginlega nær um það, hvort ríkið hefir rétt til að taka vatnið úr farveginum?

Segjum jafnvel að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að orka hins ónotaða vatns í farveginum sé eign farvegseiganda, þótt ólíklegt sé að rétturinn fái tilefni til að fella dóm um slíkt algerlega theóretiskt atriði, sem eitt út af fyrir sig getur naumast snert hagsmuni nokkurs manns. Eru menn þá nokkru nær um það, hver hafi réttinn til að taka vatnið úr farveginum? Það eitt mun viðurkennt af öllum, vegna ótvíræðra lagafyrirmæla þar um, að enginn einstakur landeigandi hefur þann rétt.

Að skoðun meiri hluta fossanefndarinnar horfir þessu atriði þannig við, að löggjafarvaldið hefur rétt til að heimila landsstjórn eða öðrum að taka vatnið úr eðlilegum farvegi. En sá sem vill nota það vatn, hvort heldur er ríkið eða einstaklingar, verður að öðlast, með kaupum, eignarnámi eða leigu, eignarrétt eða afnotarétt af landi því sem hann þarf undir hinn nýja vatnsfarveg, skurði, pípur, jarðgöng og önnur mannvirki. Ríkið á ekki fremur en aðrir rétt til slíks lands eða landsafnota án endurgjalds. En þegar ríkið eða annar aðili hefur fengið réttinn til að veita vatninu úr farveginum, fengið land undir veitutækin og önnur mannvirki, og hleypt vatninu í veitutæki sín og þannig tekið það til notkunar, t.d. orkuvinnslu, þá hefir hann einkaumráðarétt sem gjarnan má kalla eignarrétt ef menn vilja, yfir því vatni sem um veitutæki hans fer og hann hefur leyfi til að taka úr farveginum uns hann sleppir því aftur út í hinn fyrri eða annan eðlilegan farveg.

Þegar eignarnám þarf fram að fara vegna vatnstöku til orkuvinnslu, verður því um borgun eða bætur að ræða fyrir tvennt:

a. Land, ef til vill með einhverjum mannvirkjum sem fyrir eru, undir veitutæki og önnur mannvirki sem fara til orkuvinnslunnar.

b. Bætur fyrir vatnsmissi til þeirra sem missa vatn úr farvegi á landi sínu.

Þetta er þá það sem þarf að borga til að ná „fullum umráðum og notarétti á vatnsorku“ sem þingnefndin nefnir.

Nú hafa ekki verið gerðar neinar mælingar, uppdrættir, áætlanir né tillögur um það, hvernig skuli hagað mannvirkjum til orkunýtingar Sogsins. Hvernig hugsar hin háttvirta þingnefnd sér að unnt muni verða að ná „gegn bótum“ landi undir stíflur, vatnsfarvegi, hús og önnur mannvirki sem enginn veit hvar eiga að vera, því síður hve mikið land muni undir þurfa? Ætlast hún til að keyptar verði allar jarðirnar meðfram Soginu? Nú skyldi niðurstaðan verða sú að verkfræðingar vildu stífla Sogið „að ósi“ við Þingvallavatn og hækka allt Þingvallavatn að staðaldri eða nokkurn tíma ársins. Á landsstjórnin að kaupa Þingvallasveitina með, svona til vonar og vara? Og bætur til þeirra sem vatn kunna að missa úr farvegi sínum, hvernig á að ákvarða þær fyrr en ráðið er hvar vatnið verður tekið úr farveginum og hvar í hann hleypt aftur?

Nefndinni hefur ekki verið ljóst það sem annars nokkuð margir vita, að þess konar eignarnám, sem hér um ræðir, er ekki unnt að framkvæma fyrr en búið er að ákveða tilhögun mannvirkjanna. En að landsstjórn hefur heimild til slíks eignarnáms, þegar þar að kemur, um það efast nefndin sjáanlega ekki, því að vita mun hún, að ef þá heimild brestur, verður ekki úr því bætt með „þingsályktun“.

Lítilræði er það í þessu sambandi, að nefndin vill láta allar „ráðstafanir“ ná til vatnsorku „Sogsfossanna“ en ekki Sogsins alls. Fallhæð fossanna „að meðtöldum hávöðum þeim sem eru næst hverjum þeirra bæði fyrir ofan og neðan“ er 54 metrar, en Sogsins alls 80,06 metrar niður að Markalækjarósi“ — vísað er til nefndarálits meiri hluta fossanefndar „og nokkru meira niður að ármótum.

Tillögumenn tala um það í báðum liðum tillögunnar, að einstaklingar eða félög hafi talið sér eignarrétt á vatnorku Sogsins. Hverjir hafa gert það? Engir skjallega svo ég viti. Í leigusamningi þeim sem fossafélagið Ísland leiðir heimild sína frá, og prentaður er í nefndaráliti meiri hluta fossanefndar … selja landeigendur á leigu „allan vatnsrétt fyrir landi nefndra jarða“, þ.e. eignarjarða þeirra. Hvorki leigusalinn né leigutakinn nefnir þá, þ.e. 1908, neinn „eignarrétt“ á vatni og því síður á vatnorku. Væntanlega upplýsir nefndin á hverju hún byggir þetta tal sitt.

Annað höfuðatriði er mjög varhugavert í þingsályktunartillögunni, sem sé að svo virðist sem með henni sé tilraun gerð til að láta dómstólana taka ákvörðun um mál, sem réttilega heyrir undir löggjafarvaldið, og skal reynt að gera grein fyrir þessu.

Núgildandi íslensk löggjöf um notkun vatns til orkuvinnslu er af eðlilegum ástæðum mjög ófullkomin. Einstöku lög og lagaatriði að vísu eru til, sem beint lúta að þessu, en yfirleitt yrði hver sá dómur, sem nú yrði felldur um rétt einstaklinga og almennings til slíkrar vatnsnotkunar að byggjast að mestu leyti á því, hvað samræmilegt væri að skoðun dómarans við rétt manna til þeirrar vatnsnotkunar sem fyllri lagaákvæði eru til um, svo sem um rétt manna til að nota vatn til neyslu og áveitu. En þau lagaákvæði eru vitanlega sett með allt annað en orkuvinnslu fyrir augum, og því ekki líkur til að núverandi löggjöf eða dómsniðurstaðan verði að neinu leyti í samræmi við almenningsþörfina á þessu sviði.

Nú er það skýlaus skylda löggjafarvaldsins að setja þau lög, sem almenningsþörfin krefur. Aðaltilgangurinn með skipun fossanefndarinnar var sá, að undirbúa nýja vatnsorkulöggjöf og þar með var þá viðurkennt af þessu sama þingi sem nú situr, að almenningsþörfin krefðist slíkrar löggjafar.

Þingsályktunartillagan fer nú fram á, að áður en löggjafarvaldið setur hina nýju vatnsorkulöggjöf, sem vitanlega verður að koma, sé dómstólaúrskurður fenginn um eitt talsvert mikilvægt atriði á því sviði, sem sé um réttarafstöðu landeiganda annars vegar gagnvart hinu opinbera eða almenningi hins vegar þegar til þess kemur að taka vatn úr farvegi til orkuvinnslu. Ég geri sem sé ráð fyrir að þetta vaki fyrir tillögumönnum þótt þeim hafi ekki tekist að orða tillögur sínar þannig að þetta felist í þeim.

Nú virðist ekki geta verið nein skynsamleg ástæða til að leggja út í málarekstur um þetta, nema meiningin sé sú, að taka niðurstöðu þá, sem dómarinn kemst að, upp í hina væntanlegu vatnorkulöggjöf, skoða dóminn sem bindandi fyrir löggjafarvaldið.

Þá verður gangur þess máls þannig: Eftir mjög ófullkominni og sundurlausri löggjöf, sem ekkert tillit tekur til almenningsþarfa í vatnorkumálum, eftir því sem þeim horfir nú við, eiga dómstólarnir að draga takmörkin milli réttar nokkurra einstaklinga og réttar almennings. Þessi takmörk tekur löggjafarvaldið svo gild, án þess að rannsaka hvort þau séu samrýmanleg við almenningshagsmuni.“

Þá segir í millifyrirsögn er fjallar um skyldu löggjafarvaldsins:

„Verði þannig farið að, svíkst löggjafarvaldið undan skýlausri skyldu sinni. Það er skylda þess, að meta almenningsþörfina og setja lög samkvæmt henni. Löggjafarvaldið er sjálft hæstiréttur um það, hvaða löggjöf almenningsþörfin útheimti, en dómstólarnir hafa ekkert atkvæði þar um, verða í dómum sínum að fara eftir gildandi löggjöf, hvort sem hún er fullkomin eða ófullkomin, hvort sem hún er almenningi hagkvæm eða ekki.

Ef til vill kann einhver hugsun að hafa vakað fyrir tillögumönnum í þá átt, að ákvörðun takmarkanna milli réttar einstaklinga og réttar almennings í þessu máli sé þann veg sérstaks eðlis, að hana verði að undanþiggja frá afskiptum löggjafarvaldsins. Um önnur atriði vatnorkumála megi setja lög eftir því sem almenningsþörfin krefur, en um þetta atriði ekki. Hafi þessi hugsun upp komið, þá er hún röng. Nægir í þessu efni að benda á, að í öðrum löndum er löggjafarvaldið stöðugt að breyta þessum takmörkum milli réttar einstaklinga og almennings (ríkis; sveitarfélaga) á þessu sviði. Í þeim löndum, sem viðurkenna eignarrétt bæði á landi og rennandi vatni, er þetta gert með takmörkunum á hvorumtveggja eignarréttinum, í þeim löndum, sem viðurkenna einungis eignarrétt að landinu, en ekki að straumvatninu, er hið sama gert með takmörkunum á eignarréttinum að landinu og með breytingum á notkunarrétti vatnsins. — Og loks eru eigi allfá dæmi þess, að sú breyting er á ger, að vatn, sem áður var viðurkend einstaklingseign, hættir að vera það, að tilhlutun löggjafarvaldsins, og það bótalaust, enda þá eigi talið að verða almennings- eða ríkiseign, heldur almenningsgagn, öllum eignarrétti undanþegið. Og löggjöf vor hefir hingað til leyft sér alveg samskonar breytingar á réttarafstöðu einstaklinga annars vegar og almennings hins vegar, bæði í vatnamálinu og á öðrum sviðum, svo sem lesa má um í ritgerð prófessors Einars Arnórssonar, er fylgir nál. meiri hluta fossanefndarinnar. Sem dæmi, lesendum blaðsins til skýringar, má nefna, að fyrir nokkrum árum bannaði löggjöfin þeim landeigendum, sem höfðu hrís og mel á landi sínu, að rífa þetta; höfðu þó sumir haft miklar tekjur af melrifi (til reiðinga) en fengu vitanlega engar bætur fyrir; ástæðan var almenningsþörf sú, að taka fyrir uppblástur lands og sandfok, sem af hrís- og melrifinu leiddi.

Löggjafarvaldinu er þess vegna alveg óhætt að snúa sér að því atriði, hver takmörk þurfi að setja milli réttar einstaklinga og almennings í vatnorkumálum vegna nauðsynja eða hagsmuna almennings, og láta málaferli um þetta bíða að minsta kosti þangað til það hefir sjálft áttað sig á vilja sínum í því efni, og helst þangað til að því kæmi, að einhverjum þætti gengið of nærri rétti sínum, ef það yrði þá nokkurn tíma.“

Virðulegi forseti. Nú er einungis síða eftir af þessum lestri. Síðasti kaflinn ber yfirskriftina „Almenningsheill, notkunarréttur og eignarréttur“:

„Í nefndaráliti meiri hluta fossnefndarinnar eru færð rök fyrir því, að almenningsheill krefjist þess, eftir því sem vatnorkumálum er nú komið, að ekki sé viðurkendur í löggjöfinni eignarréttur landeigenda að sjálfu hinu rennandi vatni, heldur einungis notkunarréttur. Þar er alls ekki farið fram á að lögleiddur verði eignarréttur á þessu vatni ríkinu til handa, heldur sú grein fyrir gerð (sjá athugasemdir við frv. til vatnalaga A. bls. 61 í nál. meiri hluta) „að það óvirkjað vatn, sem landareign sú, er það er á eða rennur um, þarf eigi til sinna þarfa, skuli vera einskonar almenning, undir umráðarétti ríkisins, frjálst til notkunar þeim er þurfa, ef eigi fer í bága við hagsmuni ríkisins, almennings eða annarra einstaklinga, eftir nánari ákvæðum löggjafarvaldsins.“ Og meiri hluti gerir grein fyrir því, að löggjöfin um þetta atriði er hingað til mjög óljós, og kemst að þeirri niðurstöðu, að hún sé a.m.k. ekki því til fyrirstöðu, að þetta verði leitt í lög.

Það er nú skýlaus skylda löggjafarvaldsins að taka þær ástæður, sem meiri hluti ber fram, til yfirvegunar. Og ef Alþingi viðurkennir ástæður þessar (höfuðástæðan er nauðsynin á því að hindra það, að ónotað vatn eða réttur að ónotuðu vatni komist í höndum „spekúlanta“ upp í geypiverð), þá er því skylt að taka til yfirvegunar, hvort það vill fara þá leið, sem meiri hluti stingur upp á, eða einhverja aðra. En að byrja á því að biðja dómstólana að binda hendur sínar um þetta mál, það er fjarstæða ein, því að leiðirnar, sem um verður að velja, munu ekki reynast of margar þegar til kostanna kemur.

Rúmið leyfir ekki að fara lengra út í þetta að sinni, en sjálfsagt verður tækifæri til að minnast á þessi mál seinna. Og skal ég að endingu taka það fram, að ég álít enga ástæðu til að áfellast háttvirta þingmenn, þótt þeir hafi ekki enn aflað sér nægilegs skilnings á máli þessu, því að til þess hafa þeir haft allt of nauman tíma, en til hins verður óneitanlega að ætlast af þeim, að þeir láti ályktanir og tillögur bíða þangað til þeir sjálfir hafi áttað sig sómasamlega á málinu. Mundi jafnvel ekki úr vegi, að leyfður væri tími til að halda uppi nokkrum opinberum umræðum um málið utan þings, í blöðum og á mannfundum, áður en þingið fer að gera ályktanir um það. Flas er ekki til fagnaðar í þessu máli fremur en öðrum.“

Virðulegi forseti. Þessi lokaorð, flas er ekki til fagnaðar í þessu máli fremur en öðrum, eiga svo sannarlega við hér. Í umsögnum sem ég hef farið yfir er það gagnrýnt hvernig málið ber að og það er gagnrýnt að ekki skuli tekið tillit til annarra lagasetninga vegna þess að þessi telst sértæk, þ.e. að þetta séu ekki heildarlög eins og vatnalögin voru þegar þau voru sett 1923 heldur sértæk lög sem fjalli um þrengra svið en þá var gert. Á þetta tel ég að mönnum beri að hlusta.

Ég hyggst ljúka máli mínu núna þó að það sé fjölmargt annað sem ég mundi vilja koma inn á, en ég hef tækifæri til þess síðar í umræðunni þar sem henni er ekki lokið auk þess sem 3. umr. er eftir. Ég vona svo sannarlega að á milli 2. og 3. umr. muni nefndin taka málið inn til sín og ræða þetta í alvöru samhliða lögleiðingu á vatnatilskipuninni ásamt annarri löggjöf sem að vatni snýr.

Virðulegi forseti. Málið þykir mér gríðarlega stórt. Eins og ég kom inn á áðan hefur því verið spáð innan Sameinuðu þjóðanna að innan eða eftir um 50 ár verði vatn orðið verðmætara en olía. Lærðar greinar hafa verið skrifaðar um það að stríð framtíðarinnar verði háð út af vatni. Hér er um þannig mál að ræða, þetta er takmörkuð auðlind, að við getum ekki farið frjálslega með það, eins og bent er á í ritstjórnargrein Morgunblaðsins sem ég fjallaði um fyrr í ræðu minni. Því tel ég að ríkisstjórnin og meiri hlutinn eigi að koma til móts við stjórnarandstöðuna og þá fjölmörgu aðila sem hafa gagnrýnt málið, setjast að samningaborði og fara yfir málin í sameiningu.

Við getum ekki rætt þessa mikilvægu auðlind, vatn, eins og verið hefur þar sem við skiptumst í tvær stríðandi fylkingar vegna þess að þetta eru grundvallarmannréttindi, það er um grundvallarmannréttindi að ræða, vatn er grundvöllur þess að fólk geti lifað með reisn á þessari jörð og skiptir öllu máli til framtíðar litið. Við eigum að ræða málið í því ljósi og við eigum ekki að slá slíka umræðu út af borðinu. Þó svo að menn telji að þeir séu í einhverjum lagatæknilegum leiðangri og einhverjum formbreytingum þá verða menn að líta líka til þessara mála vegna þess að það er í alvöru verið að benda á þau um allan heim.

Mér finnst líka mikilvægt að líta til þess að við á Íslandi virðumst með lagasetningunni vera að fara aðrar leiðir en þau ríki sem við störfum með á alþjóðavettvangi. Það er ekki hægt að slíta vatn og vatnsnotkun úr samhengi við aðrar þjóðir vegna þess að þetta snýst ekki eingöngu um okkur. Við getum ekki horft bara út frá naflanum á okkur á þessi mál. Því tel ég mjög mikilvægt að málið verði, eins og við höfum lagt til í stjórnarandstöðunni, dregið til baka, því verði vísað frá og að menn setjist niður og ræði þessi mál í sameiningu og ræði við aðila í þeim samtökum og hagsmunahópum sem hafa gagnrýnt málið harðlega og ekki hefur verið tekið tillit til.

Ég bið hv. þingmenn stjórnarliða að hafa í huga nú þegar við horfum fram á að afgreiða málið, að taka tillit. Þetta eru alvöru athugasemdir sem er verið að gera, það er ekki hægt að blása þær út af borðinu sem eitthvað sem komi málinu ekki við af því að hér sé eingöngu verið að gera smávægilega formbreytingu. Það er ekki hægt að blása þær áhyggjur manna út af borðinu með þeim hætti. Þess vegna tel ég að menn ættu og ég bið um það að í þessu máli, þó að fordæmin séu ekki endilega fyrir hendi hjá núverandi ríkisstjórn, þá verði tekið tillit, þá verði rætt við fólk, einhverja fleiri en einungis þá sem þeim hentar að ræða við, að rætt verði við fólk sem hefur komið með mikilvægar athugasemdir í málinu og menn setjist að borðinu og geri þetta aftur í samstarfi við sem flesta svo að það verði farsæl lausn á málinu til framtíðar.

Alþingi skipaði fossanefnd á sínum tíma sem mér finnst vera vinnubrögð sem við getum tekið til fyrirmyndar og eins að kallaðir verði að borðinu þeir aðilar sem hafa sent inn umsagnir.