132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vék orðum að mér í ræðu sinni langar mig til að bregðast aðeins við ræðu hennar og varpa fram a.m.k. þremur spurningum. Í umræðunni er um það deilt af hálfu stjórnarliða og stjórnarandstæðinga hvort í frumvarpinu felist efnisbreyting eða formbreyting hvað varðar inntak eignarréttar á vatni og vatnsréttindum.

Laganefnd Lögmannafélagsins skilaði frá sér umsögn sem ég veit að hv. þingmanni er að góðu kunn. Lokasetningin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í ítarlegri útlistun frumvarpshöfunda er hér ekki um efnislega breytingu að ræða á inntaki eignarráða fasteignareiganda heldur um formbreytingu.“

Það er því á það fallist af hálfu formanns laganefndar Lögmannafélagsins, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar.

Mig langar til að spyrja hvort hv. þingmaður sé ósammála túlkun formanns laganefndar á inntaki eignarréttinda.

Ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður gerði ágreining um að vatn og vatnsréttindi væru samkvæmt núgildandi vatnalögum frá 1923 undirorpin einkaeignarrétti. Það skýtur svolítið skökku við og er ekki í takt við túlkun helstu fræðimanna Íslendinga á sviði eignarréttar á ákvæðum vatnalaga. Ég leyfi mér að nefna grein Þorgeirs Örlygssonar, prófessors í eignarrétti og fyrrum deildarforseta lagadeildar. Greinin heitir Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar, og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu.“

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að (Forseti hringir.) prófessor Þorgeir Örlygsson hafi rangt fyrir sér og hafi eitthvað mislesið réttarframkvæmdina þegar hann lét þessi orð falla.