132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:01]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur ekki hlustað á alla ræðu mína vegna þess að í henni fór ég yfir þann fjölda af umsögnum sem borist hafa hv. iðnaðarnefnd um þetta mál. Ég fór líka yfir skrif sem eru tengjast þessu máli og erindi á ráðstefnum. Ég talaði ekki um dómaframkvæmd, ég var ekki að efast um eitt eða neitt í þeim eða hvernig þær hafi verið. (Gripið fram í.) Ég talaði um að hér hefði mikið verið farið yfir þá. Þess vegna ákvað ég að lesa þetta svo menn fengju hér tíðaranda þess tíma sem lögin voru sett, til þess að við fengjum það beint í æð, þar sem þið hafið rætt mikið um dómaframkvæmd frá þessum tíma. Ég sagði ekkert um það hvort hún væri rétt eða röng. Það var því ekki rétt heyrt. Ég taldi rétt að fara yfir þetta svo menn fengju hér andann beint í æð um það hvernig Jón Þorláksson, sem var uppi á þessum tíma og sat í fossanefndinni o.fl., hugsaði málin. Því taldi ég rétt að lesa þennan valda kafla upp.

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst vera lykilatriði þegar við nálgumst lagasetningu af þessu tagi er að við lítum fyrst og fremst til þess að vatn er grundvallarmannréttindi og að við höfum það að leiðarljósi við lagasetninguna. Þar kemur skýrt fram að ekki eigi að líta á vatn sem hverja aðra verslunarvöru heldur sé það hluti af réttinum til lífs. Það er skoðun mín að við eigum að nálgast málið þannig þegar við setjum þessi lög og með þekkingu á því að vatn er takmörkuð auðlind, með þekkingu á því að 1,2 milljónir manna hafa ekki aðgengi að almennilegu neysluvatni hér á jörðinni og þeirri staðreynd að menn telja að eftir 50 ár verði vatn orðið verðmætari auðlind en olía. (Forseti hringir.) Við eigum að umgangast það út frá slíku.