132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:02]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningum mínum sem voru einfaldar. Þess vegna ætla ég að varpa fram tveimur spurningum til hv. þingmanns og bið þingmanninn um að hlusta á mig.

Þorgeir Örlygsson, einhver merkasti fræðimaður á sviði íslenskrar löggjafar, hefur túlkað eignarrétt yfir vatni og vatnsréttindum. Það gerði hann í grein sinni frá 1994 um eignarhald á landi og náttúruauðlindum. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar, og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu.“

Þessu til stuðning vísar Þorgeir til hæstaréttardóms 1955, bls. 431, svokallaðan Kífsárdóm.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því í ljósi þeirrar ræðu sem hún hélt: Er hv. þingmaður sammála túlkun okkar helsta prófessors í eignarrétti um inntak eignarréttarins hvað varðar vatn og vatnsréttindi eða er hún ósammála þessu?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að hún vék hér að því löggjafarstarfi sem átti sér stað fyrir árið 1923 og vitnaði þar fyrst og fremst til þess sem nefndarmenn í minni hluta fossanefndar fjölluðu um, hvort er hún þeirrar skoðunar að minni hlutinn eða meiri hlutinn hafi orðið ofan á á endanum þegar bræðingurinn svokallaði varð að vatnalögum?

Það segir hér í grein Þorgeirs:

„Meiri hlutinn taldi öll vatnsréttindi vera ríkiseign en minni hlutinn taldi hins vegar vatnsréttindi vera háð eignarumráðum landeigenda.“

Síðan segir Þorgeir Örlygsson í grein sinni: „… í raun má segja að stefna minni hlutans hafi sigrað, og hefur ekki verið um það fræðilegur ágreiningur í íslenskum rétti.“ (Forseti hringir.)

Að sömu niðurstöðu kemst dr. Gaukur Jörundsson í eignarrétti sínum (Forseti hringir.) frá 1982. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því (Forseti hringir.) hvaða sjónarmið telur hún að hafi orðið ofan á í þessu löggjafarstarfi?

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. ræðumann að virða ræðutímann.)