132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:05]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi þarna í tilvitnun sinni í Þorgeir Örlygsson einmitt hitt naglann á höfuðið, vegna þess að þar var talað um eignarrétt á landi. (Gripið fram í: Á vatni.) Já, á vatni á landi. Það orðalag þykir mér vera grundvallaratriði vegna þess að ég tel að þarna sé verið að tala um yfirborðsvatn, þ.e. það vatn sem rennur á landi landeiganda, en að ekki sé verið taka til grunnvatnsins … (Gripið fram í: Jú, það …) Virðulegi forseti. Ef ég má klára, ég hef ekki lesið þessa (Gripið fram í.) grein en miðað við það sem hv. þingmaður las hér upp þá var um að ræða það vatn sem rennur á landi.

Virðulegi forseti. Það er sem er alvarlegast í þessari umræðu er að við búum einmitt við það í dag að það er nýtingarréttur á vatni, í því formi er ákveðin gerð eignarréttar, en hér er hins vegar verið að tala um allt rennandi vatn og grunnvatn, í loftkenndu, fljótandi eða föstu formi sem fer um landareign (Gripið fram í.) og grunnvatn er lykilatriðið í þessu.

Virðulegi forseti. Ef ég mætti fá að klára mál mitt þá þætti mér vænt um það. Við getum hist hérna frammi og rætt um þetta ef hv. þingmaður getur ekki klárað að hlýða á mál mitt hér. Þar getum við rætt þetta í samtali.

Virðulegi forseti. Það sem mér þykir mikilvægt er að við erum að ræða hér um að einkavæða grunnvatnið, þ.e. það vatnakerfi sem flýtur undir öllu landi og mér þykir, virðulegi forseti, leiðinlegt að hafa þurft að eyða tíma mínum í þetta þar sem ég hefði gjarnan viljað ræða við hv. þingmann um meiri- og minnihlutaálit fossanefndar og hvort þeirra hefði orðið undir eða ofan á vegna þess að ég tel að þarna hafi orðið (Forseti hringir.) ákveðin málamiðlun þar sem báðir aðilar (Forseti hringir.) fengu sitt fram. En við verðum að ræða það síðar.