132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við heyrðum í kvöldfréttum útvarpsins í gær að höfundar frumvarps ríkisstjórnarinnar um vatnalögin telja að í frumvarpinu felist engin efnisbreyting, aðeins sé um að ræða breytingu á formi. Í sjálfu sér er ekkert undarlegt að höfundurinn reyni að verja afkvæmi sitt á þennan hátt enda hefur þessu verið haldið fram í umræðunni af hálfu stjórnarmeirihlutans. Hins vegar er ég þessu algerlega ósammála og við í stjórnarandstöðunni höfum fært fyrir því ítarleg rök að svo sé.

Ég sé ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs hér í upphafi fundar til að vekja athygli Alþingis á því að á markaði líta fjárfestar öðruvísi á þessi mál. Vísa ég þar í ummæli eins af þeim fjárfestum sem verulega hafa hagnast á einkavæðingu Framsóknarflokksins og þeirri stefnu sem sá flokkur fylgir. Þar er ég að vísa í ummæli Ólafs Ólafssonar sem í byrjun janúar lýsti því yfir að hann hygðist selja Olíufélagið sem hann var aðaleigandi að. Hann sagði þá í fjölmiðlum að tilvonandi kaupendur gætu hagnast á því að fjárfesta í raforkugeiranum og í vatni.

Ég ætla að vitna í þessi ummæli, með leyfi forseta:

„Núna metum við það svo að ástandið á íslenska markaðnum, efnahagsástandið, sé afar hagstætt og verði það vonandi næstu árin, jafnframt að Olíufélagið sé til þess búið að fara í frekari verkefni hér heima, svo sem í orkugeiranum, hvort sem það er í vatni eða rafmagni (Forseti hringir.) og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða heildsölu. (Forseti hringir.) Við teljum að nú sé áhugaverður tímapunktur fyrir nýja aðila að gefa sig fram.“

Þetta er hið pólitíska (Forseti hringir.) og fjármálalega samhengi hlutanna og Framsóknarflokkurinn á Alþingi verður að horfast í augu við það.