132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er ekki auðvelt að tala um þetta mál hér vegna þess að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, eins og hv. síðasti ræðumaður, koma með svo fáránlegar yfirlýsingar að ég á ekki eitt einasta orð. Ég veit ekki hvernig á að vinda ofan af þessu bara fyrir hönd hv. Alþingis. (Gripið fram í: Þú kemst ekkert upp með að plata þjóðina.) Hvernig eigum við að vinda ofan af þessu fyrir hönd hv. Alþingis? Við getum ekki haldið svona áfram endalaust. Þetta er svo vitlaust. Þetta er svo vitlaust sem hv. þingmenn eru að reyna að segja þjóðinni. (Gripið fram í.) Ef ég skil það sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru að segja þá eru þeir að tala um stórkostlega eignaupptöku. Er það ekki það? (Gripið fram í.) Er það eitthvað annað sem verið er að tala um? Hvað kostar þá að kaupa öll þessi réttindi af bændum og af landeigendum? Eru hv. þingmenn búnir að reikna það út?

En það sem ég ætla að segja hér fyrst og fremst er — af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf þessa umræðu og vitnaði í orð ákveðins manns í viðskiptalífinu — að það er ekkert að marka það sem þessir þingmenn Vinstri grænna koma hér fram með og vitna í ummæli manna og þingmanna og ráðherra. (Gripið fram í.) Ég er með sönnun þess að þeir hafa reynt að falsa það sem ég hef sagt. (Gripið fram í: Hefur þú rök fyrir því?)

Það er þannig að ég kem í Kastljóssþátt fyrir alllöngu þegar undirrituð var viljayfirlýsing vegna kaupa ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Þeir hafa tvisvar sinnum sagt rangt frá því sem ég sagði. Þeir eru með þetta í fæl þannig að ég veit ekkert nema þeir safni bara í fæl fölsuðum ummælum. (Gripið fram í.) Þegar ég er spurð hvort þetta sé fyrsta skrefið í einkavæðingu Landsvirkjunar segja þeir að ég hafi sagt: „Já, það eru uppi áform um að breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag“ o.s.frv. Ég er búin að fá þennan þátt og er búin að horfa á þetta og ég segi: „Ja, ég er að hugsa mig um“ og segi svo: „Það eru uppi áform um að breyta síðan þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag.“ Þetta er hikorð, ja, og síðan held ég áfram og segi: „Það eru uppi áform um þetta.“

Þannig er búið að segja hér tvisvar sinnum að ég hafi sagt já, og það er falsað. Þeir eru með þetta í fæl og ég fór til hv. þingmanns til að vita hvort (Forseti hringir.) þetta væri bein útskrift af Fjölmiðlavaktinni. Nei, það er búið að pikka þetta upp aftur og breyta því. (Forseti hringir.) Þetta eru Vinstri grænir á Alþingi.