132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:22]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt við umfjöllun um þetta mál um aðlögun EFTA-landanna að vatnatilskipun Evrópusambandsins. Niðurstaða er komin í það mál. Það verður gengið frá því formlega á fundi núna í maí eða júní. Það er unnið að lagafrumvarpi um þetta mál í umhverfisráðuneytinu sem verður lagt fram hér á Alþingi í haust.

Frumvarp það sem hér er til umræðu á í engu að skarast á við væntanlegt frumvarp um stjórn vatnsverndar. Það hefur verið þannig að þingmönnum hefur verið fullkunnugt um það. Þess er getið í greinargerð með frumvarpi um vatnalög sem hér hefur verið til umræðu.