132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:23]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að við skulum koma hér til fundar á laugardegi í einhvers konar neyðarástandi til að breyta lögum, sem stjórnarliðið talar um að sé aðeins formbreyting. Það liggur svo mikið á að það þarf að funda á kvöldin og það þarf að funda um helgar.

Ekki það að við mætum ekki til fundar, heldur hitt að það er mikilvægt að þingið sé upplýst um það neyðarástand sem nú ríkir hvað varðar vatnsmál Íslendinga. Því það getur ekki verið annað en neyð og neyðarréttur sem gerir þá kröfu að þingið komi saman flest kvöld og um helgar til að ræða það mál sem okkur er kynnt sem formbreyting. Þetta mál er kynnt okkur sem formbreyting og okkur er sagt að Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu í nokkrum málum á öldinni og það sé gríðarlega mikilvægt að breyta þessu í sama farveg og niðurstöður Hæstaréttar kveða á um. Annar dómurinn er reyndar frá 1956 en seinni er nýrri.

Þannig að það er afar mikilvægt að við verðum upplýst um það hættuástand sem hér er uppi og þá kannski myndi stjórnarandstaðan skynja þetta betur. En á hinn bóginn kom fram í máli Karls Axelssonar, sem hér hefur verið vitnað til, á fundi í gær að hugsanlegt væri að ef lögunum yrði ekki breytt kynni það að skapa óvissu við Kárahnjúkavirkjun. Það kynni að skapa óvissu við tilfærslu á vatni sem þar er verið að vinna með. Ef þetta er það ástand sem menn eru að takast á við finnst mér sanngjarnt og eðlilegt að þingið sé upplýst um það. Það er lykilatriðið. Því tek ég undir kröfu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að iðnaðarnefnd komi saman og fari yfir þessar fullyrðingar, fari yfir það hvort þarna liggur hin raunverulega ástæða fyrir því (Forseti hringir.) að þingið er kallað saman öll kvöld og núna um helgi.