132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Breytingar í nýjum vatnalögum.

[11:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir áðan að um væri að ræða eðlilega og sjálfsagða breytingu. Þá kom einnig fram í máli hans ýmislegt sem benti til að hann hefði ekki setið undir þessari umræðu hér og fylgst með undanfarna daga. Fjöldinn allur af félagasamtökum og aðilum og stofnunum úti í samfélaginu hefur mótmælt þessari ráðstöfun og telur að hér sé ekki um eðlilega og sjálfsagða breytingu að ræða.

Þessir aðilar eru, virðulegi forseti: BSRB, þjóðkirkjan, Landvernd, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Félag eldri borgara, o.s.frv.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að þessir aðilar hafa lagt mál sitt fram með mjög skýrum hætti í umsögnum og ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra finnst mér a.m.k. að við eigum að tala um málið í réttu samhengi. Við getum ekki lýst því yfir hér að fjöldinn allur af fólki hafi verið dreginn að borðinu og staðið að samningu þessa frumvarps og hér sé eingöngu um eðlilega og sjálfsagða breytingu að ræða.

Virðulegi forseti. Mér finnst lítið fara fyrir því sjónarmiði, þegar hæstv. ráðherrar segja að hér sé eingöngu um formbreytingu að ræða, að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu árið 2002 að vatn yrði skilgreint sem mannréttindi, þ.e. aðgengi að vatni, og skilgreindu þennan áratug sem áratug vatnsins. Ekkert af nágrannaríkjum okkar eða Evrópuríkjum eru að fara þessa leið, þ.e. að þar sé skýrt eignarhald á vatni. Því erum við að fara aðra leið en þau ríki sem við erum í samstarfi við á alþjóðavettvangi. Við tökum ekki þátt í þessari umræðu um vatnið á áratug vatnsins, sem svo er skilgreindur af Sameinuðu þjóðunum. Mér finnst það skylda okkar að við tökum þá umræðu inn í (Forseti hringir.) þetta mál og lítum ekki eingöngu á tæknilegar lagahliðar á málinu eins og ríkisstjórnin virðist ætla að gera.