132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:35]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef áður beint þeim tilmælum til hæstv. forseta að hún velti því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að halda þessari umræðu áfram. Hvort hér hafi verið staðið nógu vel að málum til að verjandi sé að eyða tíma Alþingis með þeim hætti sem hér er gert. Mér finnst ástæða til að endurtaka þetta í tilefni af orðum hæstv. umhverfisráðherra áðan sem lýsti því skilmerkilega yfir, og ég þakka fyrir það, að nú séu þau málefni sem beðið var eftir í sambandi við vatnatilskipun Evrópusambandsins tilbúin og að frumvarpið liggi fyrir í drögum í ráðuneytinu, það eigi eftir að ganga frá því og hægt sé að gera það í sumar. Hæstv. ráðherra sagði að vísu að ekki þyrfti að binda það við þetta mál en ég vil vitna hér í umsögn aðalundirstofnunar umhverfisráðuneytisins hvað þetta varðar, annarrar aðalundirstofnunarinnar. Það stendur hér í umsögn Umhverfisstofnunar:

„Umhverfisstofnun gerir meginathugasemdir við eftirfarandi atriði og leggur til að …“ o.s.frv.

Það fyrsta sem Umhverfisstofnun tiltekur í þessari upptalningu er að frumvarp um lögleiðingu Vatnatilskipunarinnar verði lagt fram um leið og frumvarp um vatnalög. Það er fyrsta atriðið í umsögn Umhverfisstofnunar um hvað þurfi að vera til staðar til að hægt sé að ganga frá þessum málum. Mér finnst hæstv. umhverfisráðherra vera góður liðsmaður í ríkisstjórninni að leggja það á sig að halda því fram að það sem aðalundirstofnun ráðuneytisins segir hér skipti ekki máli, þ.e. að hafa þurfi þetta hvort tveggja fyrir augunum til að geta borið saman þær niðurstöður sem menn hafa komist að um hvað standa eigi í þessum lagabálki.

Þess vegna geri ég þá tillögu til hæstv. forseta að hún velti því fyrir sér hvort ekki sé rétt að doka nú við og að hæstv. forseti skoði það líka hvort hún ætti ekki að beita sér fyrir því að menn taki á vatnalögunum með svipuðum hætti og gert var þegar samkomulag náðist í öllu þinginu um „bræðinginn“ sem vatnalögin voru kölluð á þeim tíma en það var samkomulag Alþingis um niðurstöðuna. Nú er sú sátt rofin. Hæstv. iðnaðarráðherra kemur hér með frumvarp sem samið er úti í bæ, ekki með aðkomu neinna annarra en þeirra sem hæstv. iðnaðarráðherra réð til verksins. Ekki er verið að leita að pólitískri sátt um eitthvert mesta deilumál sögunnar í íslenskum stjórnmálum. Nei, nei, það skal fara bara í verktöku úti í bæ og svo eru verktakarnir spurðir hvort þetta sé ekki fínt hjá þeim. (Gripið fram í.) Auðvitað er niðurstaðan sú að þetta sé óskaplega fínt hjá þeim.