132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:38]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Allítarleg umræða hefur verið í morgun um það málefni sem hér um ræðir og er ljóst að menn greinir á, stjórn og stjórnarliða, um túlkun á því frumvarpi sem við ræðum.

Málið var á sínum tíma tekið út úr iðnaðarnefnd ágreiningslaust að ég tel. (Gripið fram í.) Það var búið að fara mjög ítarlega yfir málið og senda það til umsagnar, bæði á síðasta löggjafarþingi og á því löggjafarþingi sem nú stendur yfir. Umsagnaraðilar voru allir kallaðir fyrir nefndina og þar var farið mjög ítarlega yfir málið og stjórnarandstaðan kom ekki með kröfu um að fleiri aðilar yrðu kallaðir fyrir nefndina. Málið var því útrætt en það var alveg ljóst í störfum nefndarinnar að menn greindi á í þessu máli. Það lá fyrir allan tímann.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom hér upp í gær og vitnað í ummæli Karls Axelssonar og hefur komið með beiðni um að kalla hann fyrir nefndina og fjalla um málið, og reyndar fleiri hv. þingmenn. Mér finnst sjálfsagt að iðnaðarnefnd taki málið fyrir og hitti Karl Axelsson. Mér finnst mikilvægt að við klárum 2. umr. og köllum svo Karl Axelsson fyrir eftir hana. Það eru þrjár umræður um hvert mál á hv. Alþingi. Málið verður ekki afgreitt fyrr en að lokinni 3. umr.

Ég tel, hæstv. forseti, að það mundi liðka fyrir störfum þingsins að við kláruðum 2. umr. og verðum svo við þeirri sjálfsögðu ósk að kalla Karl Axelsson fyrir nefndina og spyrja þann fræðimann út úr hvað varðar þetta vatnalagafrumvarp. Ég tel að við ættum að einbeita okkur að því að klára 2. umr. um málið og kalla síðan Karl Axelsson fyrir nefndina. Mér finnst það venjulegur framgangur í málinu og tel að við ættum að stefna að því að ljúka 2. umr. fljótlega og ræða því næst við Karl Axelsson í nefndinni.