132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að fresta eigi þessum fundi núna og kalla iðnaðarnefnd saman þegar í stað. Okkur dugir ekki að láta 2. umr. fara fram og kalla nefndina síðan saman. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hvað standi til að halda þessum þingfundi lengi áfram. Þetta eru mjög óvenjulegar aðstæður. Ríkisstjórnin lítur greinilega svo að svo mikið liggi við að koma þessu máli í gegnum þingið, að lögfesta einkaeignarhald á vatni, að kalla verði þingið saman á föstudegi og laugardegi þótt dagskrá þingsins hafi verið á allt annan veg. Þessi fundur er haldinn gegn vilja stjórnarandstöðunnar og við höfum mótmælt því mjög harðlega að til þessa fundar skyldi boðað. Nú óskum við eftir því að fá upplýsingar um hve lengi standi til að halda fundinum áfram.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér upp og vildi fá að vita hve lengi menn ætli að tala í þessu máli. Ég minnist þess ekki að hann hafi nokkurn tímann skýrt þingheimi frá því hve lengi hann ætlaði að halda sínum ræðum áfram og hve langar þær yrðu. Þetta er því mjög óvenjuleg ósk.

Hitt er venjuleg ósk og eðlileg að þingið vilji vita frá hæstv. forseta hve lengi standi til að þingfundur standi. Er til of mikils mælst að við fáum upplýsingar um hve lengi standi til að halda þessum fundi áfram?