132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:45]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að einn hv. þingmaður, Pétur Blöndal, fari fram á að menn tímasetji eða gefi upp þann tíma sem þeir ætla sér hér til umræðu einfaldlega vegna þess að hann heldur ekki athygli í meira en 15 mínútur. Mörgum hefur reynst vel að skrifa niður minnispunkta. Hér er fjöldi starfsfólks og er hægt, virðulegi forseti, að óska eftir því að það taki niður minnispunkta fyrir hv. þingmann á meðan menn eru í ræðustól.

Hv. þingmaður sagði líka að það hefði verið óeðlileg ósk frá hv. þm. Helga Hjörvar hér í gær að óska eftir að iðnaðarráðherra væri á staðnum og að málinu yrði frestað þar til iðnaðarráðherra hefði komið til þingfundar. Ég sagði hér í gær að hæstv. ráðherra hafði eðlileg forföll en að það var ekki öllum þingmönnum ljóst. Hins vegar hefði verið eðlilegt að fresta umræðunni. Þó nefndin sé búin að fjalla um málið og hér sé hv. formaður iðnaðarnefndar til að svara þeim spurningum sem nefndarmenn leggja fyrir hann og lúta að vinnu meiri hlutans þá er það rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan — Hún ber ábyrgð á málinu — og í nefndarstarfinu vöknuðu spurningar þess eðlis að hæstv. ráðherra þarf að svara þeim fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að fara fram á að hæstv. ráðherra sé á staðnum.

Hér hafa komið fram óskir um að þingfundi verði frestað og nefndin kölluð saman nú þegar. Í 15. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. Sama gildir um ósk frá þeim nefndarmanni sem falið hefur verið að vinna að athugun máls, ...“

Í 20. gr. segir, með leyfi forseta:

„Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum.“

Nú er þessi fundur í dag ekki á starfsáætlun Alþingis. Það er löngu ljóst og mikið hefur verði rætt um það hér. Það er eðlilegt að verða við þeim óskum sem fram hafa komið, ekki frá þriðjungi nefndarmanna heldur fleirum, um að fresta þingfundi og kalla nefndina saman og taka til umræðu þær ábendingar sem hér hafa komið fram. Það eru fullkomlega eðlileg vinnubrögð að þannig verði staðið að verki í dag.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að þingflokksformenn verði kallaðir til fundar og við ræðum um framhald þessa máls.