132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:48]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða fundarstjórn forseta og vil aftur fá að endurtaka ósk mína frá því í gær — hún er jafngild í dag og hún var þá — ósk mína um að eftir að þessari umræðu um fundarstjórn forseta lýkur þá verði fundi slitið, við tökum síðan upp þráðinn aftur á mánudaginn kl. 15 með þingfundi og förum þá að ræða einhver önnur mál, önnur frumvörp heldur en þetta frumvarp um vatnalög.

Ég legg síðan til að sjálfsögðu að álit minni hlutans verði tekið til greina og þetta mál látið niður falla, það komi síðan aftur inn í þingið næsta haust eftir að hæstv. iðnaðarráðherra hefur hugsað sinn gang og fengið til borðsins á nýjan leik hæfustu menn og konur til að endurskoða frumvarpið og taka tillit til athugasemda sem hafa borist um það bæði frá umsagnaraðilum en líka frá hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls nú við 2. umr. Þetta væri langskynsamlegasta lausnin á málunum eins og þau líta í dag.

Ég sakna þess, virðulegi forseti, að hafa ekki enn fengið að heyra neinn efnislegan rökstuðning, hvorki frá hæstv. iðnaðarráðherra sem talaði hér áðan né frá hæstv. forsætisráðherra sem líka tók til máls en er nú horfinn úr salnum, efnisleg rök fyrir því hvað gerir það að verkum að svo mikið liggur á að koma þessu frumvarpi í gegnum þingið nú á þessu vorþingi. Þessi rök hefur þingheimur ekki fengið að heyra.

Ég vil því mælast til þess, virðulegi forseti, að það verði óskað eftir því við þessa tvo hæstv. ráðherra að þau komi hér upp í ræðustól og upplýsi þingheim um hver ástæðan sé fyrir því að það liggi svo mikið á núna að hér þurfi að halda bæði kvöldfundi, nánast næturfundi, það þurfi að kalla saman þing á föstudegi og laugardegi og nú síðast gefa það sterklega í skyn að hér skuli áfram haldið nánast hvað sem það kostar.

Ég ætla svo sem ekkert að kinoka mér undan því að taka þátt í þeirri umræðu. Ég er reiðubúinn í hana, mjög vel undirbúinn og mun hér tala eins lengi og mig lystir. Ég skammast mín ekkert fyrir það. Það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að koma athugasemdum okkar á framfæri. Það er líka hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að vara þjóðina við þegar meiri hlutinn er svo augljóslega að leiða þjóðina út í ógöngur. Þá er það einfaldlega okkar skylda. Að sjálfsögðu notum við okkar lagalega rétt til að gera það með tilvísun einmitt í greinar laga um þingsköp. (Forseti hringir.)