132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:53]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérkennilegt að koma inn á Alþingi um stundarsakir á nýjan leik. Þingfundirnir undanfarna daga minna í raun miklu frekar á málfundaræfingu en umræðu í þjóðþingi.

Hinn ástsæli söngvari íslensku þjóðarinnar Guðmundur Jónsson söng einhvern tíma texta sem er eitthvað þessa leið: „Það er eins og gerst hafi í gær.“ Ómur gærdagsins hljómar hér í dag. Ef við rifjum upp undanfarna daga erum við alltaf í sama farinu. (Gripið fram í.)

Spurningin er þessi: Er um málþóf að ræða eða ekki? Menn hafa sagt jafnvel að þeir skyldu frekar dauðir liggja heldur en samþykkja þetta frumvarp. (Gripið fram í.) Þá er spurningin, forseti, hvort hér sé um skapandi tregðu að ræða, hvort þetta sé skapandi tregða eða hvort þetta sé bara tregðulögmál. Til eru stjórnunarhugtök eins og hv. þingmaður hugsanlega veit sem gjammar hér fram í ræðu mína. Ég hlustaði ákaflega vel á ræðu Jóhanns Ársælssonar hér á dögunum þegar hann fjallaði um vatnalögin en ég var engu nær þannig að þetta var (Gripið fram í.) ekki skapandi tregða heldur bara tregðulögmál. (Gripið fram í.)