132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:22]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil segja það í upphafi, af því að við erum að ræða um störf þingsins, fundarstjórn forseta og hugmyndir um það hvort vísa eigi máli þessu til iðnaðarnefndar eða fresta hér fundi, að það er mín skoðun að hvorki sé ástæða til að fresta þessum umræðum né að vísa málinu til iðnaðarnefndar. Sjálfur á ég sæti í iðnaðarnefnd og fylgdist mjög vel með og tók þátt í meðferð málsins í nefndinni. Þar var öllum spurningum svarað, öllum spurningum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar var þar svarað. Nefndarstarfið fór þannig fram að allir gestir sem óskað var eftir voru kallaðir fyrir nefndina, þeir spurðir spjörunum úr og það lá ekkert fyrir eftir nefndarstarfið. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður bað ekki um fleiri gesti fyrir nefndina til að spyrja.

Síðan þegar málið er tekið úr nefndinni bregst stjórnarandstaðan við með því, frú forseti, að grípa hér til málþófs vegna þess að stjórnarandstaðan hefur nákvæmlega ekkert efnislegt haft fram að færa um þetta mál. Ekkert. Hv. þm. Jóhann Ársælsson er þar engin undantekning. Hér hafa menn lesið ræður gamalla þingmanna, lesið upp úr bókum, og hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur t.d. flutt hér ljóð. Þetta hefur verið framlag Samfylkingarinnar til þessa máls. Það er ekki merkilegt að mínu mati.

Ég ætla reyndar að varpa ljósi á alla vitleysuna í málflutningi Samfylkingarinnar fyrir forseta til að sýna honum fram á hvers lags þvæla hefur verið hér í gangi. Menn hafa tekist á um það hvort vatn og vatnsréttindi séu undirorpin einkaeignarrétti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hrökk af hjörunum í gær og sagðist fyrr dauður liggja en að vatnið yrði einkavætt. Það var reyndar gert árið 1923, (Gripið fram í.) fyrir 83 árum, þannig að hv. þingmaður er frekar seint á ferðinni með ræðuhöld sín. Um það hefur ekki verið fræðilegur ágreiningur, hvorki fyrir Hæstarétti né í íslenskum rétti, að vatnið sé undirorpið einkaeignarrétti.

Það sem vekur hins vegar athygli, frú forseti, og það sýnir þvæluna og málþófið er að hv. þingmenn eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafa tekið til máls í öðrum málum sem eru skyld þessu, þjóðlendumálinu. Hvar stendur Samfylkingin og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir í þeirri ræðu, og hv. þm. Jón Bjarnason? Standa menn með fjármálaráðherra þegar hann gerir kröfugerð um að ná eignarrétti í þjóðlendum? Nei, auðvitað ekki. Menn hafa staðið þar með landeigendum, og staðið þar vörð um einkaeignarréttinn, þar á meðal vatnið og (Forseti hringir.) vatnsréttindin þannig að menn tala hér í algjöran kross. Hér er á ferðinni málþóf, ekkert efnislegt framlag til umræðunnar. Ef þeir vilja halda þessu áfram (Forseti hringir.) verði þeim að því. Ég hvet forseta til að halda fundi áfram.