132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki alveg hvort þessi síðasta ræða var undir liðnum Um fundarstjórn eða átti við um hana. Hvað um það, hæstv. forseti. Ég vil gera það að tillögu til hæstv. forseta að í matarhléi sem væntanlega verður kl. eitt fari forseti fram á það, vinsamlega, við formann iðnaðarnefndar, hv. þm. Birki J. Jónsson, að iðnaðarnefndin verði kölluð saman og orðið verði við þeim tilmælum þingmanna sem hafa óskað eftir að farið verði yfir málið, m.a. með þeim lögmanni sem flutti um það erindi í gær, og nefndinni tjáð það sem eftir honum hefur verið haft. Deilan gengur út á það að menn ræði formbreytingu eingöngu og skilningur manna á því er greinilega algjörlega hvor í sína áttina. Ég held að fullt tilefni sé til þess, hæstv. forseti, að breyta vinnubrögðum. Það hefur ekkert gengið í þessu máli undanfarna daga og það er alveg sýnilegt að með sama lagi mun ekkert ganga í málinu.

Ég held þess vegna að mjög eðlilegt sé að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að meðan á matarhléinu stendur verði iðnaðarnefnd gefið tækifæri á að hittast og skýra þessi ummæli Karls Axelssonar lögmanns. (BJJ: Fáum við ekkert að borða?) Þú hefur nú hingað til getað fengið mat á nefndasviði Alþingis, ef ég veit rétt, hv. þingmaður, a.m.k. þegar ég hef setið með þér fundi.

Ég held að þetta vinnulag sem við upplifum hér færi okkur ekki neitt áfram í málinu, hæstv. forseti, og þá sé eðlilegt að hæstv. forseti taki þessa umræðu annars vegar við þingflokksformenn, um framhald þinghaldsins, á meðan fundi verður haldið uppi í iðnaðarnefnd og svör fengin um það sem menn greindi á um í morgun. Það gæti e.t.v. orðið til þess að umræðan gengi betur á eftir og að mál skýrðust eitthvað. Það er alveg sýnilegt að þessi tilbúningur málsins sem hér hefur átt sér stað, að reyna að keyra það áfram í ósátt, þjónar engum tilgangi í málinu, ekki nokkrum. Ef eitthvað er mun sú vinna sem hér er sett af stað í þessari viku, þvert ofan í starfsáætlun þingsins, aðeins verða til þess að málið taki enn lengri tíma, það verði enn ríkari meiningar og meira ósætti en verið hefur.

Þetta geri ég að tillögu minni, hæstv. forseti, og vonast til þess að við henni verði orðið.