132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er eins og gerst hafi í gær. Ég hef meðan þessari umræðu hefur undið fram verið að glugga einmitt í Alþingistíðindi frá 1923, 83ja ára gamlar umræður þeirra þingmanna sem þá voru hér í þessum sal að ræða gamla frumvarpið um vatnalögin. Þá kemur einmitt greinilega fram að menn stóðu fyrir mjög erfiðri lagasetningu en þar skilur á milli þeirra þingmanna sem báru ábyrgð og voru þá við stjórn landsins og þeirra þingmanna sem nú bera ábyrgð og eru við stjórn landsins. Þá vissu menn um ábyrgð sína og menn voru staðráðnir í því að vanda sig — og gengur þá formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, úr salnum. Þá voru menn staðráðnir í því að vanda til verka. Þá kom frumvarpið fyrst til umræðu 1917 og það var rætt á hverju einasta þingi fimm sinnum með undantekningu frá árinu 1918, vegna þess að menn voru að reyna að ná niðurstöðu.

Hér erum við í stjórnarandstöðunni með þá einlægu og frómu ósk að þessu máli verði vísað frá og það verði tekið aftur til endurskoðunar og við fáum síðan nýtt frumvarp aftur í haust. Mér finnst þetta eðlileg og sanngjörn krafa. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á hér áðan að það þarf að koma með nýtt frumvarp. Þær breytingar sem liggja núna fyrir í hinu nýja frumvarpi um vatnalög, ég vil frekar kalla þetta frumvarp um vatnsréttindi eða vatnsnýtingu, en gott og vel, þær breytingar sem nú liggja fyrir samanborið við gömlu lögin eru grundvallarbreytingar. Ég kaupi það einfaldlega ekki þegar menn eru að segja, jafnvel þó að löglærðir séu, nú er ég ekki lögfræðingur, en ég kaupi það hreinlega ekki þegar menn koma hér og eru að reyna að sannfæra mig og aðra, já, þjóðina alla um að þetta sé bara einhver formbreyting. Það er ekkert þannig. Ef maður les lagatextann af skynsemi og yfirvegun og dregur svo sínar ályktanir þá er ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hér sé um grundvallarbreytingar að ræða, hér sé verið að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir varðandi eignarrétt á þessu efni sem er vatn, sem er grundvöllur alls lífs og skiptir höfuðmáli. Án vatns væri ekkert líf.

Svo vil ég benda á það að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafði rangt eftir mér hér áðan. Ég sagði í gær að fyrr skyldi ég dauður liggja en að taka þátt í því að samþykkja svona lög. (Forseti hringir.) Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi eins og það lítur út. (Gripið fram í: … standa við orð sín.)