132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[12:39]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég er nokkuð hissa á því hvernig hæstv. forseti í raun þvælist fyrir þinghaldinu. Það liggur fyrir að hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir hefur boðað að hún ætli að halda fund með formönnum þingflokka. Hvers vegna í ósköpunum er það ekki gert strax? Ég átta mig ekki á því (Gripið fram í.) hvað er í gangi hérna. Það liggur fyrir að búið er að ákveða að boða eigi fund. Það eru ný rök í málinu sem komu fram í gær sem ég er á að þurfi að ræða vegna þess að ég, sem sit í iðnaðarnefnd þingsins, hef hlýtt á rök stjórnarsinna og tekið þau svona mátulega trúanleg en haft mínar efasemdir vissulega um að þetta sé eingöngu formbreyting en ekki efnisbreyting. Síðan kemur fram á fundi, sem ég því miður missti af í gær, að frumvarpshöfundur staðfestir að um efnisbreytingu sé að ræða. Ég er á því að þetta séu algjörlega nýjar upplýsingar fyrir okkur í iðnaðarnefnd.

Við verðum að gæta að því að frumvarpshöfundur, Karl Axelsson, var einn af hugmyndafræðingum á bak við annað frumvarp sem var hér mjög til umræðu, og vil ég minnast á fjölmiðlalögin. Hann sat í fjölmiðlanefnd og það mál kom fyrir þingnefndina og olli mjög miklum deilum, ekki eingöngu hér í þinginu heldur í þjóðfélaginu. Eftir að búið var að ræða það mál og þrefa um, ekki bara hér heldur úti um allt þjóðfélagið, sá meiri hlutinn að sér og dró þau lög til baka. Það er aldrei að vita nema menn sjái að sér í stjórnarmeirihlutanum, ekki einungis með fjölmiðlalögin eins og þeir gerðu og sáu að sér og sáu eftir greinilega, heldur einnig með þessi lög. Við höfum ekki fengið réttar upplýsingar.

Ég lýsi yfir algjörri furðu á svona stjórn sem fram kemur eins og hjá hæstv. forseta, að vera búin að boða að ætla að halda fund en segir ekkert hvenær hún ætli að halda hann. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ég átta mig í rauninni ekkert á því hvað vakir fyrir hæstv. forseta. Hún boðaði hér breytingar á þinghaldinu, fjölskylduvænt þing og síðan er hún að boða fund einhvern tíma og einhvern tíma, ljúka þessum þingfundi en hún vill ekki gefa það upp. Mér finnast þetta vera mjög einkennileg vinnubrögð, frú forseti, og það væri mjög áhugavert að fá afstöðu þess forseta sem situr nú í stóli hvað þetta eigi að þýða, hvort hún vilji í rauninni taka þátt í þessari dellu sem hér á sér stað.